25.11.2018 11:17
Góðar heimsóknir
25.06.2018 11:41
Kynbótastarfið
21.03.2018 15:58
Mývatn open
Sælir kæru lesendur.
Selina og Biggi í tamningartúr.
Tamingar og þjálfun ganga vel í Litla-Garði. Við erum heppin að hafa Selinu Bauer í okkar liði, hún er virkilega fær tamningamaður og ganga tamingar vel hjá henni og Bigga. Selina hefur frá unga aldri verið við tamingar og þjálfun á íslenska hestinum og stefnir á nám í Háskólanum á Hólum. Mikið er af ungum og bráðefnilegum hrossum inn í hesthúsinu sem eiga framtíðina fyrir sér hvort sem er á keppnisbrautinni eða til frístundar. Meðalaldurinn er 5 vetra.
Við brugðum okkur á Mývatn open um helgina í frábæru veðri.Nokkrir nýliðar úr hesthúsinu voru með í för og höfðu þau mikið gott af, gott í reynslubankann sem er ekki ýkja stór. Veðrið var dásamlegt, hiti og sól. Kom það aðeins niðr á brautinni (ísnum) sem var orðin eitt svað að B flokk loknum og var brugðið á það ráð að færa bautina á betri stað þar sem ísinn var betri.
Selina fór með Drift í B flokkinn. Var það fyrsta keppni þeirra beggja á Íslandi og stóðu þær sig mjög vel.
Drift er 6v í vor. Hún er efnishryssa undan Blæ frá Torfunesi og Kveikju frá Árgerði. Við vorum virkilega ánægð með þessa frumraun hjá þeim stöllum. Fallegt skref og falleg holling ber vott um góða þjálfun, til hamingju Selina :)
Biggi fór með Bergrós í B flokkinn. Bergrós er 10v undan Hóf frá Varmalæk og Sunnu frá Árgerði. Þessi mynd er tekin utan brautar þar sem að reiðfæri var mun betra.
Brautin stóð aðeins í henni og náði hún ekki að nógu góðri spyrnu til að sýna sitt allra besta og náði því ekki inn í úrslit. Begrós er alþæg, hágeng fjórgangshryssa.
Biggi fór með Flautu 6.v í A flokkinn. Gekk það vonum framar í hennar fyrstu keppni og hafnaði Flauta í 5. sæti.
Flauta er undan Gangster frá Árgerði og Melodíu frá Árgerði. Virkilega spennandi og flugvökur hryssa.
Ferðalagið sem slíkt var mikil áskorun fyrir stóðhestinn Víking frá Árgerði. Fyrir það fyrsta að eyða deginum í hestakerru með fjórum skvísum og koma síðan á glænýtt svæði þar sem að allt var morandi í flottum og vel lyktandi dömum :) Víkngur verður 6v í vor og er ekki hægt að segja að hann sé hokinn af reynslu en mun þetta vera fyrsta skiptið sem hann kemur á mótstað.
Víkingur er undan Kiljan frá Steinnesi og Snældu frá Árgerði, mikið efni í fimmgangara með frábært hægt tölt.
Kepptu þeir félagar í tölti og voru vel sáttir eftir fyrstu keppnina sína saman en þeir höfnuðu í 4ða sæti.
Þessi hryssa er nú með aðeins meiri reynslu en þessi sem á undan eru talin, en þetta er hún Sigurdís frá Árgerði en hún sigraði 100 m skeið á Mývatn open. Sigurdís er undan Hágangi frá Narfastöðum og Silfurtá frá Árgerði. Mun ég setja sigursprettinn inn á facebook síðu Litla-Garðs á morgun fyrir þá sem hafa áhuga á að kíkja á það.
læt þetta duga í bili. Mér langar að þakka lesendum hvað þeir eru duglegir að fylgjast með okkur, það gleður okkur mikið.
Bestu kveðjur úr sveitinni
Litla-Garðs fjölskyldan
28.12.2017 17:07
Litið yfir árið 2017
Árið 2017 kveðjum við með litlum söknuði en reynsluna tökum við sannarlega með okkur. Maður varð áþreifanlega var við að það er ekkert sjálfgefið í þessum heimi.
Verkefnið sem Biggi fékk í nóvember 2016 hefur fylgt okkur allt árið 2017. Geislameðferð lauk í janúar, meinið var skorið burt í 4 april og tók aðgerðin sex tíma. Biggi fékk tímabundinn stóma í kjölfarið til að fría skurðsvæðið og leyfa því að gróa í friði.
hressingarganga á Landsspítalanum.
9 maí tók við viðbótar lyfjameðferð sem lauk 24 oktober.
Nú fjórða desember fór Biggi aftur undir hnífinn og var stómanu sökkt.
Desember
mánuð hefur hann notað til að jafna sig.
Nú krossum við fingur og tökum 2018 fagnandi. Við viljum þakka öllum
þeim sem veitt hafa okkur stuðning með einum eða öðrum hætti í veikindunum, það
hjálpaði okkur mikið að finna fyrir allri þessari velvild á erfiðum tímum.
Misheppnaður flutningur Bigga frá LSH til SAK eftir aðgerðina í april vakti athygli er Hafþór gat ekki orða bundist og skrifaði um flutninginn á FB. Rúllaði það af stað bolta sem endaði á forsíðu vefmiðlanna og í fréttatíma RUV. Þetta var alvarlegt klúður sem hefði getað farið illa. Þetta sýndi okkur svart á hvítu hversu "sprungið" heilbrigðiskerfið er því það vantar ekki góðan vilja og dugnað hjá starfsfólki Landsspítalans.
mynd tekin á leið í aðgerð fjórða april.
En þegar upp er staðið erum við afar þakklát fyrir okkar hæfileikaríku lækna. Að öðrum ólöstuðum má þar nefna skurðlæknirinn Jórunni Atladóttir, krabbmeinslæknirinn Hlyn Grímson er starfa á LSH. Guðjón Kristjánsson meltingafæralæknir, Haraldur Hauksson og starfsfólk SAK fá þakklætiskveðjur.
En nú stykklum
við á stóru yfir helstu viðburði Litla-Garðsfjölskyldunnar árið 2017
Þrátt fyrir veikindaár hafa hjólin snúist,
þótt þau hafi kannski ekki náð fullum snúning.
Magnús Ingi
Másson var hjá okkur fram í maí við
tamningar og önnur tilfallandi störf. Hafði
hann tvær stúlkur sér til aðstoðar framan að vetri.
Sauðburður gekk með ágætum sama má um segja um
heyskap. Það voru mikil og góð hey enda frábært spretta í sumar.
4 júní var hátíðardagur en þá fermdist Sindri Snær (örverpið okkar) í Grundarkirkju.
Þökkum við öllum þeim sem glöddust með okkur á þessum fallega sumardegi.
Mikið var riðið
út, en yfir sumarmánuðina voru hér tvær stúlkur, þær Lena og Tara. Sindri Snær var
einnig á fullu í tamningum og öðru
tilfallandi.
Í septembermánuði
varð ráðist í hringvallagerð með góðra vina hjálp. 250 m hringur með skeiðbraut
var hent upp á engum tíma, en yfirlag og fínvinna verður unninn á næsta ári.
Takk þið öll sem gerðuð þetta að veruleika.
Sýninga og
keppnishald lá niðri þetta árið að öðru leyti en því að Biggi skellti sér með
Sigurdís frá Árgerði á íþróttamót Hrings síðla sumars og sigraði þar 100 m og
150 m skeið. Má þvi segja að keppnisárið hafi bæði byrjað og endað vel.
Sigurdís frá Árgerði.
Átta folöld fæddust okkur í ár, sex hestfolöld og tvær hryssur. Er það annað árið í röð sem hestfolöld eru í miklum meiri hluta.
Þetta fallega hestfolald fæddist í sumar og er undan Gangster frá Árgerði og Melodíu frá Árgerði. Hlaut hann nafnið Viktor frá Litla-Garði
Lítið var um ferðalög í ár fyrir utan reglulegar suðurferðir. Við gáfum okkur þó tíma til að skreppa með fjölskyldunni í útilegu í Ásbyrgi, fórum í veiðiferðir og fl.
Í Ásbyrgi
Nanna og Viktoría sælar með hvor aðra.
Sindri og Viktoría að veiða.
Eitthvað þótti sumum ekki gáfulegur skóbúnaðurinn hjá frúnni, en eins og hún hefur alltaf sagt, þá er bókstaflega hægt að gera allt á klossum.
Einnig létum við verða af því að
upplifa Fiskidaginn mikla og hina stórkostlegu fiskidagstónleika.
Þvílík hátíð.
Gangster og
Eldborg hafa verið hjá Hinna Braga og Huldu á Árbakka allt árið. Gangster kom
fram á úrtökumóti Spretts í sinni fyrstu fimmgangskeppni. Í forkeppni hlaut
hann 7,23 og í úrslitum 7,43 og hlaut annað sætið í geysisterkri keppni. Takk
Hinni og Hulda!
Hinni og Gangster í sveiflu.
Í ár vorum við með þrjár ferðir fyrir ferðamenn, eina í april og tvær í sept/okt. Það var virkilega gaman og stefnum við í að fjölga ferðum árið 2018. Við erum í góðu samstarfi við vini okkar í Austurríki þau Michi og Höska Aðalsteins. Þetta er ágætis aukabúgrein með hrossunum og styrkir tengslanetið. H
Höski og Biggi fram á afrétt með einn hópinn.
Í byrjun desember
fjölgaði heldur betur í Djúpadal er Hafþór Magni og Heiður Gefn fluttu með
börnin sín Viktoríu Röfn og Magna Rafn í
Árgerði. Eru nú komir tveir Magnar í
Árgerði sem er vel við hæfi. Sá gamli hefði nú verið ánægður með það :)
Mynd Daníel Starrason. Brúðkaup Hafþórs og Heiðar 2016
Dísa unir sér vel og kann vel við fjölgunina á heimilinu.
Nanna Lind býr á Akureyri og er í Hákólanum. Henni dugar ekki ein háskólagráða, heldur stefnir hún á að útskrifast með tvær í viðskiptafræði og lögreglufræði. Það er því nóg að gera hjá henni þessa dagana.
Nanna Lind í góðum gír.
Sindri Snær æfir fótboltann af kappi.
Hann æfir með KA á Akureyri og er í þriðja flokk.
Herdís hefur nært
sálina reglulega með Hymnodiu söng. Kórinn er skapandi og skemmtilegur og fer gjarnan ótroðnar slóðir þó að
sjálfsögðu takist hann einnig á við hefðbundinn verkefni.
Saumaklúbburinn
ákvað að bregða sér af bæ í mars og skellti sér á Wintney Houston show í Hörpunni og hafði mikið gaman að.
22 desember var hálfrar aldar afmæli hjá Bigga og bárust honum þessi flottu málverk.
Dísa, Hafþór, Heiður og börn, Nanna og Sindri færðu honum þessa glæsimynd af Gangster eftir Helmu Art.
Þessa æðislegu kolamynd af Mirru frá Litla-Garði færðu síðan Bogga, Ásdís og fjölskylda
honum.
Kæru lesendur!
Gleðilegt nýtt ár með kærri þökk fyrir það gamla. Með ósk um góða heilsu og
gæfu á komandi ári.
Bestu kveðjur
Litla-Garðsfjölskyldan
15.10.2017 21:51
Túristahópar og réttir.
13.10.2017 20:10
Hringvallagerð.
06.09.2017 23:05
kominn til starfa á ný!
01.04.2017 20:39
Ung Gangsters afkvæmi veturinn 2017
04.03.2017 11:53
Smá fréttaskot úr dalnum djúpa.
Þó að sum verkefnin séu óvenjuleg um þessar mundir eru önnur sem vera ber. Tamningarstöðin er á fullum snúning og erum við með þrjá vaska tamningamenn að störfum. Ásamt Bigga stýrir Magnús Ingi skútunni með glæsibrag.
Carlien og Kerstin eru hjálparkokkarnir sem er ekki lítils virði.
30 hestar eru á húsi og er það í bland við okkar ræktun sem og annarra.
Ég (Herdís) er búin að sitja fyrir knöpum á reiðtúrum með
myndavélina að vopni.
Ætla ég að sýna ykkur hvað varð á vegi mínum.
01.01.2017 15:50
Annáll 2016
Sælir kæru lesendur.
Um leið og við kveðjum árið 2016 viljum við þakka fyrir viðskiptin og samfylgdina á liðnu ári.
Þegar við lítum til baka eru blendnar tilfinningar sem láta á sér kræla. Árið bauð upp á væna blöndu af mikilli vinnu og verkefnum sem fóru ekki öll eins og maður vonaðist til. En það var samt svo miklu meira jákvætt en neikvætt.
Síðast liðinn vetur gekk sinn vanagang, við vorum með tvö atriði í sýningunni Fákar og fjör, Það voru systurnar Mirra og Eldborg sem dönsuðu um höllina.
Eldborg frá Litla-Garði knapi Stefán Birgir og Mirra frá Litla-Garði knapi Ásdís Helga
Síðan vorum við með ræktunarsýningu sem bar nafnið í minningu Magna í Árgerði. Það var okkur hjartfólgið að fá að heiðra minningu Magna með þessum hætti. Þökkum við Hestamannafélaginu Létti kærlega fyrir það.
f.v. Dalía Sif og Ásdís Helga, Ópera og Guðmundur, Mirra og Gústaf Ásgeir, Eldborg og Stefán Birgir.
Gangster fer vel af stað sem kynbótahestur og bætti við sig tveimur fjögurra vetra fyrstu verðlauna afkvæmum þetta árið. Það eru Aðall frá Steinnesi sem hlaut 8,07 í a.e. og Vaka frá Árgerði sem hlaut í a.e. 8,11.
Vaka tekin til kostanna á kynbótasýningu á Hólum í vor. 8,5 fyrir skeið.
Landsmótið á Hólum fór vel fram og fóru þeir feðgar Biggi og Sindri galvaskir með sín hross þangað. Biggi fór með Gangster í A flokkinn og fór vel af stað, en hann hlaut í forkeppni 8,75. Vorum við að vonum spennt fyrir milliriðlinum, enda hesturinn gríðarsterkur á öllum gangtegunudum og gefur þeim bestu ekkert eftir. En fljótt skipast veður í lofti, Gangster var of seinn niður í skeiðinu og komst þess vegna ekki í úrslit.
Biggi og Gangster en þeir fóru í 8,90 í A flokk í vor og sigruðu gæðinga og úrtökukeppni Léttis.
Eldborg frá Litla-Garði fór á LM og var þar á meðal úrvalshrossa í "fegurð í reið" en það voru hross sem höfðu fengið 9.5 eða 10 í einkunn fyrir fegurð í reið.
Eldborg í sveiflu.
Mirra gekk ekki heil til skóar og náði ekki tilsettum árangri áí kynbótabrautinni í vor. Hún hefur nú verið meðhöndluð við því meini og er orðin heil á ný.
Mirra snemma árs 2016.
Sindri Snær kom heldur betur á óvart á sínu fyrsta Landsmóti á Tóni sínum og skelltu þeir félagar sér beint í milliriðil og þaðan upp í B úrslit og höfnuðu þar í sjötta sæti, glæsilegt hjá þeim.
Sindri og Tónn úrslit LM
Tíu folöld fæddust á árinu, og var skiptinginn heldur ójöfn í ár eða átta hestar og tvær hryssur, stefnir því í metárgang í stóðhestum á bænum.
Eftir Landsmót Hestamanna var heyjað á methraða, heyjin mikil og góð.
Rúsínan í pylsuendanum og einn fallegasti viðburður ársíns var síðan þegar Hafþór sonur okkar og Heiður kona hans gengu í það heilaga í Grundarkirkju í sumar. Brúðkaupsveislan var haldin í reiðskemmunni hér í Litla-Garði og öllu tjaldað til, það var málað, smíðað, saumað, þrifið og undirbúið þar til umhverfið varð törfum líkast.
Á annað hundrað manns komu og glöddust með ungu brúðhjónunum og börnunum þeirra tveimur. Hjónakornin eru búsett á Álftanesi, Hafþór er kjötstjóri í Nóatúni Austurveri og Heiður er í námi í tölvunnarfræði.
Í haust fengum við góða gesti frá Austurríki og Þýskalandi með okkur í hrossasmölunina. Dvöldu þeir hjá okkur frá fimmtudegi til sunnudags ásamt vini okkar Höskuldi Aðalssteins. Er þetta orðið að árlegum viðburði og er þegar farið að panta mikið fyrir komandi ár.
Frumtamingar hafa verið á fullu og eru öll þriggja vetra tryppin orðin vel reiðfær og mörg álitleg hestefnin þar á ferð.
Dísa í Árgerði hefur það gott heima í Árgerði, er nokkuð frísk og fylgist vel með öllum sínum.
Nanna Lind er á öðru ári í viðskiptafræði í HA. Hún er allaf jafn kröftug og æfir crossfit á fullu þess á milli. Hún býr á Akureyri með kærasta sínum Darra Rafn sem er í námi í tölvunnarfræði.
Sindri Snær er komin í áttunda bekk og stendur sig vel í náminu, helsta áhugamálið er fótboltinn, en hann æfir með KA á Akureyri þrisvar í viku.
Fjölskyldan skellti sér til Kanarí á haustmánuðum í smá sumarfrí og naut sín vel í sólinni.
Nú í nóvember fékk Biggi nýtt og krefjandi verkefni að fást við er hann greindist með ristilkrabbamein. Var það að vonum áfall eins og slík tíðindi eru alltaf.
Góðu fréttirnar eru samt þær að æxlið er staðbundið og læknanlegt og er hann langt komin með geislameðferð á Landsspítalanum.
Við höfum verið heppinn varðandi starfsfólk, höfum haft gott lið með okkur þetta árið og nú þegar veikindin báru að garði, vorum við svo lánsöm að fá hann Magnús Inga Másson (eigandi Farsæls frá Litla-Garði) til að stýra öllu hér heima. Hann er öllum hnútum kunnugur hér í Litla-Garði þar sem hann hefur starfað hjá okkur áður. Magnús hefur til liðs með sér tvær tamningarkonur. Er þetta okkur afar mikils virði.
Magnús Ingi og gæðingurinn Farsæll frá Litla-Garði
Það skiptir nefnilega miklu máli að hjólin snúist áfram þótt Biggi sé að sinna öðru verkefni. Núna eru um 20 hross á húsi, og verða umtalsverð skipti nú um áramót. Eru þeir sem hafa hug á að koma hrossum sínum í tamningu beðnir að hafa samband við Bigga í s. 896-1249. Hann fjarstýrir dæminu meðan hann er sunnan heiða, en er væntanlegur heim um miðjan janúar.
Við höfum fundið fyrir dásamlegri samheldni og stuðningi hjá fjölskyldu, vinum og kunningjum og erum sannarlega þakklát fyrir það. Biggi er bjartsýnn og hress og þegar farin að leggja á með félugum sínum fyrir sunnan.
Kæru lesendur. Megi 2017 verða ykkur frábært ár! Takk fyrir allt á árinu og munum að þakka fyrir tímann. Hvað sem hann býður okkur upp á. Hann kemur nefnilega ekki aftur.
Bestu kveðjur frá öllum í Litla-Garði