Færslur: 2011 September

11.09.2011 03:06

Minning um gæðing

Gullgripurinn og kynbótahryssan Glæða frá Árgerði er fallin. Var hún felld 9.september síðastliðinn og grafin hér í Litla-Garði. Ætla ég að fara yfir hennar sögu hér og taka saman hennar árangur sem kynbótahryssu. 


Hér má sjá Glæðu síðsumars árið 1991

Glæða frá Árgerði var fædd árið 1987, móðir hennar var Glóð frá Árgerði f.1978 en hún var undan Gorm frá Akureyri og Jarpsokku frá Grund. Glóð var ósýnd og átti fá afkvæmi. Foreldrar hennar reyndust heldur ekki miklir kynbótagripir og er Glóð því mjög lág í kynbótamati sem skilar sér svo til Glæðu einnig og þó hún hafi staðið sig frábærlega sem kynbótahryssa eru möguleikar hennar á Heiðursverðlaunum engir. Glæða var svo undan Snældu-Blesa frá Árgerði, son Snældu frá Árgerði og Hrafns frá Holtsmúla. 

Stefán Birgir var knapi Glæðu alla tíð og hér er hans lýsing á henni sem reiðhryssu: 

"Ég var með Glæðu alveg frá upphafi. Hún var eitt af fimm tryppum sem ég hafði í tamningarprófi FT veturinn 1991, Glæða þá á fjórða vetur. Hún var alveg dauðþæg og meðfærileg alveg frá upphafi og framan af vetri valdi hún töltið framyfir brokkið og alltaf tandurhrein á gangi. Var hún með skemmtilegri tryppum í tamningu sem ég man eftir og var einstaklega taumlétt strax. Brokkið kom svo þegar leið á sumarið með auknum styrk. Við stóðumst prófið saman og var hún hæsta tryppið mitt en meðaleinkunnin var 9.06 fyrir þessi þrjú tryppi. Töltið var alla tíð frábært og var hæga töltið sérstaklega magnað, með því albesta sem ég hef nokkurn tímann kynnst. Vekurðin kom svo þegar hún var á fimmta vetur og var skeiðið gott í henni. Allt frá upphafi var höfuðburður og burður yfirhöfuð hlutur sem vafðist ekki fyrir henni. Eins viljinn, hann varð strax mikill en ávallt meðfærileg, alderi vottaði fyrir ofríki. Að sitja þessa hryssu var alltaf hrein unun, fangreist og klipin í kverk, alltaf tandurhrein á gangi og spilandi viljug og létt. Hægt var að stjórna henni með litla putta þó svo viljinn væri mikill. Hæga töltið var sem áður sagði magnað, dillandi hreint með miklum fótaburði og reisingu svo eftir var tekið. Komst hún á rúmlega fethraða á því, svo hægt gat hún farið. Eðallinn hennar var spilandi léttleiki og frábært geðslag, alltaf fislétt á taumum og þó öskuviljug og tilbúin í hvað sem er. Afkvæmin eru lík henni að mörgu leyti. Gegnumheilt klikkar ekki langur og góður háls (6 afkvæmi dæmd og öll nema eitt með 8.5 fyrir þann þátt), fljót til í góðan höfuðburð og eiga létt með að bera sig fallega. Yfirleitt alhliðageng en með úrvals tölti. Fjörviljug og alltaf meðfærileg."

Glæða var svo sýnd í kynbótadómi 1992 fimm vetra í sinn besta dóm og fékk þá 7.68 fyrir byggingu (8.5 fyrir háls/herðar/bóga) og 7.93 fyrir hæfileika, 8 fyrir tölt, 7 fyrir brokk og skeið, 9 fyrir vilja og 8.5 fyrir fegurð í reið. 


Glæða í keppni með Bigga


Glæða skeiðar af krafti fyrir neðan Teig. 


Á brokki fyrir neðan Teig


Hjónin ung og mögnuð saman hér á systurnum undan Snældu-Blesa, Glæðu og Elvu frá Árgerði

Glæða reyndist verða frábær kynbótahryssa og gríðarlega kynsterk á að gefa sína bestu kosti til afkvæmanna. 

Fyrsta afkvæmi hennar var hestur fæddur 1994 undan Oddi frá Selfossi og var það bleikur hestur. Hann fórst af slysförum ungur að árum.

Annað afkvæmi hennar fæddist árið 1995 og var það jörp hryssa undan Bessa frá Árgerði (f. Angi frá Laugarvatni m. Snælda frá Árgerði). Var hún skýrð Bessý frá Árgerði og var seld Sæmundi Sigtryggssyni. 

Þriðja afkvæmi hennar fæddist svo 1996 og varð það grár hestur undan Gusti frá Hóli. Var hann skýrður Gosi frá Árgerði hér og þótti virkilega álitlegur. Var hann taminn í Teigi af verknema frá Hólaskóla og kom vel út úr því, hágengur fallegur hestur. Sigurbjörn Bárðarson keypti hann svo eftir nokkur mót hér norðan heiða þar sem hann hafði vakið athygli. Á Diddi hann enn í dag og skýrði hann upp Ísidór frá Árgerði. Dóttir hans Sara hafnaði í 2.sæti á honum á LM í Barnaflokki 2004. Ísidór var sýndur í kynbótadómi 2002 og hlaut fyrstu verðlaun. 
Höfuð 7                             Tölt 8.5
Háls/herðar/bógar 8            Brokk 8
Bak og lend 6                    Skeið 7.5
Samræmi 8                       Stökk 8.5
Fótagerð 8.5                      Vilji/geðslag 8.5
Réttleiki 7.5                       Fegurð í reið 8.5
Hófar 8                              Fet 8.5
Prúðleiki 6.5                      Hæfileikar 8.29
Bygging 7.76                    Hægt tölt 8.5
                                        Hægt stökk 8.5
Aðaleinkunn: 8.08
Mun Ísidór að Didda sögn verða áfram hjá þeim til æviloka enda sé hann einn af fjölskyldunni.


Ísidór frá Árgerði

Árið 1997 fæddist svo jörp hryssa undan Mána frá Árgerði (f. Þokki frá Garði m. Katla frá Árgerði) og var hún skírð Gloría frá Árgerði. Gloría hlaut sinn hæðsta dóm árið 2004:
Höfuð 7.5                             Tölt 8.5
Háls/herðar/bógar 8               Brokk 8
Bak og lend 9.5                    Skeið 8
Samræmi 8                          Stökk 8
Fótagerð 6.5                         Vilji/geðslag 8.5
Réttleiki 7.5                          Fegurð í reið 8
Hófar 9                                 Fet 7
Prúðleiki 7                           Hæfileikar 8.20
Bygging 7.93                      Hægt tölt 8
                                          Hægt stökk 7.5
Aðaleinkunn: 8.09

Ketill Ágústsson keypti Gloríu af Stefáni Birgi og er hún í folaldseignum þar. 

Glæða er geld árið 1998 og 1999 fæðist svo jarpur hestur undan Hjörvari frá Árgerði (f. Hjörtur frá Tjörn m. Hreyfing frá Árgerði). Hann heitir Veigar frá Árgerði. Hann var geltur og lofaði góðu í tamningu. Sigurbjörn Bárðar keypti hann einnig og á því tvo geldinga undan Glæðu. 

Árið 2000 fæðist hestur undan Svarti frá Unalæk en fórst

2001 fæðist svo glæsihesturinn Glymur frá Árgerði. Hann er undan fótaburðarhestinum og heimsmeistaranum Krafti frá Bringu. Glymur var frábær hestur í alla staði, yndislegt geðslag og frábært ganglag alveg frá byrjun. Heilmikill fótaburður, rými og geta á gangi. Glymur hlaut sinn hæsta dóm 2007:
Höfuð 8                                  Tölt 9
Háls/herðar/bógar 8.5              Brokk 9
Bak og lend 8                         Skeið 7
Samræmi 8.5                         Stökk 8.5
Fótagerð 8                              Vilji/geðslag 8.5
Réttleiki 7                               Fegurð í reið 9
Hófar 8.5                                Fet 8
Prúðleiki 7                              Hæfileikar 8.53
Bygging 8.18                         Hægt tölt 9.5
                                             Hægt stökk 8.5
Aðaleinkunn: 8.39

Glymur var seldur fyrst suður og svo aftur og er nú í Danmörku og þjónar þar hryssum og er einnig að standa sig vel á keppnisvellinum. 

Svo fæddist geldingur árið 2003 undan Tristan frá Árgerði (f. Orri m. Blika frá Árgerði), Glóðar frá Árgerði. Er hann í dag hjá okkur í Litla-Garði og er mjög vaxandi og spennandi alhliða keppnishestur, stór og myndarlegur og með hágengar og svifmiklar gangtegundir. 

Svo fæðist árið 2004 alsystir Glóðars, Gletting frá Árgerði jörp að lit. Er hún að mörgu leyti nauðalík móður sinni. Bæði í útliti og að kostum. Er hún í eigu Magna í Árgerði og verður aldrei seld. Hún er enn í þjálfun og hefur aldeilis ekki sagt sitt síðasta á kynbótavellinum ef allt gengur eftir en hún hefur átt við meiðsli að stríða. Stefnt er á að hún fari í folaldseignir eftir næsta Landsmót.
Höfuð 7.5                                Tölt 8.5
Háls/herðar/bógar 8.5               Brokk 8.5
Bak og lend 7.5                       Skeið 7
Samræmi 8.5                          Stökk 8.5
Fótagerð 7                              Vilji/geðslag 8.5
Réttleiki 7.5                             Fegurð í reið 8.5
Hófar 8                                    Fet 8
Prúðleiki 7.5                           Hæfileikar 8.22
Bygging 7.94                         Hægt tölt 8.5
                                             Hægt stökk 8
Aðaleinkunn: 8.11

Gletting hefur einnig gert góða hluti í bæði B-flokki og tölti á keppnisvellinum. 

Svo fæðist árið 2005 jarpur hestur einnig undan Tristan og var skírður Spori. Var hann geltur en var lógað af nauðsynlegum ástæðum

2006 fæðist rauðglófextur hestur er sýndi strax á fyrstu mánuðum að hann ætti eftir að láta að sér kveða í framtíðinni. Þótti nafnið Gangster passa vel á þennan fallega hest. Hann fékk að halda kúlunum og fór í vor í flottan klárhestadóm. Gangster er undan Glampasyninum Hágangi frá Narfastöðum. 
Höfuð 8                                   Tölt 9
Háls/herðar/bógar 8.5               Brokk 9
Bak og lend 8                          Skeið 5
Samræmi 8                          Stökk 9
Fótagerð 7.5                         Vilji/geðslag 9
Réttleiki 7.5                          Fegurð í reið 8,5
Hófar 8.5                                 Fet 8
Prúðleiki 8.5                           Hæfileikar 8.18
Bygging 8.11                      Hægt tölt 8
                                          Hægt stökk 8
Aðaleinkunn: 8.15



Glæða var svo geld árið 2007 en árið 2008 fæðist rauður hestur undan Smára frá Skagaströnd og er hann graður og býsna fallegur. Er verið að byrja að temja hann núna í haust. Sá heitir Glaumur frá Árgerði

Árið 2009 fæðist rauð hryssa undan Hróðri frá Refsstöðum og lofar hún mjög góðu. Heitir hún Gefjun frá Árgerði

Svo árið 2010 fæðist fjórtánda og síðasta folald Glæðu en það var rauður hestur undan Kiljan frá Árgerði (f. Nagli frá Þúfu m. Blika frá Árgerði) og verður hann graður áfram. 

Þannig að segja má að Glæða hafi vel skilað sínu til hrossaræktarinnar, sex afkvæmi hennar af tólf á tamningaraldri hafa skilað sér til dóms og öll í 1.verðlaun. Hin sex eru fimm geldingar (3 sem féllu frá ungir) og ein hryssa. Og ekki er allt búið enn þar sem enn eru þrjú ung tryppi sem gætu og munu örugglega skila sér til dóms seinna. 

Við kveðjum því þessa mögnuðu kynbótahryssu og vin okkar með söknuði! 
Kveðjustund !

06.09.2011 09:57

Haust .......

Góðan daginn

Þá er september skollinn á og það með látum. Rigning og þoka hefur einkennt þessa viku sem liðin er af "haustinu" og fara vonir um gott haust sökum dapurs sumars dvínandi. En best er að gefa ekki upp alla von strax og halda í vonina um fleiri sólargeisla og notalegs veðurs.

En lokamót sumarsins hér í Eyjafirði er yfirleitt Bæjarkeppnin gamla góða. Var hún síðustu helgina í ágúst og auðvitað fjölmennti Litla-Garðsliðið þangað. Biggi var reyndar að leggja lokahönd á heyskapinn en sá fram á nokkrar lausar klukkustundir á sunnudeginum og skellti sér með og kláraði svo bara um kvöldið og var heyskapssumarið hér eiginlega framar vonum eins og það leit út í byrjun sumars.

En til að byrja á yngsta meðlimi liðsins og færa sig svo ofar þá er vel við hæfi að byrja á Sindra Snæ 8 ára.


Hann keppti á Kyndli "sínum" 6 vetra gömlum og voru þeir hrikalega flottir. Hjá þeim yngstu fóru allir heim með verðlaunapening og verðlaunað voru þrjú efstu sætin og ekki raðað eftir það. Sindri sagðist þá þrælánægður hafa lent í 4-6 sæti :)


Nanna Lind fékk Evelyn lánaða hjá mömmu sinni (og Ásdísi þjálfara hennar ;)) og sigraði unglingaflokkinn með glæsibrag á henni.


Björgvin fékk Glettingu lánaða hjá Bigga og Magna og var eini þátttakandinn í ungmennaflokki. Hann var settur með stóru körlunum í flokk og voru margir á þeirri skoðun að hann hefði átt að standa efstur þar. En hann rústaði þá spilaúrdrættinum og fór með bæði eignarbikar og stóra farandbikarinn til þeirra sem hann keppti fyrir sem voru Gullbrekka


Svakalega stoltur !!


Nanna skellti sér á Vísinum sínum í kvennaflokkinn og gekk ágætlega og sýndu þau sína flottu takta en enduðu ekki í topp 3.


Og Ásdís ákvað að mæta með einn glænýjan, Brján frá Steinnesi 5.v og enduðu Brjánn og Ásdís í 2.sæti.


Biggi smellti sér í karlaflokkinn á Glóðari frá Árgerði og voru þeir flottir og enduðu í 2.sæti eftir jafna keppni. Glóðar er gríðarlega vaxandi alhliðahestur, skrefmikill og viljugur. Hann er til sölu og sjá má allar upplýsingar og video á sölusíðunni.

Sjá má fleiri myndir frá Bæjarkeppni á myndasíðunni okkar.

Fjárgöngur og réttir voru síðastliðna helgi og fengu gangnamenn og konur rigningu og svartaþoku og eðlilega skilaði sér langt í frá allt fé af fjalli. Svona er nú Ísland í dag

Endilega gerið LIKE á okkur á Facebook (smellið á myndina) og fylgist þar frekar með fréttum og myndum:
 

  • 1
Flettingar í dag: 6672
Gestir í dag: 100
Flettingar í gær: 5796
Gestir í gær: 333
Samtals flettingar: 1270044
Samtals gestir: 81171
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 23:23:59