25.11.2018 11:17

Góðar heimsóknir



Sælir kæru lesendur. 



Löngu kominn tími á fréttir frá Litla-Garði en svona er þetta, tíminn hleypur frá manni. Héðan er allt gott að frétta, sumarið leið á ógnarhraða með öllum þeim verkum sem til falla á þessu örstutta sumri okkar hér á Íslandi. 



Vænting frá Ási með hryssu undan Kolbak frá Litla-Garði

Okkur fæddust 8 folöld þetta árið, 5 hestfolöld og 3 hryssur.
 Eru þau undan Kolbak frá Árgerði, Hreyfil frá Vossabæ, Skaganum frá Skipaskaga og Huga frá Sámsstöðum. 


Heikir er undan Kolbak frá Litla-Garði og Hremmsu frá Litla-Garði 


Miðill frá Litla-Garði undan Skaganum frá Skipaskaga og Mirru frá Litla-Garði
 

Smyrill frá Litla-Garði F. Kolbakur frá Litla-Garði M. SIlfurtá frá Árgerði

Myndir af hinum folöldunum koma inn síðar, en ég hvet ykkur til að vera dugleg að fylgjast með okkur á Facebook síðunni okkar, við reynum að uppfæra þar reglulega. 





 Í ágústbyrjun kom okkar kæra Jóhanna Schulz til okkar með yndislegar mæðgur frá Frakklandi. 
Dvöldu þær hjá okkur í nokkra daga og var margt brallað á þeim tíma. 


Jóhanna okkar að njóta veðurblíðunnar við Goðafoss. 

Við skelltum okkur á Einarstaðamótið



þar sem að Biggi og Gangster komu, sáu og sigruðu!



Það var riðið út,


Alla daga




Riðið til fjalla og að sjálfsögðu fylgdi Skundi með :) 



Brugðið á leik í náttúrufegurðinni.




Á endanum var ekki annað hægt en að skella sér út í :) 


sprellað :)


Riðið yfir ár og dali







Prufuð góð hross 



Mæðgurnar sáttar og glaðar. 

Innilega til hamingju með hryssurnar ykkar, gangi ykkur alltaf sem best! 





Höski Aðalsteins vinur okkar kom með hóp af frábæru fólki frá Austurríki og Þýskalandi í göngur og réttir í haust



Gekk allt mjög vel þrátt fyrir að kalt hafi verið til fjalla. 





 

Allir sælir og glaðir eftir góða daga í Litla-Garði. 





Kærar þakkir Höski og þið öll hin, frábær hópur! 


 Bestu kveður frá okkur í Litla-Garði 

25.06.2018 11:41

Kynbótastarfið


Sælir kæru lesendur. 



Biggi heilsar hér með virtum á Tangó frá Litla-Garði og Selina á Kolbak frá Litla-Garði :) 



Það er sannarlega löngu komin tími á smá blogg frá Litla-Garði en eitthvað hefur tímaleysi verið að hrjá mann eins og gengur og gerist. 
Hér gengur allt sinn vanagang, Biggi og Selína á fullu í tamningunum og nú hefur SIndri Snær bæst í hópinn. 
Sauðburður gekk með ágætum, kindur komnar á fjall og útigangshrossin rétt ófarin á dalina. 

Biggi fór með nokkur hross á kynbótasýningu á Hólum í Hjaltadal og var bara sáttur með sitt. 




 Viktoría frá Árgerði á siglingu.  F: Kapall frá Kommu M: Kveikja frá Árgerði. 




Fyrst ber að nefna Viktoríu frá Árgerði. Hún hlaut í byggingu 7,78 hæfileika 7,84 og í aðaleinkunn 7,82. Hún hlaut 9,5 fyrir skeið.  Það er nokkuð góður árangur hjá þessarri 7 vetra hryssu sem var í folaldseignum í fyrra. 



Flauta frá Litla-Garði er vaxandi 6 vetra Gangsters og Melódíu dóttir frá Árgerði. Hún hlaut í byggingu 7,98 í hæfileika 8,05 og Aðaleinkunn 8,02 



Flauta hlaut 8,5 fyrir skeið og á talsvert inni.




Vaka frá Árgerði er 6.vetra undan Gangster og Von frá Árgerði. Hún bætti sig talsvert og hlaut í sköpulag 8,39 í hæfileika 8,19 og í aðaleinkunn 8,27. Hún hlaut 9,0 fyrir skeið, vilja og geðslag. 


Vaka frá Árgerði





Kolbakur frá Árgerði er fjögurra vetra stóðhestur undan Gangster og Snældu frá Árgerði. 


 
Hann hlaut í sköpulag 8,05 í hæfileika 7,63 og í aðaleinkunn 7,80. 


 
Það er hreint unun að horfa á þennan hest og hans mikla hreyfieðli, það verður ekki leiðinlegt fyrir Bigga að þjálfa þennan í framtíðinni. 


Kolbakur 4.v. 




Búið er að sleppa Kolbak í hólf heima í Litla-Garði og er ekkert mál að bæta inn á hann ef að einhverjir hafa áhuga á að koma með hryssur til hans.  




Tangó 4.v Gangsters og Melodíusonurinn frá Litla-Garði sýndi sig og sannaði á Hólum í Hjaltadal, fór í fyrstu verðlaun og fékk farmiða á LM.


 
Tangó hlaut í sköpulag 8,28 í hæfileika 8,03 Aðaleinkunn 8,13



Hann hlaut 8,5 fyrir skeið, vilja og geðslag. 


Verulega skemmtilegur og vaxandi stóðhestur hér á ferð. 



Tangó er í mjög mikilli framför þessa dagana og verður spennandi að sjá hvað hann gerir á LM í næstu viku. 





Gangster og Hinni  skelltu sér norður yfir heiðar á úrtöku fyrir LM í A flokki gæðinga. 




Þeir voru efstir eftir forkeppni með einkunnina 8,72 og tryggan farmiða inn á Landsmót. 
Spennan magnast og höfum við fulla trú á að þeir félagar eigi eftir að gera garðinn frægann á LM :) 

Gangster kemur heim í fjörðinn eftir Landsmót og mun taka á móti hryssum á Guðrúnarstöðum. Upplýsingar gefur Biggi í s. 896-1249



AÐ lokum  langar mig að skella inn myndasyrpu af Gangsterssonunum Tangó og Kolbak. Selina og Biggi skelltu sér saman í kvöldreiðtúr og sat ég fyrir þeim með myndavélina. 




















Bestu kveðjur frá Litla-Garði



21.03.2018 15:58

Mývatn open


Sælir kæru lesendur.


Selina og Biggi í tamningartúr. 

Tamingar og þjálfun ganga vel í Litla-Garði. Við erum heppin að hafa Selinu Bauer í okkar liði, hún er virkilega fær tamningamaður og ganga tamingar vel hjá henni og Bigga. Selina hefur frá unga aldri verið við tamingar og þjálfun á íslenska hestinum og  stefnir á nám í Háskólanum á Hólum. Mikið er af ungum og bráðefnilegum hrossum inn í hesthúsinu sem eiga framtíðina fyrir sér hvort sem er á keppnisbrautinni eða til frístundar. Meðalaldurinn er 5 vetra. 

 

Við brugðum okkur á Mývatn open um helgina í frábæru veðri.Nokkrir nýliðar úr hesthúsinu voru með í för og höfðu þau mikið gott af,  gott í reynslubankann sem er ekki ýkja stór. Veðrið var dásamlegt, hiti og sól.  Kom það aðeins niðr á brautinni (ísnum) sem var orðin eitt svað að B flokk loknum og var brugðið á það ráð að færa bautina á betri stað þar sem ísinn var betri. 



Selina fór með Drift í B flokkinn. Var það fyrsta keppni þeirra beggja á Íslandi og stóðu þær sig mjög vel. 


Drift er 6v í vor. Hún er efnishryssa  undan Blæ frá Torfunesi og Kveikju frá Árgerði. Við vorum virkilega ánægð með þessa frumraun hjá þeim stöllum. Fallegt skref og  falleg holling ber vott um góða þjálfun, til hamingju Selina :) 



Biggi fór með Bergrós í B flokkinn. Bergrós er 10v undan Hóf frá Varmalæk og Sunnu frá Árgerði. Þessi mynd er tekin utan brautar þar sem að reiðfæri var mun betra.


Brautin stóð aðeins í henni og náði hún ekki að nógu góðri spyrnu til að sýna sitt allra besta og náði því ekki inn í úrslit.  Begrós er alþæg, hágeng fjórgangshryssa.

Biggi fór með Flautu 6.v í A flokkinn. Gekk það vonum framar í hennar fyrstu keppni og hafnaði Flauta í 5. sæti. 


Flauta er undan Gangster frá Árgerði og Melodíu frá Árgerði. Virkilega spennandi og flugvökur hryssa.


Ferðalagið sem slíkt var mikil áskorun fyrir stóðhestinn Víking frá Árgerði. Fyrir það fyrsta að eyða deginum í hestakerru með fjórum skvísum og koma síðan á glænýtt svæði þar sem að allt var morandi í flottum og vel lyktandi dömum :) Víkngur verður 6v í vor og er ekki hægt að segja að hann sé hokinn af reynslu en mun þetta vera fyrsta skiptið sem hann kemur á mótstað. 


Víkingur er undan Kiljan frá Steinnesi og Snældu frá Árgerði, mikið efni í fimmgangara með frábært hægt tölt. 

Kepptu þeir félagar í tölti og voru vel sáttir eftir fyrstu keppnina sína saman en þeir höfnuðu í 4ða sæti. 


Þessi hryssa er nú með aðeins meiri reynslu en þessi sem á undan eru talin, en þetta er hún Sigurdís frá Árgerði en hún sigraði 100 m skeið á Mývatn open. Sigurdís er undan Hágangi frá Narfastöðum og Silfurtá frá Árgerði. Mun ég setja sigursprettinn inn á facebook síðu Litla-Garðs á morgun fyrir þá sem hafa áhuga á að kíkja á það. 

læt þetta duga í bili.  Mér langar að þakka lesendum hvað þeir eru duglegir að fylgjast með okkur, það gleður okkur mikið. 

Bestu kveðjur úr sveitinni

Litla-Garðs fjölskyldan


28.12.2017 17:07

Litið yfir árið 2017





Komið þið sæl og blessuð kæru lesendur. 





Árið 2017 kveðjum við með litlum söknuði en reynsluna tökum við sannarlega með okkur. Maður varð áþreifanlega var við að það er ekkert sjálfgefið í þessum heimi.  


Verkefnið sem Biggi fékk í nóvember 2016 hefur fylgt okkur allt árið 2017. Geislameðferð lauk í janúar, meinið var skorið burt í 4 april og tók aðgerðin sex tíma. Biggi fékk tímabundinn stóma í kjölfarið til að fría skurðsvæðið og leyfa því að gróa í friði. 


hressingarganga á Landsspítalanum. 


9 maí tók við viðbótar lyfjameðferð sem lauk 24 oktober. 


Nú fjórða desember fór Biggi aftur undir hnífinn og var stómanu sökkt. 

 Desember mánuð hefur hann notað til að jafna sig.  Nú krossum við fingur og tökum 2018 fagnandi. Við viljum þakka öllum þeim sem veitt hafa okkur stuðning með einum eða öðrum hætti í veikindunum, það hjálpaði okkur mikið að finna fyrir allri þessari velvild á erfiðum tímum. 


Misheppnaður flutningur  Bigga  frá LSH til SAK  eftir aðgerðina í april vakti athygli er Hafþór gat ekki orða bundist og skrifaði um flutninginn á FB.  Rúllaði það af stað bolta sem endaði  á forsíðu vefmiðlanna og í fréttatíma RUV.  Þetta var alvarlegt klúður sem hefði getað farið illa. Þetta sýndi okkur svart á hvítu hversu "sprungið" heilbrigðiskerfið er því það vantar ekki góðan vilja og dugnað hjá starfsfólki Landsspítalans.



mynd tekin á leið í aðgerð fjórða april. 


 En þegar upp er staðið erum við afar þakklát fyrir okkar hæfileikaríku lækna. Að öðrum ólöstuðum má þar nefna skurðlæknirinn Jórunni Atladóttir, krabbmeinslæknirinn Hlyn Grímson er starfa á LSH. Guðjón Kristjánsson meltingafæralæknir, Haraldur Hauksson og starfsfólk SAK fá þakklætiskveðjur. 



En nú stykklum við á stóru yfir helstu viðburði Litla-Garðsfjölskyldunnar árið 2017

 Þrátt fyrir veikindaár hafa hjólin snúist, þótt þau hafi kannski ekki náð fullum snúning.

Magnús Ingi Másson var hjá okkur fram í maí  við tamningar og önnur tilfallandi störf.  Hafði hann tvær stúlkur sér til aðstoðar framan að vetri.

 Sauðburður gekk með ágætum sama má um segja um heyskap. Það voru mikil og góð hey enda frábært spretta í sumar.

4 júní var hátíðardagur en þá fermdist Sindri Snær (örverpið okkar) í Grundarkirkju. 


Þökkum við öllum þeim sem glöddust með okkur á þessum fallega sumardegi.

 

Mikið var riðið út, en yfir sumarmánuðina voru hér tvær stúlkur, þær Lena og Tara. Sindri Snær var einnig á  fullu í tamningum og öðru tilfallandi.


Í septembermánuði varð ráðist í hringvallagerð með góðra vina hjálp. 250 m hringur með skeiðbraut var hent upp á engum tíma, en yfirlag og fínvinna verður unninn á næsta ári. Takk þið öll sem gerðuð þetta að veruleika.


Sýninga og keppnishald lá niðri þetta árið að öðru leyti en því að Biggi skellti sér með Sigurdís frá Árgerði á íþróttamót Hrings síðla sumars og sigraði þar 100 m og 150 m skeið. Má þvi segja að keppnisárið hafi bæði byrjað og endað vel.


Sigurdís frá Árgerði.


Átta folöld fæddust okkur í ár, sex hestfolöld og tvær hryssur.  Er það annað árið í röð sem hestfolöld eru í miklum meiri hluta.


Þetta fallega hestfolald fæddist í sumar og er undan Gangster frá Árgerði og Melodíu frá Árgerði. Hlaut hann nafnið Viktor frá Litla-Garði


Lítið var um ferðalög í ár fyrir utan reglulegar suðurferðir. Við gáfum okkur þó tíma til að skreppa með fjölskyldunni í útilegu í Ásbyrgi, fórum í veiðiferðir og fl. 


Í Ásbyrgi


Nanna og Viktoría sælar með hvor aðra.


Sindri og Viktoría að veiða.


Eitthvað þótti sumum ekki gáfulegur skóbúnaðurinn hjá frúnni, en eins og hún hefur alltaf sagt, þá er bókstaflega hægt að gera allt á klossum. 

Einnig létum við verða af því að upplifa Fiskidaginn mikla og hina stórkostlegu fiskidagstónleika.


Þvílík hátíð.


Gangster og Eldborg hafa verið hjá Hinna Braga og Huldu á Árbakka allt árið. Gangster kom fram á úrtökumóti Spretts í sinni fyrstu fimmgangskeppni. Í forkeppni hlaut hann 7,23 og í úrslitum 7,43 og hlaut annað sætið í geysisterkri keppni. Takk Hinni og Hulda!


Hinni og Gangster í sveiflu.


Í ár vorum við með þrjár ferðir fyrir ferðamenn, eina í april og tvær í sept/okt. Það var virkilega gaman og stefnum við í að fjölga ferðum árið 2018. Við erum í góðu samstarfi  við vini okkar í Austurríki þau Michi og Höska Aðalsteins. Þetta er ágætis aukabúgrein með hrossunum og styrkir tengslanetið. H

Höski og Biggi fram á afrétt með einn hópinn.


Í byrjun desember fjölgaði heldur betur í Djúpadal er Hafþór Magni og Heiður Gefn fluttu með börnin sín Viktoríu Röfn og Magna Rafn  í Árgerði.  Eru nú komir tveir Magnar í Árgerði sem er vel við hæfi. Sá gamli hefði nú verið ánægður með það :) 


Mynd Daníel Starrason. Brúðkaup Hafþórs og Heiðar 2016


Dísa unir sér vel og kann vel við fjölgunina á heimilinu.


 Nanna Lind býr á Akureyri og er í Hákólanum. Henni dugar ekki ein háskólagráða, heldur stefnir hún á að útskrifast með tvær í viðskiptafræði og lögreglufræði. Það er því nóg að gera hjá henni þessa dagana. 


Nanna Lind í góðum gír.


Sindri Snær æfir fótboltann af kappi. 


Hann æfir með KA á Akureyri og er í þriðja flokk.


Herdís hefur nært sálina reglulega með Hymnodiu söng. Kórinn er skapandi og skemmtilegur  og fer gjarnan ótroðnar slóðir þó að sjálfsögðu takist hann einnig á við hefðbundinn verkefni.


Saumaklúbburinn ákvað að bregða sér af bæ í mars og skellti sér á Wintney Houston show í Hörpunni og hafði mikið gaman að.   

 

22 desember var hálfrar aldar afmæli hjá Bigga og bárust honum þessi flottu málverk.


Dísa, Hafþór, Heiður og börn, Nanna og Sindri færðu honum þessa glæsimynd af Gangster eftir Helmu Art.


Þessa æðislegu kolamynd af Mirru frá Litla-Garði færðu síðan Bogga,  Ásdís og fjölskylda honum.


Kæru lesendur!

 Gleðilegt nýtt ár með kærri þökk fyrir það gamla. Með ósk um góða heilsu og gæfu á komandi ári.

Bestu kveðjur

Litla-Garðsfjölskyldan 

15.10.2017 21:51

Túristahópar og réttir.


Komið þið sæl kæru lesendur.


Mynd tekin heima í Litla-Garði

Auk þess að vera með auka íbúðina okkar á leigumarkaði í sumar höfum við einnig verið að taka að okkur hópa í hestaferðir. 

Seinustu helgina í september og fyrstu helgina í okt fengum við til okkar tvo frábæra hópa fólks frá Austurríki og Þýskalandi. Okkur til halds og trausts er Höskuldur Aðalsteinsson sem búsettur er í Austurríki. Er þetta samstarfsverkefni hjá okkur og er þetta fjórði hópurinn sem við tökum á móti.



fremstir fara Höski og Biggi.


Er þetta virkilega gefandi og skemmtilegt og rauði þráðurinn er auðvitað Íslenski hesturinn í allri sinni dýrð. 
Það er virkilega gaman að fylgjast með fólki þegar komið er fram á dal í náin tengsl við náttúruna hvað það verður agndofa. Friðsældin og fegurðin í öllum sínum einfaldleika er stórkostleg upplifun. 

Markmið okkar í þessum ferðum er að hafa góða hesta, trausta töltara fyrir nokkuð vana reiðmenn. Góðan mat, skemmtilega upplifun og persónulegt viðmót. 


Fyrri hópurinn.

Læt nokkrar myndir fylgja með.






Lagt á og græjað sig af stað.


Síðan er það smá kennslustund í reiðskemmunni.


Allt orðið klárt.


þessi fallegi regnbogi mætti þeim síðan á heimleið úr dalnum.



þessi góði maður Kjartan frá Litla-Garði sá síðan um að keyra hópinn í Laufskálarétt.


 Rútan var vel merkt hjá Kjartani.  Litli-Garður/Árgerði Ræktunarbú.


Kolbeinsdalur.



 Á heimleið ( Siglufjarðarleið) úr Laufskálarétt,  


Eftir reiðtúrana var gott að slaka á í sundlauginni í Hrafnagili.



Sumir fóru að veiða í soðið meðan hinir riðu út :)



Seinni hópurinn.


Mæðgurnar.


Katý og Júlía.




 Gangnamenn komir að í Litla-Dal


 Stóðið kemur niður.


á melana. 

Síðan urðum við að borða vel og mikið :) Það sem verkefnið er orðið ansi stórt, fengum við kokka okkur til aðstoðar, en Hafþór (sonur okkar) og Bogga, (systir Herdísar) skiptu með sér helgunum.
Hér kemur smá sýnishorn af því sem í boði var.








Frábærar helgar að baki og 100% heimtur í hrossasmölun! 

Takk fyrir komuna kæru gestir, Höski, Hafþór og Bogga, þið eruð ómetanleg. 
Þangað til næst
Bestu kveðjur frá Litla-Garði 



13.10.2017 20:10

Hringvallagerð.


Sælir kæru lesendur. 





Fyrstu helgina í september réðumst við í hringvallagerð með hjálp góðra manna. Um er að ræða 250m hringvöll með beinni braut (skeiðbraut). 





Það voru ansi margir sem komu að þessu verki. Bræður Bigga, þeir Ingvi, Nonni og Doddi mættu galvaskir með sín tæki og tól. Sveinn Ingi í Syðra-Felli og Steini í Skjólgarði buðu fram krafta sína ásamt Tryggva í Hvassafelli sem mætti einnig með sitt úthald.  Ævar í Fellshlíð lagði síðan til traktor og vagn. Keyrt var á vörubíl frá Stebba í Teigi (pabba Bigga) og fjórum traktorum með sturtuvagna. 



Ingvi mætti síðan með gröfuna sína og sá um allann mokstur.




Flottur að vanda.




Mölina fengum við síðan hjá nágranna okkar og vini Ævari í Miklagarði. 


Jónas í Litla-Dal sá um alla hönnun og útreikninga og þurfti enga tölvu til, þetta er allt í kollinum.



Jónas og Stína í Litla-Dal að mæla út og spekúlera. 


                         Tryggvi í Hvassafelli mættur með sitt úthald.



Bræður skiptast á skoðunum :) 



Steini hress að vanda.



Sindri Snær að bjóða Svein Inga upp á hressingu.



Darri og Sindri týndu grjót ásamt Óla í Hvassafelli. 


Tveir grjótharðir Óli og Sindri. 



Gamli fylgdist síðan með klár á vaktinni ef eitthvað bilaði. 



Byrjað að hefla til. 




Hluti af úthaldinu.



Ánægð með verkið.



Gamli ekkert smá sáttur með dagsverkin.

 Ótrúleg afköst á einni helgi og má því þakka öllu þessu góða fólki sem kom og lagði hönd á plóg með einum eða öðrum hætti.

Hjartans þakkir fyrir hjálpina, hún er ómetanleg!



06.09.2017 23:05

kominn til starfa á ný!




Komið þið sælir kæru lesendur.  

Það er allt gott að frétta úr Garðinum, sumarið hefur farið vel með okkur, heyskapur gengið vel eins og víðast hvar og tamingar mjakast áfram. 
Við höfum verið heppinn að þurfa ekki að " stoppa" rekstur tamningarstöðvarinnar alveg, heldur hefur einungis hægst á öllu.  Er því að þakka góðu tamningarfólki sem hefur komið til liðs við okkur. 
Takk Magnús Ingi Másson fyrir alla hjálpina í vetur, þú stýrðir skútunni á erfiðum tíma og erum við óendanlega þakklát fyrir það.





Nú í haust klárar Biggi lyfjameðferðina, hann hefur verið heppinn að halda heilsu, verður s.s. ekki lasinn af lyfjunum þótt þau hafi auðvitað sín áhrif. Hann er hraustur að eðlisfari og það hjálpar helling.

Nú í september fer allt á fullt, Biggi er kominn til starfa á ný í tamningunum og stýrir skútunni með tvo færa reiðmenn sé við hlið. 

Við getum bætt við okkur hrossum í tamningu/ þjálfun frá og með 1 okt! 
upplýsingar gefur Biggi í s. 896-1249




En nú ætla ég að segja ykkur frá nýjustu hestafjölskyldu meðlimunum.


Hér ber að líta myndarhryssu undan Aldísi og Gangster frá Árgerði, til hamingju Snorri og fjölskylda.



Litfögur er litla daman.




Eldsteinn frá Litla-Garði undan Kiljan frá Árgerði
 og Væntingu frá Ási 1.



Sjáið þið þennan, ekki ólíkur alsystir sinni henni Eldborgu með þann eiginleika að geta lækkað sig auðveldlega að aftan. Sindri Snær var ekki lengi að finna nafn á hann, Eldsteinn skyldi hann heita, ætli það fari í gegn hjá hestanafnanefnd? :) 




 Þessi myndargaur heitir Vals frá Litla-Garði. Hann er undan Kjark frá Skriðu og Hremmsu frá Litla-Garði



Tara okkar kom í sumar og hjálpaði okkur mikið, hún er búin að leggja snilldar vinnu í ungu tryppin og búa þau vel að því til framtíðar. Hér er hún búin að heilla Kjarkssoninn Vals frá Litla-Garði. 




Gletting okkar kom með jarpa hryssu undan Hágang frá Narfastöðum. Gaman að fá hryssu svona til tilbreytingar :)



Góð blóðlína í þessarri dömu. 



Litla-Jörp hennar Dísu í Árgerði kom með jarpa hryssu undan Kiljan frá Árgerði. Í baksýn er Lena okkar, en hún kom frá Austurríki að hjálpa okkur í sumar. Lena lagði inn virkilega góða vinnu í hrossin og þökkum við henni kærlega fyrir það.



Myndardama.


Gná frá Árgerði kom með móálóttann hest undan Bát frá Brúnum, 
hann er nú varla búin að rétta úr sér á myndinni svo æstur var myndamaðurinn að mynda.


 
 forvitinn ungur snáði.



Silfurtá kom einnig með móálóttan nösóttan hest undan Bát frá Brúnum.



afsakið myndatökuna, pínu blörraður gaur :) 



Svala frá Árgerði leyfði okkur að fylgjast með er hún kastaði þessu hestfolaldi undan Kiljan frá Árgerði. Til hamingju Jenny Karlson :) 



Hérna er hann upprisinn, en þó út á hlið :) Jæja, held að myndatökumaðurinn þurfi að fara að skoða sín mál!



Melodía frá Árgerði kom með bleikálóttan hest undan Gangster frá Árgerði, já við sláum ekkert af í stóðhestaræktuninni.



töffari þó nýfæddur sé.



Þessi gaur er undan Týju frá Árgerði og Kiljan frá Árgerði 



Þar sem að Kiljan var að fara úr landi síðasta haust tókum við þá ákvörðun að nota hann talsvert, enda síðasti séns. 



Von frá Árgerði kom með fallegan hest undan Kiljan frá Árgerði.


myndarfoli.



Þessi litli snáði er undan Viktoríu frá Árgerði og Gangster frá Árgerði.



Æðislegur á litinn og flottar hreyfingar, til hamingju kæru hjón Höski og Michi :) 


Mirra frá Litla-Garði kom með rauðan hest undan Kiiljan frá Árgerði, þvi miður náðist ekki mynd af þeim, en ég lofa einni í haust. 

Tíbrá frá Ási kom með bleikálótta hryssu undan Gangster frá Árgerði, mynd kemur síðar. 

Ég læt þetta duga í bili. 

Kveðjur úr dalnum.


01.04.2017 20:39

Ung Gangsters afkvæmi veturinn 2017


Sælir kæru lesendur. 

Það má segja að það séu smá tímamót í hesthúsinu þar sem að Biggi verður frá í einhvern tíma og höfum við fækkað starfsfólki og hrossum. Við erum nú samt svo heppinn að Magnús mun halda áfram að stýra skútunni og verður hann í því verkefni fram á sumar. 

Ég var búin að lofa ykkur myndum af Gangsters afkvæmum sem eru á húsi í vetur og ætla ég að byrja á þeim yngstu!



Tandri frá Árgerði er geldingur á 4ða vetur. Þarna er á ferðinni stór, næmur og fjallmyndarlegur foli með virkilega spennandi hreyfingar.


Tandri er undan Tývu (ósýnd) frá Árgerði. 



Þetta er Vökull frá Litla-Garði geldingur á 4ða vetur. Þessi foli er nú þegar orðin 1,48 á herðar. Þarna er að ferðinni mikið efni í alhliða gæðing.


Vökull er undan Væntingu frá Ási 1 (a,e. 8,00) Þess má geta að Vökull er hálfbróðir Mirru og Eldborgar.


Þessi efnilega hryssa heitir Fura frá Litla-Garði. Hún er einnig á 4ða vetur, ég bað Magnús tamningarmann að lýsa henni og sagði hann orðrétt. ( Geggjaður gæðingur sem fer í 8,50 fyrir hæfileika) hann var beðin að róa sig aðeins :) En efnileg er hún, á þvi leikur engin vafi. 


Fura er undan Tvístjörnu (ósýnd) frá Árgerði. 


Þessi hágenga hryssa heitir Birta frá Akureyri. Hún er á fimmta vetur og er í eigu Stefáns Ingvasonar. Hún var hjá okkur í fyrra og heldur bara áfram að bæta sig. Hún er mikill vilja og rýmisgarpur á öllum gangi.


Birta er undan Hrönn frá Tungu ( 7,68) 


Hér kemur Flauta frá Litla-Garði. Hún er á fimmta vetri. Virkilega lofandi alhliðahryssa.



Þessi hryssa er komin í skóla til Magga Magg , það verður gaman að kíkja í Íbishól með hækkandi sól :) 


Flauta er undan Melodíu ( 8,13) frá Árgerði.


Vaka frá Árgerði er á fimmta vetur og var tekin inn 1 mars. Vaka var sýnd á Hólum í fyrra og hlaut í a.e. 8,11. Hún er undan Von (8,39) frá Árgerði


 Þessi snillingur var að koma norður yfir heiðar í liðinni viku.



Farsæll frá Litla-Garði er undan Sónötu (7,59)  frá Litla-Hól. Farsæll hefur hlotið fyrir sköpulag 8,00 hæfileika 8,32 þ.a 9,0 fyrir tölt og brokk, og 9,5 fyrir fet og vilja og geðslag.
Þessi gæðingur tekur á móti hryssum í húsnotkun í Litla-Garði í vor.
Nánari upplýsingar veitir Magnús í s. 899-3917 

Bestu kveðjur frá Litla-Garði


04.03.2017 11:53

Smá fréttaskot úr dalnum djúpa.




Sælir kæru lesendur.

 
Þó að sum verkefnin séu óvenjuleg um þessar mundir eru önnur sem vera ber. Tamningarstöðin er á fullum snúning og erum við með þrjá vaska tamningamenn að störfum. Ásamt Bigga stýrir Magnús Ingi skútunni með glæsibrag.
Carlien og Kerstin eru hjálparkokkarnir sem er ekki lítils virði. 
 
30 hestar eru á húsi og er það í bland við okkar ræktun sem og annarra.
 
Ég (Herdís) er búin að sitja fyrir knöpum á reiðtúrum með
 myndavélina að vopni.
Ætla ég að sýna ykkur hvað varð á vegi mínum. 



Hér er Biggi á Bergrós frá Litla-Garði. Hún er undan Hóf frá Varmalæk og Sunnu frá Árgerði.




Bergrós er hágeng fjórgangshryssa með afskaplega ljúfa lund.


Hér er ein efnileg hryssa sem heitir Fjöður frá Litla-Garði.


Fjöður er undan Gígjari frá Auðholtshjáleigu og Væntingu frá Ási 1


Fjöður er stór, myndarleg og virkilega lofandi hryssa sem verður sex vetra í vor.


Magnús Ingi situr hestinn Stíg frá Litla-Garði. Stígur er undan Tristan frá Árgerði og Tvístjörnu frá Árgerði.

      Stígur er stórmyndarlegur hestur á sjötta vetur með fallegar hreyfingar og góða fótalyftu.


Magnús og Stígur í góðum gír :)




Hér er Kerstin á hryssunni Sól frá Árgerði. Sól er undan Blæ frá Hrafnagili og Sylgju (Snældu-Blesadóttur) frá Árgerði. 


Efnileg og skemmtileg alhliðahryssa.


 Carlien situr hestinn sinn Gloríus frá Litla-Garði. 


Gloríus er undan Ágústínus frá Melaleiti og Gloríu frá Árgerði. Hann er á sjötta vetur og er er algjör gimsteinn, auðveldur, með háa fótlyftu og gott ganglag.


Hér er Biggi komin á Óðinn frá Árgerði sem er undan Óm frá Kvistum og Snældu frá Árgerði.


Þessi hestur hefur allt við sig, miklar fótahreyfingar, geðslag og gangskil frábær. Hann verður sex vetra í vor.

Þessi foli er mikið efni í fimmgangs keppnishest.



Hér er spennandi stóðhestefni á ferð, Víkingur frá Árgerði undan Kiljan frá Steinnesi og Snældu frá Árgerði. 


Víkingur er á fimmta vetur. 

Ég ætla að láta þetta duga í bili en verð með framhaldsfrétt mjög fljótlega þar sem að einblínt verður á nokkur ung Gangsters afkvæmi.

Bestu kveðjur úr Litla-Garði






























01.01.2017 15:50

Annáll 2016



Sælir kæru lesendur.






Um leið og við kveðjum árið 2016 viljum við þakka fyrir viðskiptin og samfylgdina á liðnu ári.

Þegar við lítum til baka eru blendnar tilfinningar sem láta á sér kræla. Árið bauð upp á væna blöndu af mikilli vinnu og verkefnum sem fóru ekki öll eins og maður vonaðist til. En það var samt svo miklu meira jákvætt en neikvætt.

Síðast liðinn vetur gekk sinn vanagang, við vorum með tvö atriði í sýningunni Fákar og fjör, Það voru systurnar Mirra og Eldborg sem dönsuðu um höllina.



Eldborg frá Litla-Garði knapi Stefán Birgir og Mirra frá Litla-Garði knapi Ásdís Helga


Síðan vorum við með ræktunarsýningu sem bar nafnið í minningu Magna í Árgerði. Það var okkur hjartfólgið að fá að heiðra minningu Magna með þessum hætti. Þökkum við Hestamannafélaginu Létti kærlega fyrir það.



f.v. Dalía Sif og Ásdís Helga, Ópera og Guðmundur, Mirra og Gústaf Ásgeir, Eldborg og Stefán Birgir.


Gangster fer vel af stað sem kynbótahestur og bætti við sig tveimur fjögurra vetra fyrstu verðlauna afkvæmum þetta árið. Það eru Aðall frá Steinnesi sem hlaut 8,07 í a.e. og Vaka frá Árgerði sem hlaut í a.e. 8,11.

Vaka tekin til kostanna á kynbótasýningu á Hólum í vor. 8,5 fyrir skeið.

Landsmótið á Hólum fór vel fram og fóru þeir feðgar Biggi og Sindri galvaskir með sín hross þangað. Biggi fór með Gangster í A flokkinn og fór vel af stað, en hann hlaut í forkeppni 8,75. Vorum við að vonum spennt fyrir milliriðlinum, enda hesturinn gríðarsterkur á öllum gangtegunudum og gefur þeim bestu ekkert eftir. En fljótt skipast veður í lofti, Gangster var of seinn niður í skeiðinu og komst þess vegna ekki í úrslit.


Biggi og Gangster en þeir fóru í 8,90 í A flokk í vor og sigruðu gæðinga og úrtökukeppni Léttis.


Eldborg frá Litla-Garði fór á LM og var þar á meðal úrvalshrossa í "fegurð í reið" en það voru hross sem höfðu fengið 9.5 eða 10 í einkunn fyrir fegurð í reið.


Eldborg í sveiflu.


Mirra gekk ekki heil til skóar og náði ekki tilsettum árangri áí kynbótabrautinni í vor. Hún hefur nú verið meðhöndluð við því meini og er orðin heil á ný.


Mirra snemma árs 2016.


Sindri Snær kom heldur betur á óvart á sínu fyrsta Landsmóti á Tóni sínum og skelltu þeir félagar sér beint í milliriðil og þaðan upp í B úrslit og höfnuðu þar í sjötta sæti, glæsilegt hjá þeim.


Sindri og Tónn úrslit LM

Tíu folöld fæddust á árinu, og var skiptinginn heldur ójöfn í ár eða átta hestar og tvær hryssur, stefnir því í metárgang í stóðhestum á bænum.

Eftir Landsmót Hestamanna var heyjað á methraða, heyjin mikil og góð.

Rúsínan í pylsuendanum og einn fallegasti viðburður ársíns var síðan þegar Hafþór sonur okkar og Heiður kona hans gengu í það heilaga í Grundarkirkju í sumar. Brúðkaupsveislan var haldin í reiðskemmunni hér í Litla-Garði og öllu tjaldað til, það var málað, smíðað, saumað, þrifið og undirbúið þar til umhverfið varð törfum líkast.

Á annað hundrað manns komu og glöddust með ungu brúðhjónunum og börnunum þeirra tveimur. Hjónakornin eru búsett á Álftanesi, Hafþór er kjötstjóri í Nóatúni Austurveri og Heiður er í námi í tölvunnarfræði.



Í haust fengum við góða gesti frá Austurríki og Þýskalandi með okkur í hrossasmölunina. Dvöldu þeir hjá okkur frá fimmtudegi til sunnudags ásamt vini okkar Höskuldi Aðalssteins. Er þetta orðið að árlegum viðburði og er þegar farið að panta mikið fyrir komandi ár.



Frumtamingar hafa verið á fullu og eru öll þriggja vetra tryppin orðin vel reiðfær og mörg álitleg hestefnin þar á ferð.

Dísa í Árgerði hefur það gott heima í Árgerði, er nokkuð frísk og fylgist vel með öllum sínum.

Nanna Lind er á öðru ári í viðskiptafræði í HA. Hún er allaf jafn kröftug og æfir crossfit á fullu þess á milli. Hún býr á Akureyri með kærasta sínum Darra Rafn sem er í námi í tölvunnarfræði.

Sindri Snær er komin í áttunda bekk og stendur sig vel í náminu, helsta áhugamálið er fótboltinn, en hann æfir með KA á Akureyri þrisvar í viku.

Fjölskyldan skellti sér til Kanarí á haustmánuðum í smá sumarfrí og naut sín vel í sólinni.




Nú í nóvember fékk Biggi nýtt og krefjandi verkefni að fást við er hann greindist með ristilkrabbamein. Var það að vonum áfall eins og slík tíðindi eru alltaf.

Góðu fréttirnar eru samt þær að æxlið er staðbundið og læknanlegt og er hann langt komin með geislameðferð á Landsspítalanum.

Við höfum verið heppinn varðandi starfsfólk, höfum haft gott lið með okkur þetta árið og nú þegar veikindin báru að garði, vorum við svo lánsöm að fá hann Magnús Inga Másson (eigandi Farsæls frá Litla-Garði) til að stýra öllu hér heima. Hann er öllum hnútum kunnugur hér í Litla-Garði þar sem hann hefur starfað hjá okkur áður. Magnús hefur til liðs með sér tvær tamningarkonur. Er þetta okkur afar mikils virði.


Magnús Ingi og gæðingurinn Farsæll frá Litla-Garði

Það skiptir nefnilega miklu máli að hjólin snúist áfram þótt Biggi sé að sinna öðru verkefni. Núna eru um 20 hross á húsi, og verða umtalsverð skipti nú um áramót. Eru þeir sem hafa hug á að koma hrossum sínum í tamningu beðnir að hafa samband við Bigga í s. 896-1249. Hann fjarstýrir dæminu meðan hann er sunnan heiða, en er væntanlegur heim um miðjan janúar.

Við höfum fundið fyrir dásamlegri samheldni og stuðningi hjá fjölskyldu, vinum og kunningjum og erum sannarlega þakklát fyrir það. Biggi er bjartsýnn og hress og þegar farin að leggja á með félugum sínum fyrir sunnan.

Kæru lesendur. Megi 2017 verða ykkur frábært ár! Takk fyrir allt á árinu og munum að þakka fyrir tímann. Hvað sem hann býður okkur upp á. Hann kemur nefnilega ekki aftur.

Bestu kveðjur frá öllum í Litla-Garði


05.10.2016 17:51

Hrossasmölun


Sælir kæru lesendur.



Nýliðna helgi var hrossasmölun hjá okkur og erum við aðeins að prufa okkur áfram í ferðaþjónustu í smáum stíl. 




Höskuldur Aðalsteinsson vinur okkar kom hér með góðan hóp af frábæru fólki frá Austurríki og Þýskalandi. 



Hópurinn var hjá okkur frá hádegi á fimmtudegi til sunnudagskvölds og skemmst er frá því að segja að allt gekk eins og í lygasögu. 
Reiðhestarnir voru til fyrirmyndar og lögðum við áherslu á það að allir væru vel ríðandi á töltgengum og góðum hestum.  Að opna heimili sitt svona er virkilega gefandi og skemmtilegt og þakklæti fólksins var áþreifanlegt. 



Heimtum við öll okkar hross af fjalli, sum höfðu stækkað meira en önnur eins og gengur og gerist.
 
Vakti það athygli gestanna hvað stóðið var yfirvegað, en þau voru nú kannski ekki öll alveg svona spök eins og þessi veturgamla hryssa undan Kiljan frá Árgerði og Tíbrá frá Ási 1. 


Sindri Snær tyllti sér á eina veturgamla Kiljansdóttir :)


Þessi veturgamla hryssa vakti einnig mikla athygli fyrir hárprýði og fegurð. Hún heitir Gullborg og er undan Gangster frá Árgerði og Væntingu frá Ási 1, hún er sammæðra Eldborgu og Mirru.



Hafþór Magni kom að sunnan til að hjálpa mömmu sinni við eldhússtörfin, en eins og mörgum er kunnugt um er drengurinn snilldarkokkur.


Hafþór að "útskýra" matinn.

Auðvitað reyndum við eins og hægt var að hafa það íslenskt og hvað er íslenskara en það að mæta með sviðakjammann í réttirnar.


Hafþór að gefa smakk við misgóðar undirtektir :) 


Laugardagskvöldið var síðan tekið með stæl og að sjálfsögðu fóru allir á réttarball á Melgerðismelum með Geirmundi Valtýrssyni.




Skál og syngja :)


Sunnudagurinn var síðan tekin með rólegheitum, hrossin skoðuð í bak og fyrir.





Þriggja vetra tryppin eru komin aftur á hús, en þau voru einmitt frumtamin aðeins í sumar og er það greinilegt að þau hafa engu gleymt. Langt er komið með að járna þau og hafist er handa á sama stað og skilið var við þau. 

Tveir hestar eru á leið úr landi næstu helgi en það er stóðhesturinn Kiljan frá Árgerði og Fróðasonurinn Flygill frá Litla-Garði. 



Kiljan frá Árgerði


Flygill frá Litla-Garði

Óskum við nýjum eigendum til hamingju með hestana og óskum þeim velfarnaðar á nýjum slóðum. 

Þangað til næst, lifið heil. 

22.09.2016 15:53

Afkvæmi sumarsins.



Komið þið sæl.

Hér er allt á fullum snúning, haustverkin eru að klárast, verið er að laga til og endurbæta á ýmsum stöðum.
Framundan er stóðréttin aðra helgi og eigum við von á góðum gestum frá Austurríki og Þýskalandi sem að ætla að upplifa herlegheitin með okkur. 


Í sumar fæddust 10 folöld á í Litla-Garði og Árgerði. Má segja að þetta verði stór stóðhestaárgangur því hlutföllin skiptust í átta hestfölöld og tvær hryssur.

Ætla ég að kynna ykkur fyrir þessum nýju meðlimum í hestafjölskyldunni okkar.


 
Þetta er hestfolald er undan Aldísi frá Krossum og Gangster frá Árgerði.


 
Hann hlaut nafnið Fókus frá Litla-Garði og er algjör töffari.



Þessi gæi er undan Gangster og Týju frá Árgerði. 



Hann heitir Garri frá Litla-Garði



Þessi fallega snáði er undan Stegg frá Hrísdal og  Von frá Árgerði



Hann hlaut nafnið Vikar frá Litla-Garði



Hér er einn litfargur sem er undan Klakanum frá Skagaströnd og Lipurtá frá Árgerði. 


aðeins óskýr mynd, en sést þó hvað blesan er fullkomin.



Þetta hestfolald er undan Kiljan frá Árgerði og Gná frá Árgerði






Hér er eitt enn stóðhestefnið undan Korg frá Ingólfshvoli og Mirru frá Litla-Garði, en hún var með staðgöngumóðir þetta árið.



Hann heitir Mjölnir frá Litla-Garði



Næsta stóðhestefni er ekki af verri endanum en það er hann Gullfoss frá Litla-Garði

Hann er undan Gangster frá Árgerði og Eldborg frá Litla-Garði en hún var líkt og Mirra systir sín með staðgöngumóðir.



Hér sjáið þið stóðhestefni undan Kiljan frá Árgerði og Væntingu frá Ási.


 
Þetta er hann Eldfari frá Litla-Garði og er þessi myndarfoli albróðir Eldborgar okkar sem er flestum lesendum okkar kunn.


Að lokum koma hryssurnar tvær.



Þetta er Hlökk frá Litla-Garði en hún er undan Gangster og Hremmsu frá Litla-Garði



Hlökk frá Litla-Garði. Hér er maður orðin aðeins stærri og mannalegri. 



Að lokum er það Eivör frá Litla-Garði, en hún er undan Tristan frá Árgerði og Melodíu frá Árgerði. Falleg og reist hrysssa. 

Teljum við þetta orðið ágætt af hestfolöldum í bili, erum að verða ansi sterk í stóðhestaefnum og hljótum að eiga inni stóran hryssuárgang að ári :) 

Þangað til næst, lifið heil.








13.09.2016 14:49

Brúðkaup í Litla-Garði



Sælir kæru lesendur.




Sumarið hefur farið vel með okkur hér í Litla-Garði, mikið búið að vera að gera í tamningum og höfðum við góða aðstoð við það. 
Heyskapur gekk hratt og vel og nóg til af heyi hér sem víða annars staðar. 

Sá óvenjulegi og ánægjulegi atburður átti sér stað hér í sumar að haldið var brúðkaupsveisla í reiðskemmunni. Hafþór elsti sonur okkar sem búsettur er í Garðabæ, kom með litlu fjölskylduna sína að sunnan og síðan var hafist handa við undirbúning.

Mikið verk var fyrir hendi eftir landsmót, að pússa, þrífa, mála og undirbúa, því eins og gefur að skilja, tekur það smá tíma að breyta reiðskemmu í veitingasal. 



Nanna og Heiður að hreinsa loftið, Hafþór á fjórhjólinu að jafna gólfið.

Máluð voru skilti, tjaldsvæði undirbúið, bílastæði græjuð, kamrar leigðir, borðbúnaður, kælar og fleira í þeim dúr.


Barinn orðinn klár fyrir herlegheitin! 

Margar hendur  unnu létt verk og fyrr en varði var búið að umbylta reiðskemmunni í fínasta veitingarsal.

Myndir. Daníel Starrason.

Skundi lætur fara vel um sig og var fljótur að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Fékk hann að vera með allt kvöldið, og tók að sér það hlutverk að vera með á myndum veislugesta.




Hafþór Magni og Heiður Gefn létu séra Hannes pússa sig saman í Grundarkirkju 16 júlí 2016.










Axel vinur þeirra sá síðan um að aka nýgiftu hjónunum í myndatöku og til veislu.  






Magni Rafn og Viktoría Röfn.




Falleg og yndisleg hjón.

 

Hér má sjá stórfjölskyldu Hafþórs og Heiðar. Skundi að sjálfsögðu með :)


Við gömlu með hópinn okkar :)



Allir gestir í brúðkaupinu voru myndaðir með fyrirsætuhænunni henni Vöfflu og hundurinn Skundi var með á flestum myndunum. 



Gestir voru mishrifnir á að hafa Vöfflu með á myndinni :) Ásdís Helga frænka.


Fyrirsætuhænan hans Sindra Snæs.



Veislusalurinn í allri sinni dýrð.



Háborðið.



Veislustjórarnir Nanna Lind og Eir.




Viktoría og Magni á dansgólfinu.


Litli bóndinn.


Dísa í Argerði og Ásdís Helga.


 
Veitingar voru ekki af verri endanum. Konurnar frá Dalvík með Möttu í fararbroddi áttu lof skilið fyrir frábæran mat, en að fordykk og forrétt loknum var boðið upp á lambalæri frá Litla-Garði og kalkún með frábæru meðlæti.


 
Að lokum var boðið upp á nýmóðins hjónabandsælu frá Dagný og Bjarna. 



Fullkomin hjónabandssæla :) 



Síðan var dansað fram á rauða nótt við undirleik Hafliða og félaga. Mælum hiklaust með þessu frábæra bandi.






Okkur langar fyrir hönd brúðhjónanna að þakka öllum þeim sem hjálpuðu til við undirbúning. Sérstakar þakkir fá Nanna Stefáns fyrir fallegar og frumlegar blómaskreytingar, Bjarni og Dagný fyrir dásamlegu hjónabandssæluna og mikla vinnu við undirbúning.Sólmundur, Inga og dætur fyrir að vera með okkur og hjálpa okkur við allt mögulegt. Axel fyrir sérlega vandaðan akstur með brúðhjónin, Binni fyrir gríðarlega vinnu við myndatöku gesta, veislustjórunum Nönnu og Eir fyrir sitt góða og göfuga framlag, ásamt öllum þeim sem að lögðu hönd á plóg.


Sæl að sinni.

29.05.2016 15:42

Vorið í allri sinni dýrð.


Sælir kæru lesendur.



Sindri Snær situr á Silfurtá, en hjá þeim er Hremmsa nýlega köstuð hryssu undan Gangster.


Já loksins er vorið komið í allri sinni dýrð, úti skín sólin og hitastigið 20 gráður. Það er ekki hægt að kvarta yfir því nema þá einna helst sunnanrokinu sem er gjarnan fylgifiskur hlýnandi veðurs.

Sauðburður er búin og gekk mjög vel, frjósemi í hámarki og aldrei hafa fæðst fleiri lömb á bænum.

Ein kynbótasýning er búin og fórum við einungis með Mirru í fullnaðardóm, og eina fjögurra vetra hryssu, Vöku frá Árgerði í býggingardóm. Vaka er undan Gangster frá Árgerði og gæðingnum Von frá Árgerði. Hlaut hún 8,28 í byggingardóm og bar þar hæðst 9 fyrir fótagerð. Fer hún í fullnaðardóm  á Hólum.


Vaka frá Árgerði.

Ekki náðist að ná tilskildum tölum á Mirru þar sem að vindur blés heldur kröftuglega fyrir hennar smekk, en því verður gerð betri skil á Hólum í Hjaltadag á næstu dögum. Stefnum við með 6 hross úr okkar ræktun á þá sýningu.


Mirra frá Litla-Garði 


Fjögurra vetra Gangstersonur Aðall frá Steinnesi var sýndur á Hlíðarholtsvelli Akureyri nú á dögunum og fór hann í fyrstu verðlaun. Hann hlaut 8,28 í hæfileika og bar þar hæðst 9 fyrir vilja og geðslag. Gangster á nú fjögur sýnd afkvæmi, þrjú í fyrstu verðlaun og eina rétt við fyrstu verðlaun. Segja mér það vitrari menn að það sé góð byrjun hjá ungum kynbótahesti.


Aðall frá Steinnesi. F. Gangster frá Árgerði M. Díva frá Steinnesi knapi Agnar Þór Magnússon.


Fjögur folöld hafa fæðst í vor.

Fyrst kastaði Týja frá Árgerði jörpum hest undan Gangster. Hann fékk nafnið Garri Gangstersson.



Garri frá Litla-Garði.


Hafþór Magni með Garra litla í fanginu :)


Gná frá Árgerði kom með hest undan Kiljan frá Árgerði. Kiljan er á leið úr landi í haust og því síðasti séns að fá undan þessum snilling.


Gná frá Árgerði með Kiljanssoninn.


Myndarhestur.





Í morgun var hún Hremmsa búin að kasta fallegri rauðri hryssu undan Gangster. Hún hlaut nafnið Hlökk frá Litla-Garði



Sex vetra hryssan hún Eldborg frá Litla-Garði er á leiðinni á kynbótasýningu á Hólum í Hjaltadal. Teljum við hana eiga mikið inni og vonumst til að það komist til skila þar. Þar sem að við teljum hana mikinn kynbótagrip og gæðing völdum við að fara með hana  í fósturvísaflutninga. Afreksturinn er komin í ljós.



Á föstudaginn kastaði staðgöngumóðirin rauðum hesti undan Eldborg og Gangster.


Gestur vinur okkar kom síðan með nafn á kall, Gullfoss skal hann heita :)


Gullfoss frá Litla-Garði :)

Látum þetta duga í bili
Lifið heil

Litla-Garðsbændur

01.05.2016 11:50

Ung og efnileg




Sæl aftur kæru lesendur. 


Ætla að skella hér inn myndum af fjórum fjögurra vetra Gangstersdætrum sem komu inn í febrúar. Þær eru allar alhliða hryssur, opnar og skemmtilegar.

Hver veit nema eitthvað af þeim verði tilbúnar í dóm í vor. 



Þetta er Gangstersdóttirin, Birta frá Akureyri í eigu Stefáns Ingvasonar.


Þessi hryssa er flugrúm og opin. Á klárlega eftir að skeiða vel seinna meir.


Þetta er Flauta frá Litla-Garði undan Ófeigsdóttirinni Melodíu og Gangster. 


Flauta er í okkar eigu og er virkilega efnileg hryssa með góðan fótaburð og allt galopið.



Staka frá Árgerði er undan Perlu frá Árgerði og Gangster. Hún er í eigu Dísu í Árgerði. 


Staka hefur mikið framgrip og sýnir mikla getu á gangi.


Skeiðið prufað í fyrsta sinn og það stóð ekki á því.


Síðust en ekki síst er það Vaka frá Árgerði í eigu Dísu. 


Vaka er undan Von frá Árgerði og Gangster. Gríðarlegur efniviður hér á ferð.

Þetta eru fjórar hryssur af sex sem til eru undan Gangster í þessum árgang. Góð byrjun hjá kalli :)

Segjum þetta gott í bili.

Bestu kveðjur úr Dalnum.





Flettingar í dag: 440
Gestir í dag: 85
Flettingar í gær: 709
Gestir í gær: 75
Samtals flettingar: 1244452
Samtals gestir: 80183
Tölur uppfærðar: 12.11.2024 10:17:57