Færslur: 2017 Janúar

01.01.2017 15:50

Annáll 2016Sælir kæru lesendur.


Um leið og við kveðjum árið 2016 viljum við þakka fyrir viðskiptin og samfylgdina á liðnu ári.

Þegar við lítum til baka eru blendnar tilfinningar sem láta á sér kræla. Árið bauð upp á væna blöndu af mikilli vinnu og verkefnum sem fóru ekki öll eins og maður vonaðist til. En það var samt svo miklu meira jákvætt en neikvætt.

Síðast liðinn vetur gekk sinn vanagang, við vorum með tvö atriði í sýningunni Fákar og fjör, Það voru systurnar Mirra og Eldborg sem dönsuðu um höllina.Eldborg frá Litla-Garði knapi Stefán Birgir og Mirra frá Litla-Garði knapi Ásdís Helga


Síðan vorum við með ræktunarsýningu sem bar nafnið í minningu Magna í Árgerði. Það var okkur hjartfólgið að fá að heiðra minningu Magna með þessum hætti. Þökkum við Hestamannafélaginu Létti kærlega fyrir það.f.v. Dalía Sif og Ásdís Helga, Ópera og Guðmundur, Mirra og Gústaf Ásgeir, Eldborg og Stefán Birgir.


Gangster fer vel af stað sem kynbótahestur og bætti við sig tveimur fjögurra vetra fyrstu verðlauna afkvæmum þetta árið. Það eru Aðall frá Steinnesi sem hlaut 8,07 í a.e. og Vaka frá Árgerði sem hlaut í a.e. 8,11.

Vaka tekin til kostanna á kynbótasýningu á Hólum í vor. 8,5 fyrir skeið.

Landsmótið á Hólum fór vel fram og fóru þeir feðgar Biggi og Sindri galvaskir með sín hross þangað. Biggi fór með Gangster í A flokkinn og fór vel af stað, en hann hlaut í forkeppni 8,75. Vorum við að vonum spennt fyrir milliriðlinum, enda hesturinn gríðarsterkur á öllum gangtegunudum og gefur þeim bestu ekkert eftir. En fljótt skipast veður í lofti, Gangster var of seinn niður í skeiðinu og komst þess vegna ekki í úrslit.


Biggi og Gangster en þeir fóru í 8,90 í A flokk í vor og sigruðu gæðinga og úrtökukeppni Léttis.


Eldborg frá Litla-Garði fór á LM og var þar á meðal úrvalshrossa í "fegurð í reið" en það voru hross sem höfðu fengið 9.5 eða 10 í einkunn fyrir fegurð í reið.


Eldborg í sveiflu.


Mirra gekk ekki heil til skóar og náði ekki tilsettum árangri áí kynbótabrautinni í vor. Hún hefur nú verið meðhöndluð við því meini og er orðin heil á ný.


Mirra snemma árs 2016.


Sindri Snær kom heldur betur á óvart á sínu fyrsta Landsmóti á Tóni sínum og skelltu þeir félagar sér beint í milliriðil og þaðan upp í B úrslit og höfnuðu þar í sjötta sæti, glæsilegt hjá þeim.


Sindri og Tónn úrslit LM

Tíu folöld fæddust á árinu, og var skiptinginn heldur ójöfn í ár eða átta hestar og tvær hryssur, stefnir því í metárgang í stóðhestum á bænum.

Eftir Landsmót Hestamanna var heyjað á methraða, heyjin mikil og góð.

Rúsínan í pylsuendanum og einn fallegasti viðburður ársíns var síðan þegar Hafþór sonur okkar og Heiður kona hans gengu í það heilaga í Grundarkirkju í sumar. Brúðkaupsveislan var haldin í reiðskemmunni hér í Litla-Garði og öllu tjaldað til, það var málað, smíðað, saumað, þrifið og undirbúið þar til umhverfið varð törfum líkast.

Á annað hundrað manns komu og glöddust með ungu brúðhjónunum og börnunum þeirra tveimur. Hjónakornin eru búsett á Álftanesi, Hafþór er kjötstjóri í Nóatúni Austurveri og Heiður er í námi í tölvunnarfræði.Í haust fengum við góða gesti frá Austurríki og Þýskalandi með okkur í hrossasmölunina. Dvöldu þeir hjá okkur frá fimmtudegi til sunnudags ásamt vini okkar Höskuldi Aðalssteins. Er þetta orðið að árlegum viðburði og er þegar farið að panta mikið fyrir komandi ár.Frumtamingar hafa verið á fullu og eru öll þriggja vetra tryppin orðin vel reiðfær og mörg álitleg hestefnin þar á ferð.

Dísa í Árgerði hefur það gott heima í Árgerði, er nokkuð frísk og fylgist vel með öllum sínum.

Nanna Lind er á öðru ári í viðskiptafræði í HA. Hún er allaf jafn kröftug og æfir crossfit á fullu þess á milli. Hún býr á Akureyri með kærasta sínum Darra Rafn sem er í námi í tölvunnarfræði.

Sindri Snær er komin í áttunda bekk og stendur sig vel í náminu, helsta áhugamálið er fótboltinn, en hann æfir með KA á Akureyri þrisvar í viku.

Fjölskyldan skellti sér til Kanarí á haustmánuðum í smá sumarfrí og naut sín vel í sólinni.
Nú í nóvember fékk Biggi nýtt og krefjandi verkefni að fást við er hann greindist með ristilkrabbamein. Var það að vonum áfall eins og slík tíðindi eru alltaf.

Góðu fréttirnar eru samt þær að æxlið er staðbundið og læknanlegt og er hann langt komin með geislameðferð á Landsspítalanum.

Við höfum verið heppinn varðandi starfsfólk, höfum haft gott lið með okkur þetta árið og nú þegar veikindin báru að garði, vorum við svo lánsöm að fá hann Magnús Inga Másson (eigandi Farsæls frá Litla-Garði) til að stýra öllu hér heima. Hann er öllum hnútum kunnugur hér í Litla-Garði þar sem hann hefur starfað hjá okkur áður. Magnús hefur til liðs með sér tvær tamningarkonur. Er þetta okkur afar mikils virði.


Magnús Ingi og gæðingurinn Farsæll frá Litla-Garði

Það skiptir nefnilega miklu máli að hjólin snúist áfram þótt Biggi sé að sinna öðru verkefni. Núna eru um 20 hross á húsi, og verða umtalsverð skipti nú um áramót. Eru þeir sem hafa hug á að koma hrossum sínum í tamningu beðnir að hafa samband við Bigga í s. 896-1249. Hann fjarstýrir dæminu meðan hann er sunnan heiða, en er væntanlegur heim um miðjan janúar.

Við höfum fundið fyrir dásamlegri samheldni og stuðningi hjá fjölskyldu, vinum og kunningjum og erum sannarlega þakklát fyrir það. Biggi er bjartsýnn og hress og þegar farin að leggja á með félugum sínum fyrir sunnan.

Kæru lesendur. Megi 2017 verða ykkur frábært ár! Takk fyrir allt á árinu og munum að þakka fyrir tímann. Hvað sem hann býður okkur upp á. Hann kemur nefnilega ekki aftur.

Bestu kveðjur frá öllum í Litla-Garði


  • 1
Flettingar í dag: 84
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 1981
Gestir í gær: 202
Samtals flettingar: 977034
Samtals gestir: 69400
Tölur uppfærðar: 15.7.2024 03:29:56