Færslur: 2014 September

28.09.2014 22:15

Gangsterinn komin heim.

Sælir kæru lesendur

Hér í Litla-Garði er allt á fullu í frumtamningum og erum við svo heppin að vera búin að ganga frá ráðningum á tamningarfólki út ágúst 2015. Johanna Schulz nýútskrifaður Hólanemi af þriðja ári hefur starfað hjá okkur í sumar og ætlar að vera hjá okkur langt fram á næsta ár. Önnur stúlka bætist í hópinn í vetur Lena Holler, báðar þrælklárar og góðar tamningarkonur. Biggi heldur sínu striki eins og öll hin árin og stýrir skútunni :) 

Eins og áður segir er allt á fullu í frumtamningum og er búið að vera allt stútfullt hjá okkur nú síðsumars og í haust. Erum að hugsa um að ráða einn annan starfsmann og getum þá bætt við okkur örfáum hrossum, þannig að kæru lesendur, um að gera að hafa samband sem fyrst ef að þið viljið koma ykkar trippum í góðar hendur.

Og að allt öðru :)

Það var virkilega gaman að fá að sjá Gangster aftur en hann hefur verið á suðurlandinu í sumar.
Nú í vikunni kom hann heim á ný og fer í gott frí til að byrja með.
 Þótt það hafi farið vel um hann á suðurlandinu leyndi það sér ekki hvað kall var ánægður að sjá heimahagana á ný :)






Það eru spennandi tímar framundan og mikil tilhlökkun í að taka inn í vetur þar sem að efniviðurinn hefur sjaldan eða aldrei verið meiri í húsinu og er ekki séð fyrir enda á því enn :) Meir um það síðar :) 

Bestu kveðjur frá Litla-Garði.


 

18.09.2014 09:55

Ræktun hesta og kinda skoðuð :)

Komið þið sæl :)



Í gær fengum við stórskemmtilega heimsókn. 

Hingað mættu 25 galvaskar konur frá Svíþjóð til að kynna sér okkar ræktun.  Var verulega gaman að geta sagt þeim frá okkar rótgrónu ræktun sem að Magni í Árgerði hóf upp úr 1960 og Dísa kona hans með honum  frá 1973. Við, Biggi og Herdís höfum síðan ásamt þeim haldið þeirri ræktun áfram og eru hrossin okkar ýmist kennd við Árgerði eða Litla-Garð.  Var fólkið forvitið að vita tengslin og svona fyrir þá sem ekki þekkja til er Herdís dóttir Dísu og fósturdóttir Magna.  Jarðirnar liggja saman og er einungis einn kílómeter á milli þeirra. Þannig að þetta er einstaklega þægilegt upp á dagleg samskipti. 

Sænsku konurnar eru hér að skoða ættartréð stóra  en að mestu má rekja alla okkar ræktun til Snældu frá Árgerði.  Ættbogi hennar er orðin afar stór og myndarlegur. Saga Snældu-Blesa vakti athygli en það má með sanni segja að brasið með hann er hann fótbrotnaði og var hjúkrað til heilsu svo hann gæti sinnt merum hafi aldeilis skilað sér þar sem að hann er á bak við okkar allra sterkustu ræktunarhross í dag eins  og Elvu frá Árgerði  Glæðu frá Árgerði og afkvæmi hennar þau Glettingu, Gloríu,Gangster, Glym, og nýjustu stjörnuna okkar hana Mirru Glymsdóttir frá Litla-Garði og áfam mætti lengi telja.


Einnig vakti athygli mynd af Heklu Pennadóttir frá Árgerði . Hún var hreinræktaður Árgerðingur og eru ekki allir sem vita að hún er einmitt móðir hinnar miklu gæðingamóðir Óskar frá Brún.  Afkvæmi Óskar eru ekki af verri endanum og má þar nefna fyrstu verðlaunahestana Óð, Ofsa, Óm, Hljóm, Óskahrafn og Höld frá Brún.

 

Virkilega gaman að fara svona oní saumana og sjá hvað framræktunin er gríðarleg frá gamla höfðingjanum honum Magna í Árgerði en stóðhesturinn Penni frá Árgerði er einmitt langafi þessara hesta.   Það er draumur hvers ræktanda þegar að ættboginn vex og dafnar með slíkum árangri :)


En að allt öðru, fyrstu göngur eru búnar og voru skil á fé góð, Þó eru  nokkrar skjátur enn eftir að skila sé heim. Vel var mætt í réttir hjá okkur og vorum við svo heppin að hafa litlu ömmu og afastelpuna í heimsókn;)


Viktoría Röfn, litla prinsessan og langamma "Dísa" í rettunum:) 


Sindri Snær með vini sínum og nágranna Óla í Hvassafelli. Og að sjálfsögðu átti hann þennan myndar hrút.

 Dísa Viktoría, Heiður Nanna  og Breki tóku sig vel út í réttum :) 



Andri ánægður með fenginn :)


Skildi þetta vera lífgimbur?


Einhver þarf að sjá um bókhaldið :) 


Það er ómetanlegt að hafa góða aðstoð í réttunum, Nanna systir Bigga og Andri tengdasonur hennar létu ekki sitt eftir liggja :)


Stundum er gott að hjálpast að.

Látum þetta duga í bili, gaman að sjá hveru margir eru duglegir að fylgjast með okkur hér á síðunni, það hvetur mann  til að setjast við tölvuna og skrifa fréttir: af daglegu amstri. 

Lifið heil!


02.09.2014 11:41

Bæjarkeppni

Sælir kæru lesendur,


Haustið nálgast og minnir á sig á margan hátt þótt veðursældin sé ekkert búin að yfirgefa okkur ennþá.
Skólinn er byrjaður, heyskap lokið og göngur næstu helgi, kartöfluuppskera stefnir í algjört met og þarf maður að fara að drífa sig að taka upp því ekki er gott að kartöflurnar spretti um of.

Bæjarkeppnin var síðustu helgi og er hún einnig haustboði þar sem að hún  er síðasta mótið hér norðanheiða á árinu.  


Biggi á Mirru frá Litla-Garði og Hafþór á Vísi frá Árgerði

Vel var mætt frá Litla-Garði á bæjarkeppni, alls 6 keppendur og vantaði samt Ásdísi og Nönnu í hópinn til að fullkomna hann.

Ásdís var í staðinn ferlega dugleg að taka myndir og deili ég þeim hér með til ykkar :)


Jóhanna okkar á Glymru frá Litla-Garði


þær eru algjört æði þessar stöllur :)



Hafþór elsti sonur okkar kom frá Reykjavík á laugardagskvöldið ásamt litlu fjölskyldunni sinni sem fer reyndar óðum stækkandi þar sem að hann og Heiður eiga  von á sínu öðru barni :) Notaði Hafþór tækifærið og skellti sér á Vísi frá Árgerði í bæjarkeppnina og höfðu þeir félagar engu gleymt :)


flottir félagar.




Júlía okkar sem var síðast hjá okkur 2010 er komin aftur frá Þýskalandi og ætlar að vera í einn mánuð, ekkert smá gaman að því. Hún skellti sér á Viðju frá Litla-Garði og stóðu þær sig með prýði :)


Júlía og Viðja flottar á bæjarkeppni Funa :)




Sindri og Tónn frá Litla-Garði sigruðu barnaflokkinn með stæl :)


Það er búið að vera verulega gaman að fylgjast með Sindra í sumar, Hann hefur vaxið hratt og tekið miklum framförum í reiðmennskunni, komin riddarabragur á kallinn :)



Það sem gerir bæjarkeppnina svo skemmtilega er litrófið.

Þarna sést nefnilega líka fullt af fólki sem vanalega er ekki mikið í brautinni.



Hér er Rósa frá Halldórsstöðum á Neista sínum, þau gerðu sér lítið fyrir og skelltu sér í annað sætið í kvennaflokki :)

Sjálf tók ég þátt á Emilíönu frá Litla-Garði og vorum við bara sáttar með hvor aðra, Emilíana er mjög svo vaxadi meri og skemmtum við okkur vel saman, hver veit nema maður fari að gera meira af þessu :)


Herdís og Emilíana lentu í 3ja sæti í kvennaflokki :)




Skemmtileg fjórgangshryssa sem er til sölu.



Systurnar Glymra og Emilíana.




Þessi gaur var líka ansi flottur og setti sinn lit á þessa skemmtilegu keppni. 

Gestur okkar á Molasyninum sínum.



Síðast en ekki síst var Biggi með Mirru frá Litla-Garði, mikið svakalega var hún flott.




Algjört augnakonfekt þessi meri sem vex í hverjum reiðtúr, Biggi sem er nú ekki yfirlýsingaglaður maður er meira segja farin að missa út úr sér stór  orð um hvað þessi hryssa eigi eftir að gera geðveika hluti í framtíðinni , látum það liggja á milli hluta í bili :)


Og að sjálfsögðu sigraði Biggi karlaflokkinn á þessari sprengju.


Læt Mirru eiga síðasta orðið :)
  • 1
Flettingar í dag: 753
Gestir í dag: 189
Flettingar í gær: 851
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 819766
Samtals gestir: 54582
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 20:14:29