10.05.2014 14:51

Vorboðar í kuldatíð.

Sælir kæru lesendur.
 Þrátt fyrir kuldatíð heldur vorið áfram að birtast okkur í ótal myndum :)
 Fyrstu hryssurnar eru komnar til Gangsters og er karlinn heldur glaður að fá til sín dömur. 
Er hann þegar búin að sinna fyrstu hryssunni sem kom hér í gær frá Bjarna Pál á Húsavík. 

Hann er sem sagt byrjaður að sinna hryssum á húsmáli og viljum við biðja þá sem hafa hug á, og eins þá sem voru búnir að panta að hafa samband og staðfesta fyrri pantanir hjá Bigga í síma 896-1249  eða [email protected]

Set hér með frekari notkunarupplýsingar!

Gangster verður á húsnotkun hér í Litla-Garði fram að landsmóti.
Verð á húsnotkun: Sama verð og í fyrra 100,000 + vsk Eftir Landsmót í Sandhólaferju Hellu. 
100,000 + vsk + 25,000 girðingagjald


Annar vorðboði birtist hér í morgun og er það  myndarlegur jarpur hestur sem hefur litið dagsins ljós. Hann er undan Gangster frá Árgerði og fyrstu verðlauna hryssunni Snældu frá Árgerði.  



.


Sauðburður hefur gengið vel fyrir sig og ekki minnkaði gleðin hjá unga bóndanum Sindra Snæ þegar við bættust tvær svartar gimbrar í hópinn, en það hefur aldrei skéð hjá okkur fyrr. 
 Læt þetta duga í bili :)


03.05.2014 22:06

Sindri Snær á flugi.

Ungir knapar á Norðurlandi sýndu listir sínar á hestum í dag á stórsýningunni Æskan og hesturinn í Léttirshöllinni Akureyri. 
Að sjálfsögðu tók Sindri Snær þátt ásamt góðum hóp af Trec krökkum. Hestamannafélagið Funi hefur boðið upp á námskeið í þessari nýju grein, sem nýtur mikilla vinsælda. Þjálfari krakkana er Anna Sonja Ágústdóttir. Ásdís Helga Sigursteinsdóttir þjálfar þá fullorðnu :)

 Sindri Snær og Bára í svaka stökki.





Sindri er mikill áhugamaður um sauðfjárrækt og vill hann þá einna helst hafa kindurnar í öllum öðrum litum en hvítum, en eitthvað hefur það gengið misvel, til að mynda voru öll lömbin hvít í fyrra. Sindri samdi því við nágranna okkar Ævar í Miklagarði og fékk hjá honum flekkóttan hrút og var heldur betur ánægður þegar hann mætti í húsin fyrir skemmstu og við blasti þessi sjón.




21.04.2014 20:49

Trompið Mirra frá Litla-Garði

Okkur langar að kynna til leiks tilvonandi tromp og uppáhald húsbóndans Mirru frá Litla-Garði.

Mirra er undan gæðingnum Glym frá Árgerði og 1 verðlauna hryssunni Væntingu frá Ási 1.

Ýmislegt hefur gengið á hjá þessari ungu og efnilegu hryssu en hún eignaðist  slysafang aðeins 3 vetra gömul á köldum degi í april. Nokkrum dögum eftir köstun losnar hún í hnéskélinni (sem lýsir sér þannig að hún fær staurfót á hægri afturfót) og fengum við Gest dýralæknir  vin okkar í hana og hann var fljótur að koma henni í liðinn.

 Bar á þessu af og til á 4ða og 5ta vetri sem olli því að hægt gekk að temja hana á annan veg en að teyma hana á hesti og ná upp styrk í liðinn . Sagði Gestur okkur það að þetta myndi eldast af henni með meiri styrk og er það raunin, Mirra er að springa út og vonir Bigga að rætast en hann hefur talað um hana Mirru sína frá því að hún var folald að þarna væri einstakt efni á ferð og var fjölskyldan og allt tamningarfólk á þessum tíma búið að fá sig fullsatt af þessu tauti í kalli. 

Langar mig þess vegna að kynna hana hér fyrir ykkur lesendur góðir og deila með ykkur frumsýningunni hennar á Fákar og Fjör 2014. 

Mirra hefur mikið skref og fótalyftu á öllum gangi.


Hún er einstaklega næm og gleymir engu sem að henni er kennt, Þannig að það er betra fyrir húsbóndann að vanda sig :)







Fjörviljug, mikið fas, mikill fótaburður og svif :)

19.04.2014 20:52

Fákar og fjör

Sæl aftur.

Fleiri hross voru sýnd á Fákar og fjör frá okkur og ætlum við að skella hér inn nokkrum myndum til gamans.

Fyrsta er að telja Aldísi frá Krossum eða Hvítu Blesu en það er hún oftast kölluð á þessum bæ. Glæsileg Álfsdóttir sem við eigum ásamt Snorra Snorrasyni frá Krossum. 

Ekki amarleg uppsetning á þessari skvísu :)



Æðislegt skref og síðan er hún flugvökur líka.




Næst er Skerpla frá Brekku í Fljótsdal en hún er í eigu Magga í Steinnesi og hefur verið hér í þjálfun. Frábærlega skemmtileg alhliðahryssa sem er í stöðugri framför og á eftir að gera það gott á hringvellinum. Skerpla er til sölu og veitir Biggi allar frekar upplýsingar um hana í s 896-1249.


Glæsihryssa með flottan fótaburð og rými.


Sjáið þið skrefið,,,,,


Og ekki vantar neitt upp á rýmið:)



Síðan sýndu Biggi og Ásdís Helga tvær Glymsdætur. Ásdís okkar er búin að vera að þjálfa klárhryssuna Emilíönu sem er undan Snældu-Blesa dótturinni Elvu frá Árgerði. Emilíana er einstaklega taumlétt, viljug og næm hryssa.

 Er hún einnig til sölu. Uppl 896-1249


Flottar saman á mjúku fallegu tölti.


Myndar klárhryssa með góð gangskil.


Já já þær kunna þetta, Emilíana var pínu hissa yfir öllu þessu fólki og hávaðanum :)


Læt þetta duga í bili, vona að þið hafið gaman að:)








18.04.2014 20:40

Fréttir af Gangster

Sælir kæru vinir.
Eins og ykkur er kannski kunnugt um þá skelltum við okkur með Gangster í Ölfushöllina á stóðhestaveisluna um síðustu helgi. Komum heim á sunnudag og hófum strax undirbúning fyrir næstu sýningu, Fáka og fjör á Akureyri sem haldin var nú á miðvikudagskvöldið. Vorum við bara sátt með  "sveitastrákinn okkar" innan um alla þrautþjálfuðu reiðhallahestana á sýningunum.

Framundan er vorið, gleði, merar og þjálfun á grænum grundum.

Gangster verður á húsnotkun hér í Litla-Garði fram að landsmóti.
Verð á húsnotkun: Sama verð og í fyrra 100,000 + vsk 

Eftir Landsmót í Sandhólaferju Hellu. 
100,000 + vsk + 25,000 girðingagjald


Allar upplysingar veitir Birgir í síma 896-1249 eða  [email protected] 







Hæðst dæmdu stóðhestar  á sýningunni Fákar og fjör. Ekki amarlegt gengi á ferð en þarna hjá Gangster og Bigga eru Ómur og Hinni Braga ásamt Óskastein og Magga:) 

12.04.2014 12:48

upprifjun

Við tiltekt í tölvunni fundust þessar myndir af Gangster 5 vetra í kynbótadóm á Króknum:) Gaman að rifja upp það liðna um leið og við bíðum spennt eftir kvöldinu. Eins og flestum er kunnugt er Gangster að koma fram á stóðhestaveislu í Ölfushöllunni ásamt syni sínum Farsæl frá Litla-Garði og sýnist okkur á öllu að Gangster ætli að skila sínu vel til afkvæmanna :)

11.04.2014 22:44

Ölfushöllin

Jæja gott fólk þá er suðurlandið skoðað í bak og fyrir, hrossaræktarbú heimsótt og síðan er stóðhestaveislan annað kvöld þar sem að Gangster frá Árgerði kemur fram ásamt syni sínum Farsæl frá Litla-Garði. Nú krossum við fingur að sveitastrákarnir kunni vel við sig í Ölfushöllinni, en þeirra vettvangur hefur til þessa verið  meira undir berum himni þar sem að þeir leggja mikið undir sig og eru ekki lengi á milli bæja.

22.03.2014 21:31

Snjóríki

Já kæru lesendur, þetta blessaða veður hefur svo sannarlega ekki farið framhjá neinum. Þetta hefur nú loksins gengið yfir en annar eins snjór hefur aldrei sést í Litla-Garði síðan í "gamla daga".. þökk sé norðvestan áttinni og fallega skjólbeltinu okkar. 
Það var ævintýri líkast að ríða út í dag og komumst við ekki hjá því að smella nokkrum myndum af færðinni.
Látum myndirnar tala sínu máli. Enjoy. 





Hér má sjá skaflinn á veginum í dag, æskilegra var að keyra utanvegur.


Hér er Stína á Jarli frá Árgerði en þau eru á veginum, á meðan Birgir stendur með Gangster uppi á skaflinum 

Stína og Jarl frá Árgerði við skaflinn


Endum þetta á einni mynd af þeim vinum, Sindra og Skunda :)

21.03.2014 18:39

Snyrtistofan

Yfirleitt getum við státað okkur af veðursæld hér í Litla-Garði, hér er með eindæmum snjólétt en síðustu tvo daga hefur ekki sést út úr augunum. En þá er bara að dunda með hrossin inni í skemmu, járna og skipta faxi. Var sett upp snyrtistofa í dag og var Biggi ekkert smá kátur að hafa 3 kellur í verkið :)





Fórum líka aðeins að kíkja til veðurs, Allir kátir að fá smá snjó :)



21.03.2014 18:35

vetrartíð

20.03.2014 20:23

Síðbúnar fréttir af ísmóti

Sælir kæru lesendur.
Það hefur verið frekar lítið um fréttir hjá okkur þar sem að ný heimasíða er í vinnslu og hefur það því miður komið niður á þessari en þetta stendur nú allt til bóta. Hér í Litla-Garði gengur lífið sitt vanagang, mikið riðið út og ótrúlega margt af spennandi hrossum á öllum stigum tamningar.
Biggi ákvað að bregða sér af bæ seinustu helgi og taka þátt í ísmóti á Leirutjörn, enda kærkomið að geta farið á útimót þar sem að reiðhallasýningar tröllríða öllu svona yfir háveturinn :) Hann fór með tvær hryssur á mótið. Fyrst skal nefna Skerplu frá Brekku sem er verulega flott hryssa í eigu Magnúsar Jósefssonar í Steinnesi. Hún er viljug, hágeng alhliðahryssa með mikið fas sem getur gengið hvort heldur sem er í íþrótta eða gæðingakeppni. Fór Biggi með hana í töltið og höfnuðu þau í 2. sæti með einkunnina 6,75 úr forkeppni. Flottur árangur þar sem hún er nú að stíga sín fyrstu skref á keppnisbrautinni.
Hin hryssan var Sigurdís frá Árgerði en hana fór Biggi með í 100 m flugskeið og báru þau sigur úr bítum með tímann 8,86. Þess má geta að Sigurdís var á ísmóti á Dalvík í febrúar og þá var tíminn 8,65. Verulega lofandi skeiðhryssa á ferð og spurning hvort komin sé staðgengill fyrir Blakk frá Árgerði, sem mörgum er kunnugur fyrir vasklega framgöngu í skeiði síðustu 15 ár. 


Þangað til næst, lifið heil :)


Skerpla frá Brekku í 2. sæti
Skerpla frá Brekku

10.01.2014 16:09

Alvöru vekringur

Vantar þig alvöru vakra, fallega og skemmtilega hryssu?

Tjékkaðu á Hágangsdótturinni Sigurdís --- Samfeðra Gangsternum og undan Flugumýrar-Ófeigsdótturinni Silfurtá frá Árgerði!

Hefur hlotið hæst 7.91 í kynbótadómi -

Höfuð: 8,0
   3) Svipgott  

Háls/herðar/bógar: 8,5
   1) Reistur   2) Langur   4) Hátt settur  

Bak og lend: 8,5
   3) Vöðvafyllt bak   6) Jöfn lend



Skeið: 9,0
   1) Ferðmikið   2) Takthreint  

Vilji og geðslag: 8,5
   2) Ásækni

Fet: 8,5
   2) Rösklegt   3) Skrefmikið  

Er í þjálfun og klár til prufu í Litla-Garði


07.01.2014 23:10

Gangster 2013

Skemmtileg samantekt yfir árangur Gangsters hér á hestafréttum :


Þar velta þau upp spurningunni Besti hestur á Íslandi 2013?


Gangster hér á sínum magnaða 9.5 brokki! :)

Talsvert hefur verið tamið í haust til viðbótar undan honum og er óhætt að segja að hann lofi býsna góðu sem kynbótahestur og hafa allar bestu hryssurnar í Litla-Garði og Árgerði farið undir hann síðustu tvö ár a.m.k



05.01.2014 21:44

Nýársfærsla

Jæja nýárið gengið í garð og komin hugur í Litla-Garðsbændur. Húsin smá saman að fyllast af spennandi hrossum og frúin á bænum ætlar að reyna að vera dugleg að uppfæra fréttir, en að sjálfsögðu mun hún Ásdís okkar skjóta inn fréttaskotum af og til. Biggi hefur fengið hana Kristínu Birnu til aðstoðar og bjóðum við hana að sjálfsögðu velkomna til starfa. Engar myndir hafa verið teknar af hrossum enn sem komið er, en það verður bætt úr því hið fyrsta og fáið þið þá lesendur góðir að fylgjast með því helsta hjá okkur í vetur.

Læt fylgja hér með skemmtilega jólamynd af Nönnu og Sindra en þau brugðu sér út og bjuggu til skemmtilegar snjófígúrur :)

26.12.2013 17:35

Gleðileg Jól



Gleðileg Jól til allra okkar lesenda og farsælt komandi ár!

Þökkum viðskiptin á vináttuna á árinu sem er að líða og hlökkum til þess næsta sem verður án efa ævintýralegt.



Stjarna ársins í okkar augum: Gangster frá Árgerði
Flettingar í dag: 3591
Gestir í dag: 584
Flettingar í gær: 876
Gestir í gær: 106
Samtals flettingar: 1324775
Samtals gestir: 83329
Tölur uppfærðar: 21.12.2024 15:19:55