Færslur: 2018 Mars
21.03.2018 15:58
Mývatn open
Sælir kæru lesendur.
Selina og Biggi í tamningartúr.
Tamingar og þjálfun ganga vel í Litla-Garði. Við erum heppin að hafa Selinu Bauer í okkar liði, hún er virkilega fær tamningamaður og ganga tamingar vel hjá henni og Bigga. Selina hefur frá unga aldri verið við tamingar og þjálfun á íslenska hestinum og stefnir á nám í Háskólanum á Hólum. Mikið er af ungum og bráðefnilegum hrossum inn í hesthúsinu sem eiga framtíðina fyrir sér hvort sem er á keppnisbrautinni eða til frístundar. Meðalaldurinn er 5 vetra.
Við brugðum okkur á Mývatn open um helgina í frábæru veðri.Nokkrir nýliðar úr hesthúsinu voru með í för og höfðu þau mikið gott af, gott í reynslubankann sem er ekki ýkja stór. Veðrið var dásamlegt, hiti og sól. Kom það aðeins niðr á brautinni (ísnum) sem var orðin eitt svað að B flokk loknum og var brugðið á það ráð að færa bautina á betri stað þar sem ísinn var betri.
Selina fór með Drift í B flokkinn. Var það fyrsta keppni þeirra beggja á Íslandi og stóðu þær sig mjög vel.
Drift er 6v í vor. Hún er efnishryssa undan Blæ frá Torfunesi og Kveikju frá Árgerði. Við vorum virkilega ánægð með þessa frumraun hjá þeim stöllum. Fallegt skref og falleg holling ber vott um góða þjálfun, til hamingju Selina :)
Biggi fór með Bergrós í B flokkinn. Bergrós er 10v undan Hóf frá Varmalæk og Sunnu frá Árgerði. Þessi mynd er tekin utan brautar þar sem að reiðfæri var mun betra.
Brautin stóð aðeins í henni og náði hún ekki að nógu góðri spyrnu til að sýna sitt allra besta og náði því ekki inn í úrslit. Begrós er alþæg, hágeng fjórgangshryssa.
Biggi fór með Flautu 6.v í A flokkinn. Gekk það vonum framar í hennar fyrstu keppni og hafnaði Flauta í 5. sæti.
Flauta er undan Gangster frá Árgerði og Melodíu frá Árgerði. Virkilega spennandi og flugvökur hryssa.
Ferðalagið sem slíkt var mikil áskorun fyrir stóðhestinn Víking frá Árgerði. Fyrir það fyrsta að eyða deginum í hestakerru með fjórum skvísum og koma síðan á glænýtt svæði þar sem að allt var morandi í flottum og vel lyktandi dömum :) Víkngur verður 6v í vor og er ekki hægt að segja að hann sé hokinn af reynslu en mun þetta vera fyrsta skiptið sem hann kemur á mótstað.
Víkingur er undan Kiljan frá Steinnesi og Snældu frá Árgerði, mikið efni í fimmgangara með frábært hægt tölt.
Kepptu þeir félagar í tölti og voru vel sáttir eftir fyrstu keppnina sína saman en þeir höfnuðu í 4ða sæti.
Þessi hryssa er nú með aðeins meiri reynslu en þessi sem á undan eru talin, en þetta er hún Sigurdís frá Árgerði en hún sigraði 100 m skeið á Mývatn open. Sigurdís er undan Hágangi frá Narfastöðum og Silfurtá frá Árgerði. Mun ég setja sigursprettinn inn á facebook síðu Litla-Garðs á morgun fyrir þá sem hafa áhuga á að kíkja á það.
læt þetta duga í bili. Mér langar að þakka lesendum hvað þeir eru duglegir að fylgjast með okkur, það gleður okkur mikið.
Bestu kveðjur úr sveitinni
Litla-Garðs fjölskyldan
- 1