Færslur: 2014 Ágúst
17.08.2014 20:21
Mótin
Góða kvöldið kæru vinir.
Síðustu helgi skelltum við okkur á hið árlega og stórskemmtilega Einarstaðamót. Aðeins var nú veðrið að stríða okkur, en þetta mót hefur að öllu jöfnu verið þekkt fyrir blíðviðri.
Að þessu sinni var hestakerran fyllt og hrossin keyrð austur, en yfirleitt höfum við farið ríðandi þangað.
Vorum við ánægð með árangur okkar hrossa en flest þeirra eru að stíga sín fyrstu skref í keppnisbrautinni.
Biggi fór með Mirru frá Litla-Garði í tölt og B flokk. Þau voru í fyrsta sæti í B flokk eftir forkeppni með einkunnina 8,52 og í öðru sæti í tölti með einkunnina 6,87.
Vorum við að sjálfsögðu sátt með frumraunina hennar Mirru.
Í B flokks úrslitunum voru 4 hestar efstir og jafnir með einkunnina 8,59 endaði með sætaröðun dómara og hafnaði Mirra þar í öðru sæti.
Johanna fór með Glymru frá Litla-Garði í sína fyrstu gæðingakeppni í B flokk og hlaut 8,22, var rétt fyrir utan útslit, ekki slæm byrjun það í geysisterkum B flokk:)
Karen frá Árgerði þreytti einnig frumraun sína í A flokki gæðinga og var önnur inn í B útslit en við ákváðum að draga hana úr keppni þar sem að hún fór í sölusýningu daginn eftir.
Biggi fór með Sigurdísi frá Árgerði í 100 m skeið og var í öðru til þriðja sæti með tímann 7,80.
Nanna Lind og Sindri voru með Vísi og Tón í ungmenna og barnaflokk og stóðu sig með prýði, Sindri var í 2 til 3ja sæti og Nanna Lind í fjórða.
Nú um helgina var haldið stórmót Funa á Melgerðismelum.
Er skemmst frá því að segja að Mirra stóð þar efst eftir forkeppni B flokks með 8,57 en hafnaði í öðru sæti í úrslitum þar sem að hún fipaðist aðeins á brokkinu. Hún var efst hjá sínu félagi en haldin var gæðingakeppni Funa samhliða.
Fjórir efstu í B flokk gæðinga á stórmóti Funa á Melgerðismelum. Skemmtilega samtaka í skrefi :)
Sigurdís frá Árgerði sigraði 100 metra skeiðið og Aldís frá Krossum þreytti sína fyrstu A flokks keppni, var í 7 sæti eftir forkeppni og vann einnig A flokk Funa.
Aldís frá Krossum
Sindri Snær kom sá og sigraði en hann átti stórkostlega sýningu strax í forkeppni og hlaut efsta sæti með einkunnina 8,57.
Sætur sunnudagur hjá þeim félugum.
Snilldarsýning hjá litla kallinum :)
Hann bætti um betur í úrslitum og fékk 8,65 sem var hæsta einkunn mótsins og persónulegt met Sindra :) Og að sjálfsögðu dugði þetta honum til sigurs.
Látum þetta duga í bili.
Bestu kveðjur frá Litla-Garði
Skrifað af Herdís
02.08.2014 17:04
framræktun Glæðu frá Árgerði
Sæl á ný kæru lesendur.
Glymsdæturnar Mirra og Glymra voru heldur betur í stuði í gær á Melunum :)
Verð að fá að deila með ykkur þessum ágætis myndum sem að Sindri Snær tók er hann var að æfa sig með myndavélina.
Mirra frá Litla-Garði
Hér er síðan systir hennar Glymra frá Litla-Garði
Glymra frá Litla-Garði
Glymur heitinn, faðir þessa hryssna var undan Glæðu frá Árgerði og Kraft frá Bringu,
Enn sannast framræktun Glæðu frá Árgerði en hún er búin að skila okkur 5 fyrstu verðlauna hrossum.
Stóðhestunum Glym og Gangster frá Árgerði, geldingnum Ísidor og gæðingshryssunum Gloríu og Glettingu frá Árgerði. Hin afkvæmi hennar hafa reynst mjög vel, allt saman afskaplega heiðarleg og hæfileikarík hross.
Nú eru ömmubörnin byrjuð að týnast inn og er það ekki slæm byrjun, sb þessar tvær hryssur hér , Emilíana frá Litla-Garði ,Gangsterssonurinn Farsæll frá Litla-Garði, Gloría frá Skúfslæk og mörg önnur bráðefnileg á uppleið.
Og að lokum ein af henni Mirru en eins og mörgum er kunnugt fór hún í mjög góð fyrstu verðlaun í vor.
En þar sem að hún heltist og missti þ.a.l af landsmótinu, laumaðist Biggi með hana undir Gangster sama dag og við fórum með hann suður á LM og það dugði til!
Mirra er fylfull og er meiningin að leyfa henni að eiga þetta (hæfileikabombu folald ) og taka hana síðan aftur í þjálfun og sækja allar níurnar og tíurnar hennar :) hehehe
Læt þetta duga í bili :)
Skrifað af Herdís
- 1
Flettingar í dag: 6672
Gestir í dag: 100
Flettingar í gær: 5796
Gestir í gær: 333
Samtals flettingar: 1270044
Samtals gestir: 81171
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 23:23:59