02.05.2011 19:52

The show must go on !!

Góðan og blessaðan daginn...

Fyrst ætla ég að segja frá hrakförum þessa veturs en þrjú hross hafa átt við meiðsli að stríða;

Kiljan frá Árgerði
Hann Kiljan okkar hefur verið frá í allan vetur. Hann tognaði á hringvöðva á framfæti í desember og taka slík meiðsli mikinn tíma til að jafna sig. Hann var í tvo mánuði í byrjun árs á Hólaborg í sundi og alls kyns meðferð ásamt því að vera þónokkuð hjá hnykkjaranum Susi Brown. Verður ekki hægt að þjálfa hann á ný fyrr en 2012. Getur hann samt sem áður sinnt hryssum og er best að hafa samband við Bigga ef áhugi er fyrir því að koma með hryssu undir hann.

Gletting frá Árgerði
Gletting hefur aðeins verið í þjálfun seinnipart veturs en hún var með lausa hnéskel og þjáði það hana þónokkuð. Hún hefur verið einnig undir vökulu auga Susi og einnig Gests dýralæknis og er hún að verða sjálfri sér lík núna.

Karen frá Árgerði er Hágangsdóttir á fimmta vetur undan Kveikju frá Árgerði semh Anna Sonja hefur verið með í þjálfunarhestunum. Hún slasaðist í síðustu viku hjá okkur og var það frekar óhugnarleg aðkoma. Leit út fyrir að hryssan væri mikið kjálkabrotin og var hún drifin niður á dýraspítala strax. Kom þá í ljós að ein tönn í neðri góm hafði brotnað alveg niður við kjálkabein og sporðreiðst i kjálkanum á henni og skagaði beint út. Hafði blætt mikið og var hún fremur dauf þarna um morgunin, Er algjör ráðgáta hvernig þetta getur hafa gerst og munum við aldrei finna svarið við því. En þetta tekur a.m.k sex vikur að jafna sig og stífa meðhöndlun til að auðvelda henni lífið á meðan.

En eins og fyrirsögnin segir ... THE SHOW MUST GO ON, meiðsli fylgja þessum bransa ávallt. Að öðru heldur gleðilegra en það er fyrsta kynbótasýning ársins og var skellt sér með aðaltöffarann Gangster frá Árgerði.



Aðaleinkunn: 8,08


Sköpulag: 8,11

Kostir: 8,06


Höfuð: 8,0

Háls/herðar/bógar: 8,5
   1) Reistur   5) Mjúkur   8) Klipin kverk  

Bak og lend: 8,0
   8) Góð baklína   G) Afturdregin lend   I) Áslend  

Samræmi: 8,0
   5) Sívalvaxið  

Fótagerð: 7,5
   F) Grannir liðir   H) Grannar sinar  

Réttleiki: 7,5
   Afturfætur: E) Brotin tálína  
   Framfætur: A) Útskeifir   C) Nágengir  

Hófar: 8,5

Prúðleiki: 8,5

Tölt: 8,5
   1) Rúmt   5) Skrefmikið  

Brokk: 9,0
   3) Öruggt   4) Skrefmikið   6) Svifmikið  

Skeið: 5,0

Stökk: 9,0
   1) Ferðmikið   3) Svifmikið   4) Hátt  

Vilji og geðslag: 9,0
   2) Ásækni   4) Þjálni  

Fegurð í reið: 8,5
   3) Góður höfuðb.   4) Mikill fótaburður  

Fet: 8,0
   1) Taktgott  

Hægt tölt: 8,0

Hægt stökk: 8,5
Gekk þetta ljómandi vel, vantaði aðeins örlítið uppá að þetta yrði eins gott og hugsast yrði en það er 9.0 fyrir tölt og fegurð í reið en við reynum aftur.
Kom hann einnig fram á sýningunni Tekið til kostanna og vakti mikla athygli þar.
Gangster verður í Litla-Garði í hólfi eftir Landsmót en hægt er að koma með hryssur til hans á húsnotkun fram að því. Kostar tollurinn 100.000 kr með öllu í hólfi.

Einnig komum við fram með afkvæmahóp undan Tristan frá Árgerði. Komu þar fram Gletting frá Árgerði, Tónn frá Litla-Garði og Hvinur frá Litla-Garði og tókst það þrælvel upp.

Hrossin blómstra alveg þessa dagana í húsinu. Þvílík sumarblíða var í dag og var tækifærið gripið og smellt af myndum af kynbótahryssum.
Fyrst er Perla frá Syðra-Brekkukoti fædd 2005. Hún er undan Stæl frá Miðkoti og Kolfinnu frá Akureyri. Eigandi hennar er María Jensen









Næst er Evelyn (Elvý) frá Litla-Garði einnig fædd 2005. Hún er undan Hrym frá Hofi og Elvu frá Árgerði. Eigandi hennar er Herdís Ármannsdóttir húsfreyjan sjálf.







Einnig var Biggi eitthvað að þvælast fyrir þegar á myndatöku stóð og náðust þessar fínu myndir af honum:

Hér er hann á Brák frá Fellshlíð fædd 2005 undan Garpi frá Auðsholtshjáleigu og Birtu frá Akureyri.



Og svo á Kolbrá frá Kálfagerði fædd 2005 undan Glampa frá Vatnsleysu og Blökk frá Ytra-Skörðugili


Smellið á síðustu myndina fyrir aðeins fleiri myndir :)


27.04.2011 20:13

Og fjörið hefst fyrir alvöru ...


Gýgja frá Úlfsstöðum tekur á því

Já vorið er komið í allri sinni dýrð! Það finnst á hrossunum sem og hitastigi og LYKT !! Gróðurinn að taka við sér og það er komin þessi yndislega vorlykt. Svo er hinn vorboðinn að byrja núna á föstudaginn og það er fyrsta kynbótasýning ársins, en meira um það á eftir.


Frá vinstri: Bára Galsadóttir, Brjánn Glettingssonur, Karen Hágangsdóttir og Emilíana Glymsdóttir saman útá túni að leika sér



Sjá má fleiri myndir frá fallegum og fjörugum apríl vordegi í myndaalbúmi :)

Það gengur eins og í sögu á tamningarstöðinni. Verknámið hjá Önnu gengur vel og er hún nú í seinnihlutanum af þjálfunarhestunum. Er hún með fimm skemmtileg hross og mjög fjölbreyttur hópur. Eigandi að einni hryssu sem hún er með kom í dag að taka út þjálfunina á henni og greip ég tækifærið og smellti af myndum, það er hún Lipurtá frá Miklagarði fædd 2006, afabarn Tristans okkar.



Þrælsniðug hryssa þar á ferð. Stefnum með hana í dóm vonandi í júní

Svo eru ungviðin farin að streyma inn, styttist í sauðburð. Komin þrjú folöld nú þegar einnig en þau tvö fyrstu voru ansi óvænt, greinilega komið heldur snemma niður í einum vetrurgömlum undan Sónötu frá Litla-Hóli og Gangster frá Árgerði og náði hann að fylja tvær ári eldri.
Fyrst kom Hófí frá Litla-Garði með hryssu sem Sindri Snær skírði Spes. Hófí er undan Melódíu frá Árgerði og Hóf frá Varmalæk.


Rauðskjótt eiginlega, stjörnótt og sokkótt á öllum fjórum og svo skottótt



Hin er ónefnd hryssa undan 1.v hryssunni Væntingu frá Ási og Glym frá Árgerði. Kom hún með rauðstjörnóttan hest sem hefur ekki verið nefndur.




Litli varð alveg ringlaður þegar hann kom fyrst út en þær voru færðar inn í hlöðu eftir að Spes litla fæddist og fæddist þessi kútur þar. Þarna eru hans fyrstu kynni af girðingum og þurfti hann aðeins aðstoð við að ná áttum.

Líflandsmótið var haldið síðastliðna helgi og tók Nanna þar þátt á Vísi frá Árgerði. Gerði hún sér lítið fyrir og sigrðaði bæði tölt og fjórgang með glæsibrag, glæsilegt par þar á ferð sem stefna á Landsmót saman ! Hér er frétt um mótið.

Hér er mynd af Nönnu og Vísi frá Fákar og Fjör sýningunni en þar voru þau í atriði með unglingum Léttis.

Frá tölt- úrslitum Líflands mótsins þar sem Nanna og Vísir sigruðu með 6.72

En á döfinni er Tekið til kostana á laugardaginn á Króknum en þar á undan er kynbótasýningin sem ég nefndi áðan. Stefnt er þangað með Gangsterinn en hann er í feiknastuði. Komum við með fréttir af því þegar það er afstaðið.

En stórsýningin Tekið til kostana er um helgina og ætlum við að mæta þangað með afkvæmahóp undan Tristan. Endilega kíkið á það :)



30.03.2011 23:26

Vor í lofti

Góðan og fallegan daginn góðir lesendur

Vek til að byrja með athygli ykkar á að lénið okkar er orðið http://www.litli-gardur.is :)

Fyrst og fremst frumsýnum við hér okkar eigið Lógó:

Hvernig líst ykkur á???

En mars er alveg að klárast og hinn alræmdi 1.apríl er á morgun. Mars hefur einkennst af frekar furðulegri veðráttu, upphaf mánaðarins var kuldi, vetur og endalaus skafrenningur sem endar alltaf með ófærð hér í dalnum djúpa og hér ber að líta myndir sem teknar voru í síðustu viku eftir vetrarhörku áðurgengra daga:


Myndarhaugur en ófært varð með öllu upp að stóðhestahúsi sökum stífrar sunnanáttar.

En svo hlýnaði og svo kom rigning og svo kom drulla og um síðustu helgi var allt að fara. Í dag er snjór hér og þar og drullan alveg að ná yfirhöndinni. En vor er í lofti og hlýtt úti og alveg dásamlegt að ríða út! Hrossin eru alveg með á nótunum líka og skynja vor og sumar í nánd.
Það fylgir alltaf hrossarag því að búa í sveit og í vetrarhörkunni geta girðingar snjóað í kaf eða gefið sig. Og hrossin eiga það til að fara á flakk eins og við lentum í í mánuðinum. Síðasta laugardag var svo notað góða veðrið í að færa þau aftur niður í Miðgerði þar sem folaldshryssur eru í einu hólfi og geldhross í öðru:


Byrjað á að reka heim og skilja að. Komust að þeirri leiðindaniðurstöðu að tvær af efnilegustu hryssunum á þriðja vetur er að öllum líkindum fylfullar. Báðar eru þær undan 1.verðlauna foreldrum og miklar væntingar bundnar við þær. Það eru ekki alltaf jólin!


Aðeins stopp í gerðinu heima


Alveg að koma á leiðarenda

Það gleymdist alveg að seigja frá því að nýlega festi húsfrúin kaup á nýjum frúarbíl á bænum. Auðvitað er þetta ekki bara frúarbíll en samt er hann það eiginlega :) 
Gullfallegur Hyundai Santa Fe 


Fallegur er hann

En er komið að öðru BLAST FROM THE PAST

Magni er nú á 81.aldursári og bara nokkuð sprækur. Sér ennþá alveg um sitt bú og er með nokkur hross á járnum. Hefur með sér stelpu í nokkra tíma á dag og er nokkuð riðið út. Gamli trimmar tvær hryssur sjálfur, fær smá aðstoð á og af baki og svo bara laggó. Hestamannahugurinn deyr aldrei og þjálfar hann þær eftir bestu getu, önnur svona klármegin og hin meira alhliðamegin og svona aðeins þungar á sér en það sem það er nú gaman að sjá hvernig hann lifnar við og ljómar á baki. Það er nú ekki nema 9 ár síðan hann sýndi Snældu sína sjálfur í 1.v og kom henni inn á Landsmót í 4.vetra flokki, 72 ára!


Magni og Snælda á Vindheimamelum 2002 á LM

Hann gerði um betur og sýndi hana aftur 6.v og kom henni aftur inn á Landsmót! Svona menn eru alveg einstakir. Hestamenn alveg inn að beini og út aftur að skinni.

Snælda frá Árgerði er skírð í höfuðið á stofnhryssunni Snældu fæddri 1968. Hún var einstakur gæðingur á sínum tíma og má rekja ættir allra Árgerðishrossa í dag aftur til hennar tel ég öruggt að fullyrða. Hún fæddist upp á dag 30 árum síðar en formóðir sín og undan Bliku dóttur Snældu. Örlítið dekkri jarpur litur en að öðru leyti nauðalík ömmu sinni.
Snælda sinnir hlutverki stóðhryssu í dag, tvö komin á tamningaraldur og virðist hún ekki ætla að svíkja nafn sem ættmóðir. Undir henni gengur brún hryssa undan Þóroddi og er hún fylfull við Óm frá Kvistum.


Hér er Snælda með dóttur sinni Senu (Tindsdóttir) sumarið 2009

23.03.2011 00:39

Snjór snjór og aðeins meiri vindur!


Gangster í léttri sveiflu í mars loksins þegar lægir aðeins

Góðan daginn kærir lesendur.

Við erum við það að snjóa í kaf og fjúka í burtu til skiptis hér í Djúpadalnum. Það er ófært nánast upp á hvern dag hérna bæði fyrir tæki og skepnur. En það kemur birta inn á milli og það eru allir svo kátir með færi og veður að það er ekki annað hægt en að festa það á filmu.

Okkur vantaði frábæra mynd fyrir stóðhestablaðið af honum Gangster okkar og fannst okkur engin mynd til sem sýndi hann í réttu ljósi. Því var farið í dag og gert ein tilraun til og tókst framar vonum. Hesturinn batnar og batnar og hrein unun er að horfa á hann hreyfa sig, slíkt er skrefið og fótaburðurinn.

Nokkur sýnishorn og smellið á síðustu myndina til að fara inn í albúmið:







Höfum við eiginlega ákveðið að hafa þennan hest hér heima í sumar og halda öllum okkar hryssum undir hann sem eru ekki of skyldar því svona grip kemst maður ekki oft í tæri við.

Af öðrum fréttum gengur tamningarstöðin glimrandi fyrir utan veðurþunglyndið sem herjar stanslaust á okkur. En guði sé lof fyrir inniaðstöðuna og lambhúshetturnar og ég tala nú ekki um kuldagallann og ullarsokkana :)

Í síðustu viku var verknámið hálfnað hjá Önnu Sonju og hún kláraði frumtamningarkaflann. Því var frestað einu sinni sökum veðurs og það var ótrúlegt en það lægði rétt á meðan hún tók prófið og hvessti svo aftur. En hér eru nokkrar myndir úr prófinu hennar:


Prófdómararnir Sölvi Sig og Tóti Eymunds taka út fyrsta tryppið, Perlu frá Tungu undan Stormi frá Efri-Rauðalæk í eigu Jóseps á Möðruvöllum


Anna kampakát með tryppi nr. 2 sem heitir Dalrós frá Litla-Garði í eigu Bigga og Herdísar undan Ódeseif frá Möðrufelli og Sunnu frá Árgerði


Anna valdi þrjú tryppi í prófið og prófuðu dómararnir þau öll bæði úti og inni. Hér situr Sölvi Dalrósu og lætur hana víkja að aftan.

HÉR má sjá aðeins fleiri myndir úr prófinu!

Þriðja tryppið sem hún fór með í prófið var Þoka frá Leysingjastöðum undan Stíganda Leysingjastöðum í eigu Hreins á Leysingjastöðum. Þau sem voru ekki notuð í prófið voru Sólvindur frá Kálfagerði undan Ódeseif frá Möðrufelli og Gloría frá Kálfsskinni undan Spæni frá Hafrafellstungu.

En við kveðjum að sinni úr snjóþungadalnum djúpa með smá blast from the past þó ekki gamalt sé, Sindri Snær þarsíðasta sumar knúsar Senu frá Árgerði, vonarstjörnuna undan Snældu frá Árgerði og Tind frá Varmalæk. Gott að sjá grænt og sumar svona í hyllingum :)

.

15.03.2011 23:51

Marsfjör

Góðan daginn góðir lesendur

Mars ætlar ekkert að fara blíðari höndum um okkur Íslendinga en Janúar og Febrúar. Rokið geysar enn þó með smáhléum! KEA-mótaröðin átti að vera á fimmtudaginn síðastliðinn og var þá mokandi ofankoma með kófi og ófært innan Akureyrar svo því var frestað fram á mánudag en þá var stormsvindur einnig og enn var því frestað og allt er þegar þrennt er annað kvöld, fimmtudag viku síðar en upprunalega mótið.

Fengum reyndar frábæra blíðu og geggjað reiðfæri eftir ofankomustorminn síðasta fimmtudag og kom þá logn og frost og var snjóalag yfir öllu.


Úr verðlaunaafhendingu á Mývatni Open í stóðhestakeppninni.

Mývatn Open var þriðja úti ísmótið í röð og það síðasta í bili og létum við okkur ekki vanta þangað. Ásdís fór með Gýgju frá Úlfsstöðum í tölt sem er hryssa hjá okkur í kynbótaþjálfun. Er hún undan Flygli frá Vestri-Leirárgörðum og Kósý frá Úlfsstöðum, hún er á 7.vetur. Einnig fékk Glóðar Tristanssonur frá Árgerði að prufa ísinn og stóð sig ágætlega.
Biggi fór með stóðhestana Tristan og Gangster í stóðhestakeppnina og Blakk í skeiðið. Á Mývatni var mikil blíða, sól og logn og c.a -12°c frost.

Tristan endaði í öðru sæti í stóðhestakeppninni á eftir Blæ frá Torfunesi með einkunina 8.50. Gangster var þrælgóður og hafði mjög gaman af svona tilbreytingu.




Efstu tveir úr stóðhestakeppninni


Gangster á Mývatni

Í töltinu komust efstu fimm í úrslit. Reyndar voru fjórir með einkunina 6.50 í 5-9 sæti og þar á meðal Gýgja og Ásdís. Riðu þar með 9 hestar úrslitareiðina og endaði Gýgja fimmta þar og komst á verðlaunapall með einkunina 6.60.



HÉR MÁ SJÁ fleiri myndir frá Mývatni Open

Eins og áður sagði var mánudagurinn síðasti 14.mars mikill hvassviðra dagur. Mættu Ásdís og Anna til vinnu eins og venjulega á mánudagsmorgun þungar á brún og langþreyttar á þessu veðurfari en voru vaktar hressilega af Kára góðvini okkar er hann bókstaflega feykti ofan af okkur þakinu. Myndi símtalið sem Ásdís hringdi til Birgis bónda sem var niðri í Árgerði á dráttarvélinni komast í hlátursbækurnar ef það væri til á upptöku er hún hringdi í hann og lét vita af ástandinu er bárujárnsplöturnar fuku hver af annarri af hlöðuþakinu í Litla-Garði eins og í dómínóspili. Bóndinn brunaði heim á hlað á dráttarvélinni eftir að hafa hringt á björgunarsveitina og var ekki lengi að vippa sér upp á þak og festa þær plötur sem næstar voru til að fjúka niður og stoppa þau dómínóáhrif sem komin voru í gang. Björgunarsveitin var ekki lengi að mæta á staðinn og koma öllu í lag á ný. En bærinn okkar litli fékk sína 10 mínútna frægð í fréttatíma kvöldsins er bóndinn svaraði sposkur spurningum fréttamanns sem kom til að líta á ástandið. Ásdís reif auðvitað upp myndavélina og myndaði herlegheitin:



Plöturnar voru fjórar talsins sem fuku af








Allt orðið eins og það á að vera aftur. Þökkum við björgunarsveitinni kærlega fyrir frábæra aðstoð og léttan og skemmtilegan anda á meðan verkinu stóð. Ekki hægt að kvarta yfir þessari frábæru starfsemi en innan við klukkutíma eftir að hringt var eftir aðstoð voru átta vaskir menn mættir fullbúnir til starfa og var búið að gera við þakið c.a tveim klukkustundum síðar.

10.03.2011 20:25

Stóðhestarnir

Er búin að græja upplýsingarnar um stóðhestana okkar hér til hliðar. Fimm mjög álitlegir og fallegir hestar sem eru í boði hjá okkur þetta árið.


Kiljan frá Árgerði - Laus til útleigu 2011


Tristan frá Árgerði


Gangster frá Árgerði - Laus til útleigu 2011


Jarl frá Árgerði - Laus til útleigu 2011

Einnig eru tveir ungfolar á þriðja vetur gríðarvel ættaðir. Mjög spennandi að líta á þá og spyrjast fyrir ef ykkur vantar ódýran toll undan efnilegum folum sem vonandi eiga eftir að slá í gegn.

09.03.2011 23:18

Magnaður mars

Jæja, loksins brosa veðurguðirnir við okkur.


Það er vel við hæfi að efnisprinsessan Spyrna frá Árgerði heilsi ykkur í byrjun á þessum fallega skjannahvíta degi! Sjá fleiri myndir hér af Spyrnu.

Það eru tvö hross á fjórða vetur frá þeim í Árgerði í kynbótaþjálfun. Þetta er Spyrna Tristansdóttir frá Árgerði, á fjórða undan Hrefnu frá Árgerði og stóðhestsefnið Jarl frá Árgerði en það verður fjallað um hann næst.
Er þessi hryssa mjög skemmtileg, geðgóð og galopin til gangs. Einnig er hún gullfalleg og mjög stór, örugglega yfir 150 cm á bandmál. Stefnt er með þessa hryssu í dóm í vor og eru miklar væntingar bundnar til hennar.

Ætla að byrja á nýju fjöri hér í færslunum en það er BLAST FROM THE PAST - gamlar minningar!


Hér er gömul mynd af stórsigri heimasætunnar hér á árum áður. Á einu og sama mótinu kom hún 12 ára gömul, sá og sigraði BÆÐI barnaflokk og B-flokk á Melgerðismelum á félagsmóti Funa.
Og ekki nóg með það, heldur á aðeins 5 vetra gamalli hryssu. Nanna Lind Stefánsdóttir og Evíta frá Litla-Garði voru svakalegar þarna og hlutu einnig titilinn glæsilegasta par mótsins. Ætli þetta sé einsdæmi í sögunni ? Evíta hlaut síðar 1.v en hún er undan Svarti frá Unalæk og Elvu frá Árgerði og var síðar seld með mikilli eftirsjá.

Glóðar frá Árgerði er í stöðugri framför og var smellt nýjum myndum af honum í gær og tókst það sérlega vel, hann bætir stanslaust í skref og fótaburð og virðist ætla að verða alvöru keppnishestur.


Smellið á myndina til að sjá hinar :) nb. HlífaLAUS


Spyrnan í léttri sveiflu

Enda hér á annari BLAST FROM THE PAST mynd en það er af litla bóndanum á bænum og henni Tinnu




Gæti maður verið sætari ? Pínu þreytandi að bíða eftir pabba stundum!

Svo endilega hreint, kæru lesendur, nær og fjær, vinir og vandamenn og eins aðrir sem eiga leið hjá megið endilega láta í ykkur heyra! :) gestabók eða comment

05.03.2011 20:25

Allt að gerast ...

Jæja góða kvöldið kæru lesendur 


Eigum við að ræða þetta eitthvað frekar ? (fjárans appelsínugalli að þvælast fyrir?!)

Svínavatn 2011 er yfirstaðið! Var skráning mjög góð og voru yfir 150 skráðir í þrjá flokka enda til mikils að vinna, 100 þús fyrir 1.sæti, 40 fyrir 2.sæti og 20.þús í 3.sæti í öllum flokkum. 
Veðrið hefði alveg getað verið betra en hvílíkt endalausa ryskjótta veður er alveg að gera okkur geðveik. Sem betur fer fengum við næstum því blíðu meðan á A-flokknum stóð en þegar töltið byrjaði þökkuðum við guði fyrir að vera ekki skráð í það. 

En að öðru, árangrinum! 
Tristan stóð sig vel og landaði 3.sætinu eftir að koma 6-7 inn í úrslit með 8.51 í forkeppni. 

1  Þórarinn Eymundsson Seyðir frá Hafsteinsstöðum Rauður-    9,2 8,3 8,7 8,6 8,8 8,77 
 2 Vignir Siggeirsson Heljar frá Hemlu Brúnn/mó-    8,6 8,6 8,7 8,7 8,7 8,67

 3 Stefán Birgir Stefánsson Tristan frá Árgerði Jarpur-    8,5 8,7 8,7 8,7 8,7 8,66

 4 Tryggvi Björnsson Blær frá Miðsitju Rauður- blesótt   8,8 8,5 8,5 8,6 8,7 8,63 
 5 Sara Ástþórsdóttir Dimmir frá Álfhólum Jarpur-    8,7 8,6 8,4 8,6 8,6 8,58 
 6 Þorbjörn Hreinn Matthíasson Týr frá Litla-Dal Brúnn-    8,7 8,5 8,6 8,5 8,5 8,57
 7 Björn Jóhann Steinarsson Þyrnir  frá frá Borgarhóli rauðstjönóttur 8,4 8,5 7,4 8,3 8,3 8,14 
 8 Jakob Svavar Sigurðsson Alur frá Lundum II Brúnn- nösótt   9,0 8,0 5,0 8,4 8,4 7,73 

Frábært alveg hreint, Ásdís fór að sjálfsögðu líka en Hvinur var ekki alveg í stuði og skeiðaði ekki eins rosalega eins og síðustu helgi og komst ekki í úrslit en rúmlega 8.40 þurfti til að komast í úrslit. Látum myndirnar tala sínu máli!










En fjörið er ekki búið, neinei held nú ekki! Því Mývatn Open er næstu helgi og hestgreyin ná varla andanum á milli móta, nei segi svona, harðnaðir hestar .. :) Tristan mun mæta þangað í stóðhestakeppnina en Hvinur fær breik frá ísnum og fer með Lúlla Matt og liði Eyfirðinganna á Áskorendamót Riddara Norðursins sem er á laugardagskvöldið. 

En það er ekki það sem er næst á dagskrá því KEA mótaröðin er í vikunni og nú fyrst erum við með í leiknum :) þ.e.a.s hestalega séð, pínu klárhrossakeppnisskortur í húsinu, enda bara hálf hross er það ekki ? Því fimmgangurinn er á fimmtudagskvöld! 

En eins og áður sagði er veðrið ekki búið að vera skemmtilegt, tamningar ganga samt sem áður sinn vanagang, smekkfullt hús og milli 20 og 30 hross í kynbótaþjálfun og alltaf að bætast í og panta fyrir fleiri. Dásamlegt! En það er og hefur verið siður að reka hrossin a.m.k einu sinni í viku og hingað til höfum við rekið þau á bílum og niður í Miðgerði sem er um 4 km hvor leið - 8 km alls ýmist niður eða upp brekku, utan eða innanvegar. Hrossin elska það hreinlega og fá alltaf að fara soldið á túnið öll saman fyrir rekstur og eins eftir rekstur. Ásdís ákvað að hætta sér í myndatöku og stökk upp á pall á Ram-inum hjá Bigga og tókst það ágætlega, og hér sjáið þið hvernig rekstarnir okkar ganga fyrir sig:









Þetta er svo nauðsynlegt, bætir úthald og þrek og fjölbreytni og fleira í þjálfununinni og finnur maður mun á hrossunum daginn eftir rekstur, afslappaðari og skemmtilegri yfirhöfuð. 

Hér má sjá aðeins fleiri myndir úr rekstri

28.02.2011 20:20

Ístölt Austurlands

Lífið gengur ávallt sinn vanagang, veturinn svona kemur og fer.... Dásamlegt reiðfæri inn á milli og svo kemur þýðan og allt breytist í drullu! En svona er víst að búa á Íslandi! 

Hins vegar eru reiðhallir auðvitað komnar á annan hvern bæ á Íslandi og alls staðar eru innanhúsmót á fullu og eins hefur verið nógu kalt til að vötn eru frosin og Ístöltin farin að geysa allar helgar. 

Fyrsta stóra Ísmótið var síðastliðna helgi á Egilsstöðum, nánar tiltekið á Móavatni við Tjarnarland. Skelltu Ásdís og Biggi sér þangað með feðgana Tristan og Hvin. Gekk það þrælvel og þeir voru nr. 2 og 3 í A-flokki bæði inn í úrslit og út. 

Hvinur var nr.2 eftir forkeppni með 8.52 í einkunn og hélt því sæti í úrslitum með 8.58







Tristan var nr.3 inn í úrslit með 8.50 í einkunn og hélt því sæti einnig í úrslitum með 8.53.







 Eyfirðingurinn Lúlli Matt sigraði á hinum glæsilega Tý frá Litla-Dal. 



Fjórir efstu í A-flokki - Sjá má fleiri myndir HÉR en myndasmiðir eru Anja Kokoschka og Hafrún Eiríksdóttir og þökkum við þeim kærlega fyrir!

Af tamningarstöðinni er gott að frétta. Á húsi eru að jafnaði um 38 hross og þar af 25-30 í kynbótaþjálfun. Verknámið hjá Önnu Sonju gengur vel og verður prófið um miðjan mars. 

Kynning á hrossi úr húsinu: 

Evelyn frá Litla-Garði er falleg grá hryssa á sjötta vetur. Hún er klárhryssa undan Hrym frá Hofi og Elvu frá Árgerði og er því systir Hvins frá Litla-Garði sem er hér fyrir ofan. Hún tók þátt í sinni fyrstu keppni um daginn í KEA-mótaröðinni og gekk það ágætlega, virkilega lofandi hryssa sem bætir sig dag hvern. Eigandi Evelyn eru Herdís og Biggi!



Á döfinni er heilmargt, næstu helgi er Ís-Landsmótið á Svínavatni og stefnum við líklegast þangað. Helgina þar á eftir er svo Ísmót á Mývatni og Áskorendamót Riddaranna á Sauðárkróki sama dag ;) 


18.02.2011 17:58

Uppfærð sölusíða

Jæja, þá er sölusíðan loksins komin í lag :)

Búin að bæta inn fjórum nýjum spennandi hrossum og er von á fleirum á næstu dögum. Endilega kíkið á það. Sem dæmi má nefna geldinginn og Tristanssoninn Glóðar frá Árgerði sem er albróðir 1.v hryssunnar Glettingar frá Árgerði. Gríðar virkjamikill og skemmtilegur hestur sem á helling inni. Frábært tækifæri til að eignast flottan fimmgangshest!



Glóðar frá Árgerði í léttri sveiflu. Klikkið HÉR til að skoða hann betur, einnig VIDEO af honum.

Einnig Mónalísa frá Tyrfingsstöðum:


Framundan er Bautatölt á laugardaginn komandi og ætla einhverjir af heimilinu að smella sér þangað. Eins ákváðu Biggi og Ásdís að skella sér á reiðnámskeið með Sölva Sig um helgina og verður það bæði laugardag og sunnudag. Svo heldur KEA mótaröðin áfram í næstu viku og er þá tölt og stefna að sjálfsögðu allir þangað!

Einnig ætla ég að byrja á kynningu á hestum sem við erum með í húsinu. Fyrstur var aðaltöffarinn hann Gangster frá Árgerði hér fyrir neðan og ef ég held áfram í stóðhestunum er næstur

Kolbakur frá Hrafnsstöðum IS2005166638
Kolbakur er undan Hrafnssyninum Forseta frá Vorsabæ sem hefur verið að skila flottum hrossum. Móðirin heitir Katla frá Múla 1 og er hún undan Anga frá Laugarvatni og hefur hlotið hina vafasömu einkunn 7.99 í aðaleinkunn. Smelltum af honum kyrrstöðumyndum í vikunni og koma myndir í reið síðar.



Kolbakur er góður alhliða hestur með allar gangtegundirnar góðar. Mjög gott geðslag. Stefnt er með hann í dóm í vor en hann er ósýndur.

11.02.2011 00:09

The one and only GANGSTER

EIgum einn stórefnilegan töffara í húsinu sem heitir því magnaða nafni Gangster frá Árgerði.
Er hann undan gæðingamóðurinni Glæðu frá Árgerði og Hágangi frá Narfastöðum.

Stendur þessi foli fyllilega undir nafni og er mikill gaur. Virkilega skemmtilegur hestur sem batnar dag hvern. Hann er fæddur 2006 og er graður. Myndirnar tala sínu máli:


















Hér má sjá nokkrar myndir í viðbót

08.02.2011 22:58

Ísfjörið dásamlega

Ahhh þá byrjar það allra allra besta við veturinn, að ríða á ÍS!!! Fyrsta ísmótið hér fyrir norðan verður á sunnudaginn komandi ef veðurguðirnir lofa og ætlum við að smella okkur þangað. 
Reyndar eru mótin að byrja af krafti núna og það þarf að vera á tánum ef á að fylgja straumnum. 
Var ferðin reyndar einnig til að taka æfingarrúnt í Top Reiter höllinni fyrir fyrsta mótið í KEA mótaröðinni næstkomandi fimmudagskvöld en við stóðumst ekki mátið að máta ísinn aðeins líka. 


Gæðingurinn og stóðhesturinn Tristan frá Árgerði er að komast í form.


Aðalkeppnishesturinn hennar Ásdísar er Hvinur frá Litla-Garði sonur Tristans. 


Anna Sonja tók sinn alfyrsta íssprett á hryssunni Hrafntinnu frá Kálfagerði sem er hennar keppnishross en hún er undan Biskup frá Saurbæ (Gustssyni frá Hóli). 


Tamningar ganga eins og í sögu á tamningarstöðinni og eru um 40 hross á járnum og langflest eru þau sem stefnt er með í kynbótadóm. Verknámið hjá Önnu gengur þrælvel og er frumtamningarferlið hálfnað núna. Tryppin sem hún er með eru undan Ódysseif frá Möðrufelli (2 stykki), Stormi frá Efri-Rauðalæk, Stíganda frá Leysingjastöðum og Spæni frá Hafrafellstungu. 

Ef ég tel upp þá hesta sem eiga afkvæmi í húsinu hjá okkur auk tryppanna hennar Önnu þá á Tristan þau flest, svo eru þau undan Hágangi Narfastöðum, Forseta Vorsabæ, Þóroddi frá Þóroddsstöðum, Parker frá Sólheimum, Kjarna Árgerði, Kiljan Árgerði, Tígli Gýgjarhóli, Töfra Selfossi, Glym Árgerði, Akk Brautarholti, Flygli Vestri-Leirárgörðum, Hrym Hofi, Goða Þóroddsstöðum, Hryllingi Vallanesi, Andvara Ey, Eldjárn Tjaldhólum, Þyt Neðra-Seli, Þorsta Garði og fleiri og fleiri. 

Í vikunni er stefnt að því að taka rykk á sölusíðunni og koma henni í flott stand. So keep tuned :) 

Með kveðju úr sveitinni... 

07.01.2011 13:11

Gleðilegt nýtt ár

Jæja þá mun fréttaflutningur hefjast á ný hér úr Djúpadalnum og er nýr ritari tekinn til starfa í fjarveru Nönnu Lindar sem er upptekin við að mennta sig, en nýr ritari er Ásdís Helga.
 

Nanna Lind og Sindri Snær á gamlárskvöldi í góðu fjöri.

Gleðilegt nýtt ár elsku lesendur og kærar þakkir fyrir það liðna. Undanfarið ár var nú æði misjafnt í okkar bransa sökum heilsubrests ferfætlinganna okkar. Lítið var um mót og sýningar sem annars ræður ríkjum yfir sumartímann. En nú er nýtt ár tekið við og sama stemming er uppi á teningnum og á sama tíma í fyrra, Landsmót framundan og tvöfaldur hugur er í fólki.

Það hefur nú þónokkuð á daga okkar driftið hér í Djúpadalnum síðan síðasta frétt kom inn. Svo það sé nú ekki endilega talið upp í tímaröð þá átti Gerða í Teigi sjötugsafmæli nú milli jóla og nýárs og hélt veislu. Óskum við henni hér aftur innilega til hamingju með það.
Hér má sjá mynd frá þeirri veislu, Biggi ásamt foreldrum og systkinum sínum ásamt þeirra mökum, stór og falleg fjölskylda:



Svo gekk jólahátíðin í garð hér á bæ sem og öðrum og var hún hátíðleg. Helgi bróðir Herdísar kom um miðjan desember til Íslands frá Ástralíu ásamt dóttur sinni Lindu Báru til að eyða hátíðunum með íslensku fjölskyldu sinni og ætla þau að dvelja hér þar til um miðjan janúar.


 Systkinin Herdís, Helgi og Bogga saman á ný

Áramótin gengu hjá áfallalaust hjá en ávallt er hætta á slysum á hrossum sökum flugelda.
Mikið var borðað af góðum mat og var rakettum svo skotið upp á Akureyri á miðnætti eins og venjan er. Svo var 2011 gengið í garð og nýjir tímar hefjast.


Ekki væsir um folaldshryssurnar og tryppin í útiganginum á gamlársdag, þegar nóg er að éta og nálægð við byggð ekki mikil er lítil hætta á slysum.

Tamningarstöðin sem hafði verið í dvala í Litla-Garði að mestu frá því að grös fóru að gulna tók kipp strax 2.janúar og þann þriðja var allt komið á fullt.
Í húsinu í vetur verða að starfa ásamt Stefáni Birgi heimalingurinn hún 
Ásdís Helga Sigursteinsdóttir en hún hefur lokið Hólaskóla og einnig Anna Sonja Ágústsdóttir frá Kálfagerði sem verður hér hjá okkur í verknámi frá Hólum í vetur. Kennari frá Hólaskóla, Þórir á Lækjarmóti kom svo að taka út verknámstryppin hennar Önnu Sonju þann 4.janúar og verður hún með fjórar hryssur og einn gelding. Verða þau kynnt betur síðar.

Húsið er að fyllast jafnt og þétt af gæðingum og enn er að berast hross. Það verður góð og mikil flóra af hrossum hjá okkur í vetur á öllum aldri. Langmest er af kynbótahrossum og einu hrossin sem eru hjá okkur nú í frumtamningu eru þau sem Anna hefur undir sínum höndum í verknáminu. Verða teknar myndir jafnt og þétt af þeim sem bera af hverju sinni og verður því þá smellt hér inn.

Vetur konungur fer heldur óblíðum höndum um okkur þessa dagana og mikil ofankoma er ásamt miklum vindi og frosti. En það er ávallt eitthvað að gera, innivinnan er nú auðvitað innlegg sem verður svo klár til úttektar þegar á þarf að halda seinna í vetur. Eins þurfa þau sem prúð eru að líta vel út og sveiflast hendurnar á dömunum hratt við að skipta og pússa fax.

Þar til næst, kveðjur úr Djúpadalnum




26.10.2010 13:02

Fréttir úr dalnum

Góðan daginn

Nú er haustverkunum lokið. Búið er að gefa tryppunum ormalyf og örmerkja folöldin.
í byrjun október hófust frumtamningar. U.þ.b 20 hross eru nú á járnum og þar af er meirihlutinn í frumtamningu. Gengur þetta mjög vel og er margt um virkilega efnileg tryppi að finna í hópnum.
Sem dæmi má nefna  4v hryssuna Gloppu frá Litla-Garði,  hún er undan Glym frá Árgerði og Toppu frá Egilsstaðabæ. Á næstunni fara koma myndir og fréttir af tryppunum, þegar myndaveður gefst til.
Þó smelltum við nokkrum myndum um daginn til að láta fylgja hér með

Rauðskjótta hryssan undan Sæ frá Bakkakoti er mjög myndarleg hryssa sem lofar góðu og er í eigu Óla Kóka




Hrymsdóttirin Evelín frá Litla-Garði er mjög efnileg 5v hryssa

Evelín frá Litla-Garði

En þá að öðru, Árgerði hefur verið tilnefnt sem ræktunarbú ársins ásamt 14 öðrum búum af Fagráði í hrossarækt. Læt hér fylgja með frétt frá miðlunum:

_____________________________________________________________

Tilnefnd ræktunarbú 2010


Fagráð í hrossarækt hefur nú tilnefnt rætkunarbú/ræktendur til heiðursverðlauna Bændasamtaka Íslands ræktunarmaður/menn ársins 2010. Afhending viðurkenninga og verðlaunun sigurvegaranna fer fram á ráðstefnunni "Hrossarækt 2010" á Hótel Sögu þann 20. nóvember næstkomandi. 


Eftirtalin bú/ræktendur eru tilnefndir í ár (í stafrófsröð): 

1. Auðsholtshjáleiga, Gunnar Arnarson, Kristbjörg Eyvindsdóttir og börn. 
2. Austurkot, Páll Bragi Hólmarsson og Hugrún Jóhannsdóttir. 
3. Árgerði, Magni Kjartansson. 
4. Berg, Jón Bjarni Þorvarðarson og Anna Dóra Markúsdóttir. 
5. Efri-Rauðilækur, Baldvin Ari Guðlaugsson, Ingveldur Guðmundsdóttir, 
   Guðlaugur Arason og Snjólaug Baldvinsdóttir. 
6. Flugumýri 2, Páll Bjarki Pálsson og Eyrún Anna Sigurðardóttir. 
7. Hólar í Hjaltadal. Háskólinn á Hólum. 
8. Hvoll, Ólafur Hafsteinn Ólafsson og Margrét Sigurlaug Stefánsdóttir. 
9. Ketilsstaðir/Selfoss/Syðri-Gegnishólar, Bergur Jónsson og Olil Amble. 
10. Kvistir, Kristjón Kristjánsson og Günter Weber. 
11. Prestsbær, Inga og Ingar Jensen. 
12. Skipaskagi, Jón Árnason og Sigurveig Stefánsdóttir. 
13. Ytra-Dalsgerði, Hugi Kristinsson og Kristinn Hugason. 
14. Þjóðólfshagi 1, Sigurður Sigurðarson og Sigríður Anna Þórðardóttir. 

_______________________________________________________________________


Kveðjur úr Litla-Garði og Árgerði

30.08.2010 14:38

Tristan aldrei verið betri

Jæja þá er farið að nálgast haustið og mótin að klárast þetta sumarið þótt þau hafi nú ekki verið mörg.
Stórmót Funamanna var haldið síðustu helgi á Melgerðismelum í Eyjafjarðasveit. Lukkaðist mótið vel þrátt fyrir kulda og mikla rigningu á sunnudeginum. Var mótið sterkt og gaman að sjá hvað margir hestar eru að koma til eftir pestina.
Tristan frá Árgerði hefur sjaldan verið betri en núna, vakti hann mikla athygli í A-flokknum en þar sigraði hann með einkunnina 8.71.

HÉR MÁ SJÁ MYNDBAND AF TRISTAN FRÁ ÚRSLITUNUM


A flokkur
Úrslit
Sæti Keppandi
1 Tristan frá Árgerði / Stefán Birgir Stefánsson 8,71
2 Dagur frá Strandarhöfði / Stefán Friðgeirsson 8,7
3 Týr frá Litla-Dal / Þorbjörn Hreinn Matthíasson 8,6
4 Laufi frá Bakka / Bjarni Jónasson 8,47
5 Týja frá Árgerði / Ásdís Helga Sigursteinsdóttir 8,36
6 Formúla frá Vatnsleysu / Jón Herkovic 8,31
7 Hvinur frá Litla-Garði / Svavar Örn Hreiðarsson 7,38
Styrnir frá Neðri-Vindheimum / Riikka Anniina

Í B-flokk fékk Gletting frá Árgerði að þreyta sína fyrstu tilraun.  Gekk það mjög vel og endaði hún 4. með einkunna 8.33 sem er ágætt miðað við fyrstu keppni.

B flokkur
Úrslit
Sæti Keppandi
1 Ríma frá Efri-Þverá / Þorbjörn Hreinn Matthíasson 8,60
2 Logar frá Möðrufelli / Baldvin Ari Guðlaugsson 8,55
3 Flugar frá Króksstöðum / Tryggvi Höskuldsson 8,34
4 Gletting frá Árgerði / Stefán Birgir Stefánsson 8,33
5-6 Rommel frá Hrafnsstöðum / Inga Bára Ragnarsdóttir 8,30
5-6 Heimir frá Ketilsstöðum / Bjarni Páll Vilhjálmsson 8,30
7 Dama frá Arnarstöðum / Þórhallur Dagur Pétursson 8,23
8 Örvar frá Efri-Rauðalæk / Ágústa Baldvinsdóttir 8,05

Í töltið fór Biggi með Dyn frá Árgerði og endaði annar þar með einkunnina 6.61.

Töltkeppni
A úrslit
Sæti Keppandi
1 Baldvin Ari Guðlaugsson / Logar frá Möðrufelli 7,11
2 Stefán Birgir Stefánsson / Dynur frá Árgerði 6,61
3 Þorbjörn Hreinn Matthíasson / Ríma frá Efri-Þverá 6,61
4 Þórhallur Þorvaldsson / Gandur frá Garðsá 6,22
Ásdís Helga Sigursteinsdóttir / Hryfning frá Kýrholti (fór undan)
Þór Jónsteinsson / Dalrós frá Arnarstöðum  (fór undan)

Nanna Lind fór með Tón frá Litla-Garði og Vísi frá Árgerði í Unglingaflokkinn. Var hún jöfn með þá inn í úrslit í 2.-3 sæti en valdi Tón í úrslitin og endaði þar 2. með einkunnina 8.52


Unglingaflokkur
Úrslit
Sæti Keppandi
1 Anna Kristín Friðriksdóttir / Glaður frá Grund 8,53
2 Nanna Lind Stefánsdóttir / Tónn frá Litla-Garði 8,52
3 Björgvin Helgason / Brynhildur frá Möðruvöllum 8,35
4 Guðlaugur Ari Jónsson / Akkur frá Hellulandi 8,15
5-6 Eydís Sigurgeirsdóttir / Gáski frá Hraukbæ 8,08
5-6 María Björk Jónsdóttir / Sveinn frá Sveinsstöðum 8,08
7 Karen Konráðsdóttir / Orka frá Arnarholti 8,06
8 Árni Gísli Magnússon / Íla frá Húsavík 7,18

Rétt fyrir mót gerði Biggi sér grein fyrir að nú væri illt í efni. Blakkur gamli skeiðhesturinn frá Árgerði, er en veikur og haltur.  En þrátt fyrir það sleppti Biggi nú ekki að taka þátt og fékk Gletting frá Dalsmynni lánaðan hjá Þór á Skriðu og enduðu þeir í 3.sæti í 150m skeiði með tímann 16,35.

150 m skeið
Sæti Knapi Hestur Besti tími Fyrri sprettur Siðari sprettur
1 Svavar Örn Hreiðarsson Myrkvi frá Hverhólum 15,60 17,06 15,60
2 Jón Björnsson Tumi frá Borgarhóli 15,9 15,90 15,9
3 Stefán Birgir Stefánsson Glettingur frá Dalsmynni 16,35 - 16,35

Litli guttinn hann Sindri Snær fór sína fyrstu keppni þarna og tók þátt á Móu frá Kýrholti.

Pollaflokkurinn

Myndir frá mótinu má sjá hér

Næst á dagskrá er svo Metamót Andvara á Kjóavöllum í Garðabæ
Ætlar Biggi að mæta þar með Tristan og sjá hvar hann stendur þar, er það bara spennandi og koma fréttir af því að helgi liðni.


Flettingar í dag: 146
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 815
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 1162525
Samtals gestir: 77047
Tölur uppfærðar: 4.10.2024 07:03:45