31.12.2014 10:10

Annáll 2014


Sæl  á ný.

 

Nú árið er liðið í aldanna skaut

og aldrei það kemur til baka,

 

Árið 2014 byrjaði ekkert sérlega vel en 11 janúar fell frá góður vinur okkar og samstarfsmaður Herdísar í tónlistinni til fjölda margra ára, Gunnar Tryggvason. Gunni var öflugur tónlistarmaður, samdi lög, útsetti og lék á hin ýmsu hljóðfæriMinnumst við hans með söknuði og hlýhug . 


Gunnar Tryggvason lagahöfundur og músikant. Mynd tekin 6 jan 2012.



 Að öðru leiti var árið 2014 okkur Litla-Garðs bændum nokkuð gott.

Síðast liðin vetur starfaði hún Kristín Birna hjá okkur og lauk hún störfum hér í vor. Í maí kom til okkar Johanna Schulz en hún hafði nýlokið námi og hlotið BS-gráðu frá Háskólanum á Hólum sem reiðkennari og þjálfari. Starfaði hún hjá okkur út þetta ár og verður áfram langt fram á næsta ár. Aðrar stúlkur komu einnig hér til aðstoðar og má þar fyrst nefna hana Júlíu okkar sem hefur verið hjá okkur áður og kann vel til verka hér á bæ. Maike  og Marlene Nagel voru síðan hjá okkur í haust og fram í desember og þökkum við þeim fyrir vel unnin störf. Það er ómetanlegt að hafa góðar tamningarkonur.

 

Jóhanna og Glymra frá Litla-Garði


Tamningar gengu vel, alltaf nóg að gera bæði í tamningarhrossum  sem og okkar eigin sem er orðin allgóður floti. 

 

Hátindur ársins var klárlega velgengni Bigga með Gangster frá Árgerði á LM þar sem að hann hafnaði í sjötta sæti í sterkasta A flokk sögunnar. Það er mikil viðurkenning fyrir Bigga sem hefur tamið og þjálfað hestinn alla tíð sem og okkar ræktunarbú. Gangster hefur toppað sig  með hverju árinu og meira er ekki hægt að biðja um.

 

Gangster stimplaði sig líka inn sem kynbótafaðir á árinu. Þrátt fyrir ungan aldur á hann nú þegar eitt fyrstu verðlauna afkvæmi og er það hestur úr okkar ræktun, stóðhesturinn Farsæll frá Litla-Garði sem er í eigu Magnúsar Inga Mássonar. Hlaut hann 8,00 fyrir sköpulag 8,32 fyrir hæfileika AE 8,19 sýndur sem klárhestur 5 vetra gamall.

 

Farsæll frá Litla-Garði 4ra vetra.


Fleiri efnileg afkvæmi Gangsters hafa verið hér í tamningu og erum við sérlega spennt  fyrir þeim sem byrjað er á. Brúnó og Mökkur frá Hólum eru stórir og myndarlegir, hreyfingarmiklir og verulega spennandi hestefni. Orka og Melodía frá Hólum eru einnig í uppáhaldi en Gangster var einmitt á Hólum í Eyjafjarðarsveit hjá Kalla og Siggu þegar hann var tveggja og þriggja vetra.

Eldbrá frá Litla-Garði sem er nú í eigu Johönnu Schulz tamningarkonunnar okkar er svakalega efnileg hryssa.

 

Eldbrá frá Litla-Garði knapi og eigandi Johanna Schulz

Það má til gamans geta að öll tryppi sem við höfum sjálf ræktað og sem hafa náð tamningaraldri undan Gangster eru seld. En það er eitthvað til í yngri árgöngum.

 

 Hryssan Mirra frá Litla-Garði var falleg rós í hnappagatið.

 

 Mirra hlaut 8,36 í byggingu, 8,34 í hæfileika og 8,35 til aðaleinkunnar. Þar af  9 fyrir hægt tölt, fegurð í reið, fyrir vilja og geðslag og háls og herðar.

Auk þess hefur hún vakið mikla athygli fyrir sitt fas og exfactorinn hefur hún . Hún tók þátt í nokkrum mótum og skoraði þar hátt bæði í B flokk og töltkeppni.

Hún fékk farmiða inn á LM en helltist og varð af þeirri upplifun. Á þeirri örlagastundu var Mirra í hestalátum og var henni haldið undir Gangster sama dag og keyrt var með hann suður á LM og dugði þetta eina skipti til þess að Mirra varð fylfull. Meiningin er að láta hana eiga þetta  draumafolald og halda síðan áfram að þjálfa hana og stefna með hana í enn hærri tölur.

 

Nokkur folöld fæddust á árinu eða sex talsins og voru þau undan Gangster, Óskasteini frá Íbishóli og Ramma frá Búlandi.

 

Stóðhestarnir sem við notuðum í sumar voru Sær frá Bakkakoti, Loki frá Selfossi, Hróður frá Refstað, Kiljan frá Árgerði og Gangster. Við bíðum sannarlega spennt eftir vorinu.

 

Helstu vonarstjörnur í vetur að meðtöldum áðurnefndum Gangstersafkvæmum!


 

Eldborg  Kiljansdóttir (Árgerði)

Ópera Ómsdóttir

Fjöður Gígjarsdóttir

Viktoría Kapalsdóttir

Sól Blæsdóttir (Hrafnagili)

Óðinn Ómssonur (stóðhestur)

Flygill Fróðasonur  ( stóðhestur)

Sena Tindsdóttir

Kvika Blæsdóttir (Hesti)

Aldís Álfsdóttir

Bergrós Hófsdóttir

og enn eru nokkur ónefnd.

 

Nokkur af okkar hrossum skiptu um eigendur á árinu og óskum við nýjum eigendum velfarnaðar og lukku.

 

 

Sindri Snær var virkilega duglegur í útreiðum í sumar og tók þ.a.l. miklum framförum.  Hann tók þátt í mörgum mótum á Tóni Tristansyninum og kom aldrei heim án medalíu. 



Þar bar hæðst sigur hans á Stórmóti Funa en þar sigruðu þeir félagar með einkunnina 8,65 sem var jafnframt hæsta einkunn mótsins.


 Hann tók einnig þátt í trekk námskeiði á Báru frá Árbæjarhjáleigu sem haldið var á  Melgerðismelum síðast liðinn vetur og sumar og hafði gaman að, en þar er keppt og þjálfað í ýmiskonar þrautabrautum.


 

Við Litla-Garðs hjón urðum einu barnabarni ríkari á árinu en elsti sonurinn hann Hafþór Magni eignaðist sitt annað barn nú í haust. Hann hlaut nafnið Magni Rafn og er þá virkilega buið að festa nafnið í sessi. Fyrir áttu þau Heiður yndislega fjögurra ára snót, hana Viktoríu Röfn. 


Magni Rafn og Viktoría Röfn.

Hafþór og konan hans Heiður eru búsett í Hafnarfirði en Hafþór byrjaði einmitt í nýrri vinnu á árinu og er orðin matráður á togara og gengur það mjög vel enda er hann svakalegur kokkur. 

 

Hafþór Magni, Heiður, Viktoría Röfn og Magni Rafn á skírnardaginn.


Nanna Lind dóttir okkar útskrifaðist af raungreinasviði MA í vor og lauk þar með 4ra ára námi þar. 


Ákvað hún að taka sér ársfrí frá skóla, fékk sér vinnu á Hótel Laxá í Mývatnssveit í sumar ásamt Darra kærasta sínum og stefna þau á heimsreisu nú á nýju ári.


 Næsta haust  stefnir hún á háskólanám. Darri Rafn ætlar suður að klára guðfræðinginn.

 

Magni og Dísa halda áfram ræktun en í mun minna mæli en áður var. Eru þau gömlu nokkuð hress og fylgjast vel með öllu.


 Ásdís Helga frænka Herdísar er sú sem hefur fylgt fjölskyldunni í hestaheiminum sem og annar staðar í áraraðir og ekki hægt að hafa annál án þess að minnast á hana. Síðast liðið ár hefur hún búið á Akureyri og ásamt litla gaurnum sínum honum Elmari Frey.


Hún hefur starfað sem tamningarkona hjá  Baldvin Ara Guðlaugssyni og mun halda áfram þar á nýju ári.



 Tekið var viðtal við okkur Bigga nú á haustdögum frá hestablaðinu Eiðfaxa og vorum við svo heppin að fá að prýða forsíðu blaðsins.


 

Síðasta rósin í hnappagatið á þessu ári var að Litli-Garður hlaut titilinn ræktunarbú ársins á sambandssvæði HEÞ.


Það var virkilega gaman að því og segir til um að ræktunin sé á réttri leið.

 

Um leið og við óskum ykkur gleðilegs nýs árs langar okkur

að þakka viðskiptavinum okkar fyrir góð og ærleg viðskipti á árinu. án ykkar væri þetta ekki hægt.

 

Kærleiksríkar kveðjur frá Litla-Garði.

Flettingar í dag: 271
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 7269
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 1270912
Samtals gestir: 81225
Tölur uppfærðar: 22.11.2024 05:57:41