18.04.2012 10:56

Fákar og Fjör

Stórsýningin Fákar og Fjör fór fram síðustu helgi á Akureyri. Við komum þar fram með nokkur hross í hinum ýmsu atriðum og höfðum gaman af. Margmenni var að horfa á og var sýningin fjölbreytt og skemmtileg, það litla sem við náðum að horfa á :)

Það sem fram kom frá okkur:



Biggi og Evelyn frá Litla-Garði í klárhryssuatriði



Ásdís og Perla frá Syðra-Brekkukoti líka í klárhryssuatriði



Biggi og Gletting frá Árgerði í alhliðahryssuatriði



Biggi og Blakkur frá Árgerði voru í skeiðsýningu



Biggi sýndi Hvin frá Litla-Garði í alhliða gæðingum



Ásdís var svo knapi fyrir Ytri-Bægisá á hestinum Mekki




Ásdís sýndi Kiljan frá Árgerði í stóðhestaatriði í fyrsta comebackinu hans frá meiðslafríinu og gekk .það glimrandi, frábær gæðingur



Síðast en ekki síst var Gangsterinn í stóðhestaatriði og heillaði hann áhorfendur að vanda.

10.04.2012 22:08

Og sumarið nálgast ..

Þá styttist í sumardaginn fyrsta, þó svo vetur konungur minni rækilega á sig núna :)

Við tókum myndir af stórefnilegri Gígjarsdóttur frá Höskuldsstöðum um daginn. Hún er undan hinni stórdæmdu Kolfreyju frá Höskuldsstöðum og heitir Birta frá Höskuldsstöðum:









Hún er aðeins á fjórða vetur og sýnir mikla takta. Verður spennandi að sjá hvernig hún þróast áfram. Hún er komin í smá pásu núna en það vantar aðeins upp á styrk til að klára dæmið í vor.

En Stórsýningin Fákar og Fjör er komandi helgi og verðum við þar með nokkur hross :)

Meira um það næst...

26.03.2012 21:11

Og fjörið heldur áfram..



Jæja Tristan er sigurvegari vikunnar

Hann sigraði skeiðkeppnina í lokakvöldi KEA mótaraðarinnar á tímanum 5.28 :) Blakkur frá Árgerði varð fjðrði 5.33 þannig að þeir stóðu sig vel þar.



Gangster frá Árgerði er allur að detta í gírinn. Við erum nú með sex stíur á leigu á Melgerðismelum og þar er riðið út með, aðstaðan, umhverfið og undirlagið er bara einstakt og þá sérstaklega fyrir mikið hágeng hross. Svo er umhverfið og bakgrunnurinn öðruvísi og skemmtilegur til myndatöku og hægt er að stilla upp nánast hvaða aðstæðum sem er sem hentar hverju og einu hrossi.



En það er um 40 hross á járnum hjá okkur núna, Hulda Lilý er búin með frumtamningarverkefnið í verknáminu og stóðst það. Hún notaði systurnar Glymru og Gloppu í prófið sem og Viðju.
Okkur láðist að hafa myndavélina með í prófinu en læt hér fylgja mynd af Huldu á Prýði frá Hæli sem er klárhryssa á sjötta vetur í eigu Magnúsar í Steinnesi. Hún er undan Krumma frá Blesastöðum.



Tekin á hringvellinum á Melgerðismelum

Var fyrir löngu búin að lofa að sýna ykkur myndir af framkvæmdunum austan við hlöðuna þar sem plan var sett til að hafa hringgerðið á, bæði til að vinna inn í sem og utan á því. Frábært að hafa svoleiðis til þess að vinna með hrossin.


Hér er Ásdís að vinna með Hrönn frá Árgerði í hringgerðinu.

Læt að lokum fylgja með mynd af Emilíönu frá Litla-Garði sem er síðasta afkvæmi Elvu frá Árgerði og undan Glym frá Árgerði. Hún er virkilega efnileg klárhryssa sem stefnt er með í dóm í vor.




10.03.2012 10:27

Og áfram heldur fjörið

Jæja, þá er marsmánuður kominn vel af stað og má segja að það styttist í sumarið þó svo að verðrið sé heldur vetrarlegt ennþá, og erum við satt best að segja komin með upp í kok af roki.

En mótahaldið er á fullu þessa dagana og þarf maður eiginlega að vinsa úr þau mót sem maður telur sig eiga erindi á, þetta er fullmikið ef elta öll mót sem eru í boði :)

En síðast var tölt í KEA-mótaröðinni en hingað til höfum við látið farið heldur lítið fyrir okkur í þeirri mótaröð, en töltið gekk aðeins betur. Ásdís og Biggi tóku þátt með sitthvora hryssuna, Ásdís með Hrymsdótturina Evelyn frá Litla-Garði sem var að taka þátt í sínu fyrsta töltmóti og Biggi með Tristansdótturina Glettingu frá Árgerði. Ásdís og Evelyn fóru beint í A-úrslit í 4.sæti með einkunnina 6.33 og Biggi var í 8-9 sæti inni í B-úrslit með einkunnina 6.23. Biggi reið sig upp í 6.sæti í úrslitunum með 6.33 en Ásdís hélt sínu sæti í A-úrslitunum með 6.67.


En mál nr.1 2 OG 3 !!!

Herdís okkar er að klára sitt söngnám með risa útskriftar/lokaprófs tónleikum í dag kl.13.30 í Laugaborg Eyjafjarðarsveit. Er þetta nokkurra ára nám að baki og verður þetta stór stund í dag.

Vonumst til að sjá sem flesta þar :)


04.03.2012 21:00

Kominn mars ...

Við fórum á Svínavatn síðastliðna helgi og var mótið frábært. Veðrið var geggjað, frostmark og logn og ísinn var frábær. Við fórum með fimm hross, Hvin, Tristan og Kiljan í A-flokk og Evelyn og Gangster í B-flokk




Gangster stóð sig vel, hlaut 8.44 í forkeppni og endaði svo níundi í úrslitinum.




Evelyn var að þreyta frumraun sína á ís og fannst þetta soldið skrítið. En hlaut 8.36 í forkeppninni á hálfum hraða á yfirferðinni :)




Kiljan er allur að komast í gang en hefur nú verið í þjálfun í 2 mánuði eftir árs meiðsla frí. Hlaut 8,32 og var rétt utan við úrslitin.


Hvinur var ekki alveg á því að skeiða á ísnum þannig að við hlutum aðeins 8.07 í einkunn




Tristan stóð sig best af okkar hrossum, var efstur inn í úrslit í A-flokki með 8.50 í einkunn og endaði svo þriðji á eftir Blæ frá Miðsitju og Seið frá Flugumýri eftir að skeiðið tókst ekki alveg sem skyldi. Glæsilegt engu síður :) þriðja sætið annað árið í röð !

Fleiri myndir má sjá HÉR



26.02.2012 11:24

Jarlinn

Jæja þá erum við loksins búin að dusta rykið aðeins af myndavélinni :)

Þá er hægt að setja inn skemmtilegar fréttir á ný ... Ekkert gaman af fréttum með engum nýjum myndum .. Ekki satt ? ;)
Fyrstur á dagskrá var Jarl frá Árgerði, stóðhestur á fimmta sem lofar góðu. Hann er annað afkvæmi hinnar frábæru Snældu frá Árgerði, Orra og Blikudóttur og faðirinn er Tígull frá Gýgjarhóli.


Jarlinn er stórmyndarlegur foli


Heilmikill töltari





Stefnt er að sjálfsögðu með Jarl í kynbótadóm í vor.

17.02.2012 21:57

Vetrarharka ..

Þá er febrúar hálfnaður og hafa veðurguðirinir alveg leyft okkur að vita af veðrinu síðustu vikur, það er búið að vera vindur nánast stanslaust frá áramótum .. Hitastigið rokkar með þannig að það skiptist á að vera snjóbylur með vindinum eða rigning .. Dásamlegt alveg hreint !

En nóg komið af væli, tamningarnar ganga stórvel og látum við ekki veðrið hafa mikið áhrif á það starf, hesthúsið smekkfullt og verulega skemmtilegur hópur nú í flestalla staði :)
Eins eru vetrarmótin eitthvað byrjuð og verða verulega þétt langt fram á vorið í gangi.

Eins er vetrurinn oft tími lærdóms og von um framfarir í reiðmennsku og þjálfun hjá fólki og eru því námkeið af ýmsum toga í boði, hestamannafélagið Funi býður upp á námskeið með reiðkennararnum Agli Þórarinssyni.. Mjög skemmtilegt tækifæri á að auka við þekkingu sína og færni:

eiðnámskeið - Egill Þórarinsson

Helgina 25 - 26 febrúar verður reiðnámskeið með Agli Þórarinssyni að Melaskjóli. Námskeiðið verður á formi einkakennslu og verður kennt 2 x 40 min. bæði á laugardeginum og sunnudeginum. Egill hefur áratugareynslu af reiðkennslu bæði hér heima og erlendis ásamt því að vera margreyndur keppnis- og sýningarknapi. Aðeins 10 - 12 manns komast á námskeiðið.

Mynd er fengin af facebooksíðu Egils

  • Skráningarfrestur er miðvikudagurinn 22. febrúar til kl. 18:00
  • Skráning er á netfangið [email protected]
  • Verð 10.000 kr. á mannin
  • Nægt pláss í hesthúsinu
Fyrstur kemur fyrstur fær !! :)

Keppnirnar hlaðast inn næstu vikur eins og áður sagði og verða því fréttirnar fleiri og vonandi nýjar flottar myndir með.

30.01.2012 21:41

Glæsiunghryssur

Jæja góða kvöldið

Það var tekið þátt í folaldasýningu nú um helgina en það þykir fréttnæmt hér á þessum bænum en það er yfirleitt ekki haft fyrir því að taka þátt í þeim hingað til en þetta árið var ákveðið að mæta með tvær hryssur sem okkur þykir flottar. Það voru þær:

Sprengja frá Árgerði undan Kiljan frá Árgerði og Svölu frá Árgerði


Fjöður frá Litla-Garði undan Gígjari frá Auðsholtshjáleigu og Væntingu frá Ási


Þær gerðu sér lítð fyrir þessar og urðu efstar. Sprengja nr. 1 og Fjöður nr. 2

Einnig átti Tristan frá Árgerði hryssur sem endaði í 4.sæti í hryssuflokki og Jarl frá Árgerði átti fola sem endaði í 4.sæti í hestaflokki.

Gaman af þessu :)

21.01.2012 11:16

Snældu-Blesi frá Árgerði

Skemmtileg upprifjun á fallegri sögu er nú á forsíðu eidfaxi.is ...

Sagan er af Snældu-Blesa frá Árgerði, hann var fyrsta afkvæmi heiðursverðlaunahryssunnar og augasteins Magna, Snældu frá Árgerði og svo undan Hrafni frá Holtsmúla.


Þessi mynd er mjög lýsandi fyrir þennan atburð sem gerðist 1984 en Magni með hjálp góðra manna hjúkraði Snældu-Blesa til "heilsu" eftir slæmt fótbrot og náði hann að sinna skyldum sínum sem stóðhestur og lifa góðu lífi í dekri í rúmlega 15 ár eftir slysið þrátt fyrir staurfót.

Sagan er sögð á síðu eiðfaxa en planið er að setjast niður með Magna og rína í bækur sem hafa verið birtar um þennan atburð og setja þessa lífsreynslu hans hingað á síðuna með myndum úr einkasafni.

Hér má sjá þessa frétt:
http://eidfaxi.is/frettir/2012/01/af-snaeldu-blesa

17.01.2012 19:34

Hver veldur sem á heldur ...

Jæja gott og blessað kvöldið kæru lesendur.

Allt er komið á fullt hjá okkur og eru um 40 hross á járnum hjá okkur. Þau eru á öllum aldri og á öllum tamningarstigum einnig. Við erum með mjög skemmtilega fjölbreyttan hóp á húsi undan alls konar stóðhestum nú í janúar, T.d

Orri frá Þúfu - 2, Nagli frá Þúfu, Hágangur frá Narfastöðum - 3, Tígull frá Gýgjarhóli - 2, Smári frá Skagaströnd - 2, Kjarni frá Árgerði - 3, Andvari frá Ey, Goði frá Þóroddsstöðum - 2, Tristan frá Árgerði - 5, Gammur frá Steinnesi, Kormákur frá Flugumýri, Þristur frá Feti, Döggvi frá Ytri-Bægisá - 2, Kostur frá Skagaströnd, Glymur frá Árgerði - 5, Glettingur frá Steinnesi, Keilir frá Miðsitju, Gígjar frá Auðsholtshjáleigu - 2, Svipur frá Uppsölum, Blær frá Torfunesi

Hulda Lilý er með skemmtileg tryppi í verknáminu undan m.a Tristan, Glym og Kjarna frá Árgerði og Blæ frá Torfunesi, fjórar hryssur og einn gelding.

Vonandi fer nú myndavélin á loft fljótlega og við sýnum eitthvað af þessum gripum hér :)

Hér er ein gömul allavega:


Rekstarmynd frá því í fyrravetur en við rekum hrossum c.a einu sinni í viku.

09.01.2012 23:58

Snarvitlaust veður !


Glymra frá Litla-Garði veturgömul sumarið 2009

Nú geysar stórhríð hérna í Eyjafirðinum og reyndar um allt land. Ekki hundi, manni né hrossi út sigandi, og reyndar ófært út í gerðin meira segja. Þau fá því að skreppa inn í hlöðu og teygja aðeins úr sér. Ísland minnir alltaf á sig og er þetta svo að segja fyrsta skotið þennan veturinn. Þá er gott að hugsa til hlýrri daga og sú sem opnar fyrir okkur fréttina en yndið litla Glymra frá Litla-Garði en hún er nú á fjórða vetur og verður í frumtamningarnáminu hjá Huldu Lilý. Hún virkar mjög spennandi á okkur það litla sem hefur verið átt við hana. Hún er undan Glym frá Árgerði og Sónötu frá Litla-Hóli.

Úti sést ekki nema nokkra metra út fyrir og virðist veðrið alltaf gefa meira í þannig að best er að grafa upp aðeins fleiri hlýlegar og grænar myndir :)


Myrra frá Litla-Garði veturgömul.

Þetta er svo önnur undan Glym frá Árgerði og heitir hún Myrra frá Árgerði. Þessi er líka að fara á fjórða og er önnur þeirra sem áttu slysafang síðastliðið vor. Þessi er verulega spennandi, stór og háfætt og virkilega framfalleg. Einnig eru hreyfingarnar ekkert til að kvarta yfir, stórstígt og flott brokk og með smá ábendingu "sest hún á rassgatið" og fléttar sig upp í tölt. Varla hægt að biðja um meira, hún hefur reyndar verið smá óhappapési þessi og krossleggjum við fingur um að hægt sé að halda áfram með hana í vetur.


Þessi er reyndar ekki hlýleg en lofa að þetta verður eina vetrarmyndin ;)
Þetta er hún Litla-Jörp frá Árgerði 4.vetra á þessari mynd

Hún Litla-Jörp er fyrsta afkvæmi hinnar frábæru Snældu frá Árgerði yngri og Goða frá Þóroddsstöðum. Þessi hryssa var tamin á fjórða vetur og gekk það glimrandi vel framan af vetri. En í mars eða svo fór hún að heltast og fékk pásu en lagaðist þó ekkert og í ljós kom kvíslbandsbólga. Fyrirskipað var a.m.k ársfrí og var henni haldið þá um sumarið en aðeins um 50% líkur var okkur gefnar á að henni yrði riðið aftur. Nú síðastliðið sumar fæddist svo brún hryssa, Náttrún frá Árgerði. Svo er Litla-Jörp komin á hús aftur í tilraun 2, óhölt enn sem komið er og krossleggjum við aftur fingurna.


Ahh, vorleikur ... Soon, soon my friends!


Þessi er tekin á FM á Melgerðismelum Nítjánhundruðáttatíu og eitthvað :) Ræktunarbússýning frá Árgerði.


Biggi ungur og spengilegur


Og Herdís, ung og ennþá spengilegri en Biggi ;) allavega með sigurbikar !! Situr hér gæðinginn Kolbein frá Árgerði.

08.01.2012 17:54

A whole new year

Gleðilegt árið og kærar þakkir fyrir allt liðið kæru lesendur :)

Hátíðirnar voru yndislegar eins og venjulega og allt of mikið étið. En nú tekur alvaran við og er allt orðið smekkfullt af hrossum hér í Litla-Garði. Hulda Lilý Sigurðardóttir verður hjá okkur í verknámi frá Hólum í vetur


Hulda Lilý á Slæðu sinni (mynd fengið að láni á fb síðu Huldu)

Úttektin hjá Huldu er á morgun, mánudag og fær hún skemmtileg tryppi í verkefnið.
Myndavélin verður á lofti og verður tryppunum gerð skil fljótlega hér :)

Með kveðju úr sveitinni

18.12.2011 11:23

Og jólasveinarnir tínast hver af öðrum til byggða

Þá er innan við viku til jóla. Veðurguðirnir hafa verið okkur hliðhollir upp á síðkastið og er þetta líka dásamlega jólaveður búið að vera nánast allan desember. Fullkalt reyndar á tímabili en búið að vera passlegt upp á síðkastið. Færið náttúrulega dásamlegt !!



Yngsti meðlimur hússins vaknar bísperrtur og spenntur nú á hverjum morgni og hleypur út í glugga. Var meira segja svo forsjáll að fara út og athuga með fótsporaslóð í snjónum að glugganum til að vera viss um að allt sé eðlilegt, en allt er á sínum stað og sá stutti mjög sáttur við jólasveinana vini sína þessa dagana :)

En allt er að verða klárt hjá okkur fyrir jólin og verða þau sérstaklega gleðileg þetta árið því stórfjölskyldan kemur saman flest í Eyjafjörðinn og höfum við örugglega aldrei verið jafnmörg saman á sama stað á jólahátíðinni áður :)

En allt gengur sinn vanagang í hesthúsinu, drottningarnar ekki fyrr komnar inn fyrr en þær byrja að meiða sig en svoleiðis gengur þetta víst bara. Ekki komið skráma á eitt einasta hross í allt haust og um leið og sparihrossin koma inn og tilhlökkunin í hámarki að byrja að trimma þá byrja skrámurnar.

En Magni er með hólf á leigu í Melgerði sem er við hliðina á Melgerðismelum (eins og nafnið gefur til kynna) og þar eru folaldshryssurnar.


Nös frá Árgerði á 21. aldursvetri


Og alsystir Nasar, Svala frá Árgerði


Og þær verða nú að hafa salt :)


Og steinefnin líka ...




Sprengjan flotta :)




15.12.2011 01:35

Rómur frá Litla-Garði

Loksin voru teknar myndir af fallega Rómi í dag. Hefur óskiljanlega dregist fram að þessu.
Rómur er graðfoli á þriðja vetur undan Melodíu frá Árgerði og Eldjárn frá Tjaldhólum. hann er mjög stór, framfallegur og léttbyggður og ekki skemmir að hann er fífilbleikur.



Endilega kíkið inn á síðuna hans Róms :)

08.12.2011 22:37

Tvær unghryssur til sölu

Nú styttist í jólin og sparigullin farin að týnast á hús. Það er nú alltaf skemmtilegt, þegar uppáhöldin koma inn eins og bangsar, friður og ró yfir þeim eftir haustfríið. Tala svo ekki um skeifnasprettinn sem er alltaf æðislegur.

Eins erum við alltaf að uppfæra sölusíðuna og höfum nú bætt við tveimur unghryssum fæddum 2008 og 2007 undan 1.verðlauna foreldrum til sölu.


Hófí frá Litla-Garði f. 2008



Viðja frá Litla-Garði


Endilega kíkið á þessar fallegu og stórefnilegu hryssur sem nú bjóðast til kaups.

Flettingar í dag: 1900
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 570
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 1227886
Samtals gestir: 79425
Tölur uppfærðar: 30.10.2024 03:46:49