Færslur: 2011 Mars

30.03.2011 23:26

Vor í lofti

Góðan og fallegan daginn góðir lesendur

Vek til að byrja með athygli ykkar á að lénið okkar er orðið http://www.litli-gardur.is :)

Fyrst og fremst frumsýnum við hér okkar eigið Lógó:

Hvernig líst ykkur á???

En mars er alveg að klárast og hinn alræmdi 1.apríl er á morgun. Mars hefur einkennst af frekar furðulegri veðráttu, upphaf mánaðarins var kuldi, vetur og endalaus skafrenningur sem endar alltaf með ófærð hér í dalnum djúpa og hér ber að líta myndir sem teknar voru í síðustu viku eftir vetrarhörku áðurgengra daga:


Myndarhaugur en ófært varð með öllu upp að stóðhestahúsi sökum stífrar sunnanáttar.

En svo hlýnaði og svo kom rigning og svo kom drulla og um síðustu helgi var allt að fara. Í dag er snjór hér og þar og drullan alveg að ná yfirhöndinni. En vor er í lofti og hlýtt úti og alveg dásamlegt að ríða út! Hrossin eru alveg með á nótunum líka og skynja vor og sumar í nánd.
Það fylgir alltaf hrossarag því að búa í sveit og í vetrarhörkunni geta girðingar snjóað í kaf eða gefið sig. Og hrossin eiga það til að fara á flakk eins og við lentum í í mánuðinum. Síðasta laugardag var svo notað góða veðrið í að færa þau aftur niður í Miðgerði þar sem folaldshryssur eru í einu hólfi og geldhross í öðru:


Byrjað á að reka heim og skilja að. Komust að þeirri leiðindaniðurstöðu að tvær af efnilegustu hryssunum á þriðja vetur er að öllum líkindum fylfullar. Báðar eru þær undan 1.verðlauna foreldrum og miklar væntingar bundnar við þær. Það eru ekki alltaf jólin!


Aðeins stopp í gerðinu heima


Alveg að koma á leiðarenda

Það gleymdist alveg að seigja frá því að nýlega festi húsfrúin kaup á nýjum frúarbíl á bænum. Auðvitað er þetta ekki bara frúarbíll en samt er hann það eiginlega :) 
Gullfallegur Hyundai Santa Fe 


Fallegur er hann

En er komið að öðru BLAST FROM THE PAST

Magni er nú á 81.aldursári og bara nokkuð sprækur. Sér ennþá alveg um sitt bú og er með nokkur hross á járnum. Hefur með sér stelpu í nokkra tíma á dag og er nokkuð riðið út. Gamli trimmar tvær hryssur sjálfur, fær smá aðstoð á og af baki og svo bara laggó. Hestamannahugurinn deyr aldrei og þjálfar hann þær eftir bestu getu, önnur svona klármegin og hin meira alhliðamegin og svona aðeins þungar á sér en það sem það er nú gaman að sjá hvernig hann lifnar við og ljómar á baki. Það er nú ekki nema 9 ár síðan hann sýndi Snældu sína sjálfur í 1.v og kom henni inn á Landsmót í 4.vetra flokki, 72 ára!


Magni og Snælda á Vindheimamelum 2002 á LM

Hann gerði um betur og sýndi hana aftur 6.v og kom henni aftur inn á Landsmót! Svona menn eru alveg einstakir. Hestamenn alveg inn að beini og út aftur að skinni.

Snælda frá Árgerði er skírð í höfuðið á stofnhryssunni Snældu fæddri 1968. Hún var einstakur gæðingur á sínum tíma og má rekja ættir allra Árgerðishrossa í dag aftur til hennar tel ég öruggt að fullyrða. Hún fæddist upp á dag 30 árum síðar en formóðir sín og undan Bliku dóttur Snældu. Örlítið dekkri jarpur litur en að öðru leyti nauðalík ömmu sinni.
Snælda sinnir hlutverki stóðhryssu í dag, tvö komin á tamningaraldur og virðist hún ekki ætla að svíkja nafn sem ættmóðir. Undir henni gengur brún hryssa undan Þóroddi og er hún fylfull við Óm frá Kvistum.


Hér er Snælda með dóttur sinni Senu (Tindsdóttir) sumarið 2009

23.03.2011 00:39

Snjór snjór og aðeins meiri vindur!


Gangster í léttri sveiflu í mars loksins þegar lægir aðeins

Góðan daginn kærir lesendur.

Við erum við það að snjóa í kaf og fjúka í burtu til skiptis hér í Djúpadalnum. Það er ófært nánast upp á hvern dag hérna bæði fyrir tæki og skepnur. En það kemur birta inn á milli og það eru allir svo kátir með færi og veður að það er ekki annað hægt en að festa það á filmu.

Okkur vantaði frábæra mynd fyrir stóðhestablaðið af honum Gangster okkar og fannst okkur engin mynd til sem sýndi hann í réttu ljósi. Því var farið í dag og gert ein tilraun til og tókst framar vonum. Hesturinn batnar og batnar og hrein unun er að horfa á hann hreyfa sig, slíkt er skrefið og fótaburðurinn.

Nokkur sýnishorn og smellið á síðustu myndina til að fara inn í albúmið:Höfum við eiginlega ákveðið að hafa þennan hest hér heima í sumar og halda öllum okkar hryssum undir hann sem eru ekki of skyldar því svona grip kemst maður ekki oft í tæri við.

Af öðrum fréttum gengur tamningarstöðin glimrandi fyrir utan veðurþunglyndið sem herjar stanslaust á okkur. En guði sé lof fyrir inniaðstöðuna og lambhúshetturnar og ég tala nú ekki um kuldagallann og ullarsokkana :)

Í síðustu viku var verknámið hálfnað hjá Önnu Sonju og hún kláraði frumtamningarkaflann. Því var frestað einu sinni sökum veðurs og það var ótrúlegt en það lægði rétt á meðan hún tók prófið og hvessti svo aftur. En hér eru nokkrar myndir úr prófinu hennar:


Prófdómararnir Sölvi Sig og Tóti Eymunds taka út fyrsta tryppið, Perlu frá Tungu undan Stormi frá Efri-Rauðalæk í eigu Jóseps á Möðruvöllum


Anna kampakát með tryppi nr. 2 sem heitir Dalrós frá Litla-Garði í eigu Bigga og Herdísar undan Ódeseif frá Möðrufelli og Sunnu frá Árgerði


Anna valdi þrjú tryppi í prófið og prófuðu dómararnir þau öll bæði úti og inni. Hér situr Sölvi Dalrósu og lætur hana víkja að aftan.

HÉR má sjá aðeins fleiri myndir úr prófinu!

Þriðja tryppið sem hún fór með í prófið var Þoka frá Leysingjastöðum undan Stíganda Leysingjastöðum í eigu Hreins á Leysingjastöðum. Þau sem voru ekki notuð í prófið voru Sólvindur frá Kálfagerði undan Ódeseif frá Möðrufelli og Gloría frá Kálfsskinni undan Spæni frá Hafrafellstungu.

En við kveðjum að sinni úr snjóþungadalnum djúpa með smá blast from the past þó ekki gamalt sé, Sindri Snær þarsíðasta sumar knúsar Senu frá Árgerði, vonarstjörnuna undan Snældu frá Árgerði og Tind frá Varmalæk. Gott að sjá grænt og sumar svona í hyllingum :)

.

15.03.2011 23:51

Marsfjör

Góðan daginn góðir lesendur

Mars ætlar ekkert að fara blíðari höndum um okkur Íslendinga en Janúar og Febrúar. Rokið geysar enn þó með smáhléum! KEA-mótaröðin átti að vera á fimmtudaginn síðastliðinn og var þá mokandi ofankoma með kófi og ófært innan Akureyrar svo því var frestað fram á mánudag en þá var stormsvindur einnig og enn var því frestað og allt er þegar þrennt er annað kvöld, fimmtudag viku síðar en upprunalega mótið.

Fengum reyndar frábæra blíðu og geggjað reiðfæri eftir ofankomustorminn síðasta fimmtudag og kom þá logn og frost og var snjóalag yfir öllu.


Úr verðlaunaafhendingu á Mývatni Open í stóðhestakeppninni.

Mývatn Open var þriðja úti ísmótið í röð og það síðasta í bili og létum við okkur ekki vanta þangað. Ásdís fór með Gýgju frá Úlfsstöðum í tölt sem er hryssa hjá okkur í kynbótaþjálfun. Er hún undan Flygli frá Vestri-Leirárgörðum og Kósý frá Úlfsstöðum, hún er á 7.vetur. Einnig fékk Glóðar Tristanssonur frá Árgerði að prufa ísinn og stóð sig ágætlega.
Biggi fór með stóðhestana Tristan og Gangster í stóðhestakeppnina og Blakk í skeiðið. Á Mývatni var mikil blíða, sól og logn og c.a -12°c frost.

Tristan endaði í öðru sæti í stóðhestakeppninni á eftir Blæ frá Torfunesi með einkunina 8.50. Gangster var þrælgóður og hafði mjög gaman af svona tilbreytingu.
Efstu tveir úr stóðhestakeppninni


Gangster á Mývatni

Í töltinu komust efstu fimm í úrslit. Reyndar voru fjórir með einkunina 6.50 í 5-9 sæti og þar á meðal Gýgja og Ásdís. Riðu þar með 9 hestar úrslitareiðina og endaði Gýgja fimmta þar og komst á verðlaunapall með einkunina 6.60.HÉR MÁ SJÁ fleiri myndir frá Mývatni Open

Eins og áður sagði var mánudagurinn síðasti 14.mars mikill hvassviðra dagur. Mættu Ásdís og Anna til vinnu eins og venjulega á mánudagsmorgun þungar á brún og langþreyttar á þessu veðurfari en voru vaktar hressilega af Kára góðvini okkar er hann bókstaflega feykti ofan af okkur þakinu. Myndi símtalið sem Ásdís hringdi til Birgis bónda sem var niðri í Árgerði á dráttarvélinni komast í hlátursbækurnar ef það væri til á upptöku er hún hringdi í hann og lét vita af ástandinu er bárujárnsplöturnar fuku hver af annarri af hlöðuþakinu í Litla-Garði eins og í dómínóspili. Bóndinn brunaði heim á hlað á dráttarvélinni eftir að hafa hringt á björgunarsveitina og var ekki lengi að vippa sér upp á þak og festa þær plötur sem næstar voru til að fjúka niður og stoppa þau dómínóáhrif sem komin voru í gang. Björgunarsveitin var ekki lengi að mæta á staðinn og koma öllu í lag á ný. En bærinn okkar litli fékk sína 10 mínútna frægð í fréttatíma kvöldsins er bóndinn svaraði sposkur spurningum fréttamanns sem kom til að líta á ástandið. Ásdís reif auðvitað upp myndavélina og myndaði herlegheitin:Plöturnar voru fjórar talsins sem fuku af
Allt orðið eins og það á að vera aftur. Þökkum við björgunarsveitinni kærlega fyrir frábæra aðstoð og léttan og skemmtilegan anda á meðan verkinu stóð. Ekki hægt að kvarta yfir þessari frábæru starfsemi en innan við klukkutíma eftir að hringt var eftir aðstoð voru átta vaskir menn mættir fullbúnir til starfa og var búið að gera við þakið c.a tveim klukkustundum síðar.

10.03.2011 20:25

Stóðhestarnir

Er búin að græja upplýsingarnar um stóðhestana okkar hér til hliðar. Fimm mjög álitlegir og fallegir hestar sem eru í boði hjá okkur þetta árið.


Kiljan frá Árgerði - Laus til útleigu 2011


Tristan frá Árgerði


Gangster frá Árgerði - Laus til útleigu 2011


Jarl frá Árgerði - Laus til útleigu 2011

Einnig eru tveir ungfolar á þriðja vetur gríðarvel ættaðir. Mjög spennandi að líta á þá og spyrjast fyrir ef ykkur vantar ódýran toll undan efnilegum folum sem vonandi eiga eftir að slá í gegn.

09.03.2011 23:18

Magnaður mars

Jæja, loksins brosa veðurguðirnir við okkur.


Það er vel við hæfi að efnisprinsessan Spyrna frá Árgerði heilsi ykkur í byrjun á þessum fallega skjannahvíta degi! Sjá fleiri myndir hér af Spyrnu.

Það eru tvö hross á fjórða vetur frá þeim í Árgerði í kynbótaþjálfun. Þetta er Spyrna Tristansdóttir frá Árgerði, á fjórða undan Hrefnu frá Árgerði og stóðhestsefnið Jarl frá Árgerði en það verður fjallað um hann næst.
Er þessi hryssa mjög skemmtileg, geðgóð og galopin til gangs. Einnig er hún gullfalleg og mjög stór, örugglega yfir 150 cm á bandmál. Stefnt er með þessa hryssu í dóm í vor og eru miklar væntingar bundnar til hennar.

Ætla að byrja á nýju fjöri hér í færslunum en það er BLAST FROM THE PAST - gamlar minningar!


Hér er gömul mynd af stórsigri heimasætunnar hér á árum áður. Á einu og sama mótinu kom hún 12 ára gömul, sá og sigraði BÆÐI barnaflokk og B-flokk á Melgerðismelum á félagsmóti Funa.
Og ekki nóg með það, heldur á aðeins 5 vetra gamalli hryssu. Nanna Lind Stefánsdóttir og Evíta frá Litla-Garði voru svakalegar þarna og hlutu einnig titilinn glæsilegasta par mótsins. Ætli þetta sé einsdæmi í sögunni ? Evíta hlaut síðar 1.v en hún er undan Svarti frá Unalæk og Elvu frá Árgerði og var síðar seld með mikilli eftirsjá.

Glóðar frá Árgerði er í stöðugri framför og var smellt nýjum myndum af honum í gær og tókst það sérlega vel, hann bætir stanslaust í skref og fótaburð og virðist ætla að verða alvöru keppnishestur.


Smellið á myndina til að sjá hinar :) nb. HlífaLAUS


Spyrnan í léttri sveiflu

Enda hér á annari BLAST FROM THE PAST mynd en það er af litla bóndanum á bænum og henni Tinnu
Gæti maður verið sætari ? Pínu þreytandi að bíða eftir pabba stundum!

Svo endilega hreint, kæru lesendur, nær og fjær, vinir og vandamenn og eins aðrir sem eiga leið hjá megið endilega láta í ykkur heyra! :) gestabók eða comment

05.03.2011 20:25

Allt að gerast ...

Jæja góða kvöldið kæru lesendur 


Eigum við að ræða þetta eitthvað frekar ? (fjárans appelsínugalli að þvælast fyrir?!)

Svínavatn 2011 er yfirstaðið! Var skráning mjög góð og voru yfir 150 skráðir í þrjá flokka enda til mikils að vinna, 100 þús fyrir 1.sæti, 40 fyrir 2.sæti og 20.þús í 3.sæti í öllum flokkum. 
Veðrið hefði alveg getað verið betra en hvílíkt endalausa ryskjótta veður er alveg að gera okkur geðveik. Sem betur fer fengum við næstum því blíðu meðan á A-flokknum stóð en þegar töltið byrjaði þökkuðum við guði fyrir að vera ekki skráð í það. 

En að öðru, árangrinum! 
Tristan stóð sig vel og landaði 3.sætinu eftir að koma 6-7 inn í úrslit með 8.51 í forkeppni. 

1  Þórarinn Eymundsson Seyðir frá Hafsteinsstöðum Rauður-    9,2 8,3 8,7 8,6 8,8 8,77 
 2 Vignir Siggeirsson Heljar frá Hemlu Brúnn/mó-    8,6 8,6 8,7 8,7 8,7 8,67

 3 Stefán Birgir Stefánsson Tristan frá Árgerði Jarpur-    8,5 8,7 8,7 8,7 8,7 8,66

 4 Tryggvi Björnsson Blær frá Miðsitju Rauður- blesótt   8,8 8,5 8,5 8,6 8,7 8,63 
 5 Sara Ástþórsdóttir Dimmir frá Álfhólum Jarpur-    8,7 8,6 8,4 8,6 8,6 8,58 
 6 Þorbjörn Hreinn Matthíasson Týr frá Litla-Dal Brúnn-    8,7 8,5 8,6 8,5 8,5 8,57
 7 Björn Jóhann Steinarsson Þyrnir  frá frá Borgarhóli rauðstjönóttur 8,4 8,5 7,4 8,3 8,3 8,14 
 8 Jakob Svavar Sigurðsson Alur frá Lundum II Brúnn- nösótt   9,0 8,0 5,0 8,4 8,4 7,73 

Frábært alveg hreint, Ásdís fór að sjálfsögðu líka en Hvinur var ekki alveg í stuði og skeiðaði ekki eins rosalega eins og síðustu helgi og komst ekki í úrslit en rúmlega 8.40 þurfti til að komast í úrslit. Látum myndirnar tala sínu máli!


En fjörið er ekki búið, neinei held nú ekki! Því Mývatn Open er næstu helgi og hestgreyin ná varla andanum á milli móta, nei segi svona, harðnaðir hestar .. :) Tristan mun mæta þangað í stóðhestakeppnina en Hvinur fær breik frá ísnum og fer með Lúlla Matt og liði Eyfirðinganna á Áskorendamót Riddara Norðursins sem er á laugardagskvöldið. 

En það er ekki það sem er næst á dagskrá því KEA mótaröðin er í vikunni og nú fyrst erum við með í leiknum :) þ.e.a.s hestalega séð, pínu klárhrossakeppnisskortur í húsinu, enda bara hálf hross er það ekki ? Því fimmgangurinn er á fimmtudagskvöld! 

En eins og áður sagði er veðrið ekki búið að vera skemmtilegt, tamningar ganga samt sem áður sinn vanagang, smekkfullt hús og milli 20 og 30 hross í kynbótaþjálfun og alltaf að bætast í og panta fyrir fleiri. Dásamlegt! En það er og hefur verið siður að reka hrossin a.m.k einu sinni í viku og hingað til höfum við rekið þau á bílum og niður í Miðgerði sem er um 4 km hvor leið - 8 km alls ýmist niður eða upp brekku, utan eða innanvegar. Hrossin elska það hreinlega og fá alltaf að fara soldið á túnið öll saman fyrir rekstur og eins eftir rekstur. Ásdís ákvað að hætta sér í myndatöku og stökk upp á pall á Ram-inum hjá Bigga og tókst það ágætlega, og hér sjáið þið hvernig rekstarnir okkar ganga fyrir sig:

Þetta er svo nauðsynlegt, bætir úthald og þrek og fjölbreytni og fleira í þjálfununinni og finnur maður mun á hrossunum daginn eftir rekstur, afslappaðari og skemmtilegri yfirhöfuð. 

Hér má sjá aðeins fleiri myndir úr rekstri
  • 1
Flettingar í dag: 3460
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 2003
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 928905
Samtals gestir: 66537
Tölur uppfærðar: 21.6.2024 08:46:48