20.03.2014 20:23

Síðbúnar fréttir af ísmóti

Sælir kæru lesendur.
Það hefur verið frekar lítið um fréttir hjá okkur þar sem að ný heimasíða er í vinnslu og hefur það því miður komið niður á þessari en þetta stendur nú allt til bóta. Hér í Litla-Garði gengur lífið sitt vanagang, mikið riðið út og ótrúlega margt af spennandi hrossum á öllum stigum tamningar.
Biggi ákvað að bregða sér af bæ seinustu helgi og taka þátt í ísmóti á Leirutjörn, enda kærkomið að geta farið á útimót þar sem að reiðhallasýningar tröllríða öllu svona yfir háveturinn :) Hann fór með tvær hryssur á mótið. Fyrst skal nefna Skerplu frá Brekku sem er verulega flott hryssa í eigu Magnúsar Jósefssonar í Steinnesi. Hún er viljug, hágeng alhliðahryssa með mikið fas sem getur gengið hvort heldur sem er í íþrótta eða gæðingakeppni. Fór Biggi með hana í töltið og höfnuðu þau í 2. sæti með einkunnina 6,75 úr forkeppni. Flottur árangur þar sem hún er nú að stíga sín fyrstu skref á keppnisbrautinni.
Hin hryssan var Sigurdís frá Árgerði en hana fór Biggi með í 100 m flugskeið og báru þau sigur úr bítum með tímann 8,86. Þess má geta að Sigurdís var á ísmóti á Dalvík í febrúar og þá var tíminn 8,65. Verulega lofandi skeiðhryssa á ferð og spurning hvort komin sé staðgengill fyrir Blakk frá Árgerði, sem mörgum er kunnugur fyrir vasklega framgöngu í skeiði síðustu 15 ár. 


Þangað til næst, lifið heil :)


Skerpla frá Brekku í 2. sæti
Skerpla frá Brekku

Flettingar í dag: 184
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 291
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 2333102
Samtals gestir: 276555
Tölur uppfærðar: 4.6.2020 06:33:22